Fara í efni

HIROSHIMA OG HRYÐJUVERKARÍKI

Í dag, hinn 6. ágúst, eru liðin 60 ár frá því að Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgina Hiroshima, sem leiddi til dauða og tortímingar án nokkurra fordæma. Ekki var nóg með að mannfall væri mikið; í áratugi fæddust börn á þessum slóðum vansköpuð af völdum þessarar sprengju og sprengjunnar sem fáeinum dögum síðar var varpað á Nagasaki. Bandaríkjastjórn ver og réttlætir þessar árásir enn þann dag í dag. Hún segir einfaldlega: Tilgangurinn helgar meðalið.
Nú er þetta umdeild söguleg staðhæfing. Margir halda því fram að Japanir hefðu gefist upp og lagt niður vopn eftir hefðbundinn hernað. Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki voru sérstakar fyrir þá sök að óbreyttir borgarar voru skotmarkið.
Talsmenn bandaríska sendiráðsins við Laufásveg myndu staðhæfa við ykkur lesendur góðir eins og þeir hafa gert í mín eyru að fjöldamorðin hafi verið til góðs, tilgangurinn hafi helgað meðalið. Þetta er mottó hryðjuverkamanna og einnig hryðjuverkaríkja. Þau eru tilbúin að myrða og tortíma ef það þjónar hagsmunum þeirra. Bandaríkin eru hryðjuverkaríki. Bandaríkjastjórn byggir á hugmyndafræði ofbeldis og framfylgir þeirri stefnu. Bandaríkjastjórn segir ekki koma til greina að eyða sínum kjarnorkuvopnum. Bandaríkjastjórn vill hafa þau upp í erminni og geta notað þau til að hóta andstæðingum. Bandaríkjamenn standa hins vegar fast á þeirri kröfu að önnur ríki en þau sem þegar hafa kjarnorkuvopn, komi sér ekki upp slíku vopnabúri. Í því samhengi vísa þeir til Samnings um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna ( Non-Proliferation Treaty) frá 1970.
Undir það get ég tekið að nauðsynlegt er að stuðla að því að sá samningur sé virtur en þá er líka grundvallaratriði að reisa kröfur á hryðjuverkaríki eins og Bandaríkin að eyða kjarnorkuvopnabúri sínu. Þá fyrst yrði málflutningur Bandaríkjamanna trúverðugur.
En bandaríska ríkisstjórnin hefur gengið lengra. Hún hefur grafið undan tveimur mikilvægum samnigum. Í fyrsta lagi sagði hún upp samningi frá 1972 um bann við uppsetningu gagnflauga til að granda langdrægum eldflaugum (Limitation of  Anti-Ballistic Missile Systems – ABM). Þetta var samningurinn gegn svokölluðum stjörnustríðsáformum, nokkuð sem Bnadaríkjastjórn ver nú milljöðrum dollara til að þróa. Hinn samningurinn sem Bandaríkjastjórn er að eyðileggja er fyrrnefndur NPT-samningur um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna frá 1970. Í þeim samningi er nefnilega kveðið á um að ríki sem aðild eiga að honum og skuldbinda sig til að koma sér ekki upp kjarnorkuvopnum, muni ekki eiga á hættu að slíkum vopnum verði beitt gegn þeim. Snemma í forsetatíð Bush hins yngra lýsti Bandaríkjastjórn því yfir að hún sæi fram á þann möguleika að beita smáum "staðbundnum" kjarnorkusprengjum "ef þörf væri á", á tilteknum landsvæðum. Þessar yfirlýsingar gengu þvert gegn anda NPT-samningsins.
Hvorki heyrðist hósti né stuna frá hinum ríku og voldugu í heiminum þegar Bandaríkjastjórn boðaði þessa stefnubreytingu. Í netslóðum hér að neðan er vísað í nokkra pistla um skyld efni, m.a. umfjöllun ríkisstjórnar Íslands um stjörnustríðsáformin. Það er dapurlegt til þess að hugsa að á Íslandi sitji ríkisstjórn sem aldrei hefur haft uppburð í sér til að gagnrýna stórtækustu terrorista heimsins. Það sem verra er, hún styður framferði þeirra í einu og öllu.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvad-segir-rikisstjornin-um-geimvopnaaaetlun-bandarikjastjornar
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gestafyrirlesari-utanrikisraduneytisins
https://www.ogmundur.is/is/greinar/bandarisk-mannrettindasamtok-lata-ad-ser-kveda
https://www.ogmundur.is/is/greinar/veit-rikisstjorn-islands-hverja-hun-er-ad-stydja
https://www.ogmundur.is/is/greinar/nato-i-nyrri-heimsmynd