Fara í efni

Bandarísk mannréttindasamtök láta að sér kveða

Í fjölmiðlum vestan hafs og austan keppast gagnrýnir fréttamenn við að fletta upp ummælum helstu haukanna í ráðuneyti Bush Bandaríkjaforseta nokkur ár aftur í tímann. Í ljós kemur að menn á borð við Richard Pearl, sem á sæti í ráðgjafaráði Pentagons ( bandaríska stríðsmálaráðuneytisins), Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz, aðstoðarvarnarmálaráherra og margir fleiri hafa um árabil hvatt til árása á Írak til að gæta olíuhagsmuna bandarískra fyrirtækja. Þetta hefur margoft verið rakið hér á heimasíðunni. Inn í þessa umræðu hafa fléttast samtök sem þessir aðilar stofnuðu árið 1997, Áætlun um Nýja Öld Bandaríkjanna, Project for the New American Century, en þau tala grímulaust fyrir bandarískum heimsyfirráðum. (Um þetta er m.a. fjallað í grein sem birtist hér á síðunni undir heitinu Veit ríkisstjórn Íslands hverja hún er að styðja?). Bandarísk mannréttindasamtök eru nú greinlega að verða sífellt meira uggandi um hvert stefnir og hvet ég lesendur að kynna sér umfjöllun á vegum samtakanna Læknar með Ábyrgð, Physicians for Social Responsibility, PSR. Netsíðan er: www.psr.org 

Þessi samtök, sem beita sér gegn kjarnorkuvígbúnaði, hafa m.a. varað við hættunni sem stafar af stjórnendum Bandaríkjanna. Vakin er athygli á því að Bush stjórnin hefur sagt upp samningum sem eiga að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna og má í því sambandi nefna samninginn um bann við langdrægum gagnflaugum frá árinu 1972, Antiballistic Missile Treaty, ABM samkomulagið sem svo er nefnt á ensku. Þá vekja samtökin athygli á því að nú sé talað um möguleikann á að vera fyrri til að beita kjarnorkuvopnum og að nota smáar sprengjur í takmörkuðum hernaði. Í nýlegu ákalli til bandarískra þegna frá þessum samtökum segir m.a. á ensku: "By ordering the development of new nuclear warheads, withdrawing our country from numerous non-proliferation and international treaties, and drawing up plans for a U.S. strike with nuclear weapons, our leaders have made the unthinkable more likely than ever before."

Með öðrum orðum , með þessa menn við stjórnvölinn er það sem við áður töldum ómögulegt orðið að raunverulegri hættu. Þar er átt við beitingu kjarnorkuvopna af hálfu Bandaríkjamanna.