Fara í efni

BJÖRT FRAMTÍÐ AÐ HÆTTI FRAMSÓKNAR

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð, ritar um Sveitarfélagið Skagafjörð á heimasíðu sinni undir yfirskriftinni Bara að oftar væri kosið. Grein hans ber þess glögg merki að hann þekkir lítið til mála í Skagafirði. Greinin sýnir jafnframt að verkalýðssinninn Ögmundur er enginn verkalýðssinni þegar um landsbyggðarverkafólk er að ræða. Síðustu fjögur ár hafa Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn, afturhaldsflokkar íslenskra stjórnmála hvor á sínum vængnum, haldið um tauma í sveitarfélaginu Skagafirði. Á þessum tíma hefur sveitarfélaginu verið stungið svefnþorn því allar tekjur sveitarfélagsins fara í að reyna að halda sjó i fjármálum. Uppbygging og framkvæmdir eru í algeru lágmarki þrátt fyrir brýna þörf á öðru. Og ljóst er að ef tekjur sveitarfélagsins aukast ekki á komandi árum verður áframhald á erfiðri fjárhagsstöðu. Á sama tíma hverfur ungt fólk á brott héðan, næstum helmingur úr hverjum árgangi. Af hverju? Jú vegna þess að hér er einhæft atvinnulíf og tekjur almennt lágar. Við þessu tvennu þarf að bregðast. Og hefði átt að vera búið að bregðast fyrir löngu. En meirihluti sveitarstjórnar hafði um mikilvægari mál að ræða svo sem hver fær að djamma í Brussel á kostnað skattgreiðenda og hver móðgaði hvern með bókun á sveitarstjórnarfundi. Það kalla þeir “vel unnið á síðasta kjörtímabili”. Svarið er markviss atvinnusköpun. Með iðnaði, með ferðaþjónustu, með auknum valkostum í landbúnaði, með frekari nýtingu sjávarfangs, já með því að nýta vel alla þá valkosti sem Skagafjörður á til atvinnusköpunar. Það eru kreddur að útiloka eitthvað vegna þess að það fellur ekki að einstrengingslegum hugsunarhætti Vinstri grænna. Það þarf að auka þau störf sem borga vel, það þýðir meiri tekjur í vasann á almennu verkafólki og jafnframt meiri tekjur fyrir fjárvana sveitarfélagið. En félagi Ögmundur má ekki til þess hugsa að fólki úti á landi sé borguð mannsæmandi laun. Félagi Ögmundur má ekki til þess hugsa að úti á landi fari fram atvinnusköpun. Af hverju? Ég held að það sé út af því að Vinstri grænir eru í eðli sínu óánægjuframboð. Þeir þrífast best á því að fólki líði illa og hafi það sem verst. Þeir hafa að vísu engar lausnir, bara bölmóð. En stundum er fólk svo illa statt og vonlaust að bölmóðurinn er það sem nær helst til þess, það sér alla liti tilverunnar sem svarta og vill draga alla aðra niður í sama bölsýnisfenið. Yfirskrift greinarinnar er Bara að oftar væri kosið. Það vildi ég líka. Ef við hefðum mátt kjósa að nýju einhvern tíma á liðnu kjörtímabili værum við Skagfirðingar löngu lausir við þá óværu sem Vinstri hreyfingin grænt framboð er. En nú er lag. Í sveitarstjórnarkosningunum þann 27. maí næst komandi vörpum við hlekkjunum af okkur. Sköpum bjarta framtíð, kjósum Framsóknarflokkinn.
Jón Einarsson

Þakka þér bréfið Jón. Hvað hin málefnalegu rök í bréfi þínu snertir, þá er það mín skoðun að þú getir ekki bæði sleppt og haldið, eyðilagt náttúruperlurnar með stórvirkjunum, reist risaverksmiðjur, eflt ferðamannaiðnaðinn og aukið fjölbreytni í atvinnulífinu. Ruðningsáhrifa stóriðjunnar er þegar farið að gæta því þensla á vinnumarkaði, tveggja stafa verðbólga og hækkandi vextir hafa leitt til þess að fjöldi fyrirtækja hefur hröklast úr landi, ekki síst í atvinnugreinum sem borga vel.
Þú segist vilja skapa "bjarta framtíð" með því að styrkja Framsóknarflokkinn til valda sem víðast og losna við "óværuna" sem þú sérð í pólitískum andstæðingum flokksins. 
Þú talar jafnframt gegn fordómum og bölmóð. Hvernig væri að byrja heima fyrir og líta í eigin barm? Kjósendur hvet ég til að lesa bréf Jóns Einarssonar vel og spyrja síðan sjálfa sig hversu eftirsóknarverður leiðsögumaður inn í framtíðina sé þar á ferð.
Með kveðju,
Ögmundur