LANDSPÍTALI VINNUR TIL VERÐLAUNA OG LÝSIR SÍÐAN YFIR NEYÐARÁSTANDI
18.05.2006
Hvað á maður eiginlega að halda eftir að Landspítalinn Háskólasjúkrahús fær lof og prís frá ríkisstjórninni fyrir afburða góða frammistöðu einn daginn en fáeinum dögum síðar er lýst yfir neyðarástandi á sömu stofnun? Enn mátti heyra óminn af hástemmdum yfirlýsingum Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, þar sem hún lýsti því yfir að spítalinn hefði náð stórkostlegum árangri, átti vart orð til að lýsa hrifningu sinni yfir ráðdeildarsemi forsvarsmanna sjúkrahússins, þegar hún mætti að nýju í fjölmiðlana til að segja þjóðinni að sem betur fer væri til neyðaráætlun fyrir sjúkrahúsið og hafi nú verið gripið til hennar! Reksturinn væri með öðrum orðum kominn í slíkar ógöngur að grípa þyrfti til neyðarúrræða.Ekki ætla ég að gera lítið úr árangri stjórnenda sjúkrahússins í bókhaldskúnstum og hagræðingu við erfiðar aðstæður.