Fara í efni

Um mig

Ég er fæddur í Reykjavík 17. júlí árið 1948. Foreldrar mínir eru Guðrún Ö. Stephensen, húsmóðir og Jónas B. Jónsson, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík.

Ég er giftur Valgerði Andrésdóttur. Hún er dóttir Margrétar Helgu Vilhjálmsdóttur, húsmóður og Andrésar Björnssonar, fyrrverandi útvarpsstjóra. Valgerður er erfðafræðingur og starfar við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Við eigum þrjú börn, Andrés f. 14. júní 1974, Guðrúnu f. 17. mars 1979 og Margréti Helgu, f. 24. janúar 1981.

Að loknu grunnskólanámi í Melaskóla og Hagaskóla lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík. Á menntaskólaárunum lagði ég lykkju á leið mína því veturinn 1966-67 var ég við nám í Brentwood í Englandi. Stúdentsprófi lauk ég vorið 1969 og hélt til Edinborgar í Skotlandi þar sem ég lagði stund á sagnfræði og stjórnmálafræði sem ég lauk með MA Honours prófi 1974.

Á námsárum mínum lagði ég stund á margvísleg störf á sumrum og einn vetur (1971-1972) var ég kennari við Grunnskóla Reykjavíkur. Á árunum 1974-78 stundaði ég rannsóknir við Edinborgarháskóla og ýmis störf en gerðist síðan fréttamaður við Ríkisútvarpið vorið 1978. Nokkru síðar færði ég mig yfir á fréttastofu Sjónvarps og var þar fram á haust 1988 en tvö síðustu árin hafði ég verið fréttamaður Ríkisútvarpsins á Norðurlöndum með aðsetur í Kaupmannahöfn.

1988 var ég kjörinn formaður BSRB og gegndi ég formennsku í samtökunum til haustsins 2009. Áður en ég var kosinn til að gegna formennsku í BSRB hafði ég komið talsvert að starfi í samtökunum, bæði átt sæti sem varamaður í stjórn en einnig hafði ég verið formaður eins aðildarfélags bandalagsins, Starfsmannafélags Sjónvarps, lengst af frá 1980 til 1988. Af öðrum störfum mínum má nefna að ég hef verið stundakennari í sagnfræði við Háskóla Íslands frá 1979.

Ég var kjörinn á þing árið 1995 fyrir Alþýðubandalag og óháða og síðan fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð árið 1999. Í aðdragandanum að stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, á fyrri hluta árs 1998, tók ég þátt í að stofna Stefnu, félag vinstri manna. Að stofnum þess félags kom fjöldi fólks af vinstri væng stjórnmálanna og kvennahreyfingu staðráðið í að halda uppi hugsjónum og merki vinstri stjórnmála. Á fyrstu mánuðum lífdaga sinna stóð Stefna fyrir kröftugum málfundum um velferðarmál, umhverfismál og utanríkismál. Félagið er enn við góða heilsu þótt það hafi ekki verið mikið gefið fyrir sviðsljósið í seinni tíð enda þykir Stefnufélögum almennt VG farnast prýðilega að halda uppi fána vinstrimanna á opinberum vettvangi.

Á vegum verkalýðshreyfingar og stjórnmála hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Þar má nefna stjórnarsetu í ETUC, Sambandi evrópskra verkalýðsfélaga, NFS, Sambandi norrænna verkalýðsfélaga, NTR, Sambandi opinberra starfsmanna á Norðurlöndum, NOFS, Sambandi norrænna starfsmanna í almannaþjónustu og PSI, Heimssambandi launafólks í almannaþjónustu.

Frá stofnun VG gegndi ég þingflokksformennsku fram í febrúar 2009 þegar ég tók við embætti heilbrigðisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Í lok september sagði ég af mér sem ráðherra vegna ágreinings vinnubrögð og stefnu en tók að nýju sæti í stjórninni í byrjun september 2010, nú sem ráðherra mannréttinda- og dómsmála og sveitarstjórna- og samgöngumála.