Fara í efni

VG Í SKAGAFIRÐI FÁI GÓÐA KOSNINGU

Komdu sæll Ögmundur.
Þakka þér fyrir ágæta grein þína um stjórnmál í Skagafirði. Þú fagnar meintum sinnaskiptum sjálfstæðismanns í virkjunar- og stóriðjumálum og vitnar í því sambandi í skrif Páls Dagbjartssonar, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins á Skagafjarðarvefnum, skagafjörður.com. Ég vek athygli þína á að Páll er ekki andvígari þessum stóriðjuáformum en svo, að hann talar enn fyrir virkjunum, sbr. eftirfarandi ummæli: "Fyrir liggja drög að aðalskipulagi fyrir Skagafjörð.  Þar er ekki gert  ráð fyrir virkjun við Villinganes en Skatastaðavirkjun er inni í skipulagstillögunum. Sjálfstæðismenn  vilja samþykkja fyrirliggjandi drög." Þar með eru Jökulsárnar okkar áfram undir. Friðlýsing Austurdals, sem ég styð, og Skatastaðvirkjun fara ekki saman.
Ég er sannfærð um að ef ekki tekst að tryggja sterka kosningu VG í komandi kosningum og aðkomu þeirra að stjórn sveitarfélagsins þá er engu að treysta. Tónninn í Samfylkingunni, sem hefur stutt virkjunar og stóriðjuáformin til þessa, er sá, að nú séu stóriðjuáform ekki á dagskrá þannig að umræðan sé ekki aðkallandi, Sjálfstæðisflokkurinn er í raun með sömu áherslur, sbr. "slakann" í umræðunni sem Páll Dagbjartsson talar um og þú gerir að umtalsefni. Framsókn segir lítið en allir þekkja hjartsláttinn í þeim flokki. Allt ber að sama brunni: VG verður að fá góða kosningu í Skagafirði – eins og reyndar alls staðar.
Skagfirðingur