Fara í efni

NATO í nýrri heimsmynd.

Birtist í Mbl 
LOKIÐ er í Reykjavík utanríkisráðherrafundi NATÓ. Íslenskir ráðamenn hafa fengið klapp á kollinn fyrir að standa sig vel enda allar fjárhirslur ríkisins opnaðar og Reykvíkingar hafa fengið afhjúpað listaverk á flötinni við Hagatorg til dýrðar hernaðarbandalaginu. Listaverkið er fallegt og við sem eigum erfitt með að tengja NATÓ við fegurð heimsins munum leita eftir öðrum tengingum í hugum okkar þegar við virðum verkið fyrir okkur um ókomna framtíð.

Undanfarin ár hafa verið mikið breytingaskeið. Fyrir hálfum öðrum áratug stóðu hernaðarblokkirnar gráar fyrir járnum hvor gegn annarri. Áhangendur þeirra réttlættu tilveru þeirra með skírskotun til þeirrar hættu sem stafaði af hinni. Friðarsinnar bentu hins vegar á að hernaðarbandalögin ættu það sameiginlegt að þjóna fyrst og fremst hagsmunum stærstu herveldanna, Sovétríkjanna annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar. Nú er Varsjárbandalagið ekki lengur til og Sovétríkin horfin. NATÓ er aftur á móti enn við lýði og meira að segja er talað um nauðsyn þess að stórefla það.

Í því sambandi er vert að staldra við tvennt: Áhrif Bandaríkjanna á veraldarvísu í breyttri heimsmynd og hins vegar stækkun NATÓ.

Hernaður og hagsmunir

Því er mjög haldið að okkur að slík ógn stafi nú af hryðjuverkum að nauðsynlegt sé að efla NATÓ. Í þessu ljósi réttlæta Bandaríkjamenn nú stóraukin útgjöld til vígbúnaðar eða 20% raunaukningu frá árinu 2000. Útgjöld til hermála hafa ekki verið aukin í eins stóru stökki í Bandaríkjunum síðan í Víetnamstríðinu. Jafnvel uppsögn Bandaríkjastjórnar á ABM-samningnum um bann við kjarnorkuvæddum gagneldflaugum og áform þeirra um að hrinda svokölluðum stjörnustríðsáætlunum í framkvæmd eru réttlætt með hliðsjón af meintri hættu á hryðjuverkum. Í Kína eru þessi áform litin öðrum augum eða sem pólitísk þvingunaraðgerð. Kínverjar hafa komið sér upp á þriðja tug langdrægra kjarnorkuflauga. Með því að beina flaugum sínum að Kína og hóta í ofanálag að koma upp kerfi sem réði við allar hugsanlegar árásir Kínverja yrðu Bandaríkjamenn búnir að stilla þeim upp við vegg. Þarna yrði ekki um að ræða gagnkvæman fælingarmátt vopnanna. Bandaríkjamenn hefðu með þessu móti tekið frumkvæðið í nýju vígbúnaðarkapphlaupi.

Fráleitt er að ætla að baráttan gegn hryðjuverkum verði til lykta leidd með stórauknum vígbúnaði. Þvert á móti mun vígbúnaðarkapphlaupið soga til sín fjármagn sem ella færi til að draga úr fátækt og ranglæti í heiminum en félagslegt ranglæti er einmitt sá jarðvegur sem ýtir undir hryðjuverk. Bandaríkjamönnum virðist hins vegar vera að takast að tryggja sér áframhaldandi forræði við gerbreyttar aðstæður í heiminum. Þeir hafa skilgreint nýja ógn og með hliðsjón af henni hafa þeir þjappað NATÓ-ríkjunum að baki heimsvaldastefnu sinni. Með ólíkindum er sú fylgispekt sem bandalagsríki þeirra sýna en að sjálfsögðu ber þar að hafa í huga að hagsmunir heimskapítalsins eru mörgum þessum ríkjum sameiginlegir. Ljóst er að Bandaríkjamenn og fylgifiskar þeirra horfa nú mjög til olíuhagsmuna, annars vegar við Kaspíahafið og þurfa þess vegna að tryggja sig austur á bóginn yfir Balkanskagann, til Rúmeníu og síðan í gömlu Sovétlýðveldunum og hins vegar við Persaflóann. Engin tilviljun er að morguninn eftir NATÓ-fundinn vaknaði heimsbyggðin upp við nýjar fréttir af hættunni sem stafaði af Írak.

Á NATÓ að breyta um nafn og hlutverk?

Þessu nátengd er hugmyndin um stækkun NATÓ sem eins og að framan er rakið þjónar vel hagsmunum Bandaríkjanna. En spyrjum í fullri alvöru hvort það væri ef til vill ráð að stækka NATÓ austur á bóginn og jafnvel láta ekki staðar numið í Evrópu. Spyrja mætti hvort friðurinn væri ekki þá fyrst tryggður ef öll ríki heims ættu aðild að bandalaginu.Vissulega þyrfti að breyta nafngiftinni því NATÓ vísar til Atlantshafsins. Þá koma Sameinuðu þjóðirnar fyrst upp í hugann. Sá hængur er hins vegar á að það heiti er þegar í notkun. Við höfum hinar Sameinuðu þjóðir sem eiga einmitt að vera samstarfsvettvangur allra þjóða heims til að stuðla að uppbyggingu, framförum og friði. Og fyrst allar þjóðir heims eru þar innanborðs er rétt að spyrja hvort ekki sé rökrétt að styrkja þann vettvang eða hvað skyldi standa í vegi fyrir því? Það skyldu þó aldrei vera samtvinnaðir pólitískir og hernaðarlegir hagsmunir stórvelda á borð við Bandaríkin sem standa þar í vegi; að þau vilji hafa fyrirkomulag sem tryggir þeim yfirráð í heiminum?

Nú er á það að líta að hernaðarstórveldin, í seinni tíð fyrst og fremst Bandaríkin, hafa haldið þannig á málum gagnvart Sameinuðu þjóðunum, þ.m.t. Öryggisráðinu, að þau tefla aldrei í tvísýnu möguleikum sínum til að taka frumkvæði. Þetta hefur þeim tekist bærilega en hins vegar er von til þess að á þessum vettvangi verði þeim smám saman gert að hlíta lýðræðislegum vinnureglum. Völd þeirra innan NATÓ hvíla hins vegar á traustari grunni enda er NATÓ fyrst og fremst hernaðarbandalag og sá sem hefur þar mesta burði hefur mest áhrif. Forræði Bandaríkjanna innan NATÓ hefur ekki verið alvarlega véfengt og nú virðast þær evrópsku óánægjuraddir sem heyrðust eftir árásirnar á Afganistan vera þagnaðar.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvers vegna svo mikið kapp er lagt á að viðhalda hernaðarbandalögum. Það er fyrst og síðast til að tryggja hagsmuni hernaðarstórvelda sem hafa læst auðvaldsklóm sínum um alla heimsbyggðina. Og íslensk stjórnvöld taka þátt í þessu algerlega gagnrýnislaust. Það væri óskandi að ríkisstjórn Íslands hefði meiri metnað.