Fara í efni

Gestafyrirlesari utanríkisráðuneytisins

Það er alltaf gagnlegt að fá utanaðkomandi fyrirlesara til að sækja okkur heim og varpa ljósi á á þau álitamál sem uppi eru í samtímanum. Utanríkisráðuneytið á þakkir skilið fyrir að bjóða til landsins David M. Malone forseta Alþjóðlegu friðarakademíunnar í New York til að halda fyrirlestur um stöðu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta er athyglisvert viðfangsefni, ekki síst vegna þeirra deilna sem risið hafa í tengslum við Íraksmálið. Fyrirlesturinn var fróðlegur og að mörgu leyti skemmtilegur þótt mér finnist ástæða til að gagnrýna hann mjög ákveðið um margt.
Í upphafi fyrislestrar síns í Norræna húsinu í gær gerði David M. Malone grein fyrir stofnun sinni sem meðal annars er rekin fyrir styrktarfé frá norrænum ríkisstjórnum, þar á meðal hinni íslensku.

Um Friðarakademíuna

Malone upplýsti að Friðarakademían ( International Peace Academy) hefði verið stofnuð fyrir 33 árum meðal annars fyrir tilstuðlan U Thants fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og hefði markmiðið verið að stunda rannsóknir og standa fyrir umræðu um leiðir til að koma í veg fyrir vopnuð átök og stuðla þannig að friðsamlegri sambúð í heiminum. Stofnunin starfar í nánum tenglsum við SÞ en nýtur stuðnings ríkisstjórna, atvinnufyrirtækja, stofnana og sjóða. Malone sagði Friðarakademíuna ekki mikla að vöxtum borið saman við aðrar samsvarandi stofnanir ("think tanks"), þar starfi aðeins 32 starfsmenn en frá 22 þjóðlöndum.

Breyttar áherslur hjá SÞ

Í fyrirlestrinum var rakið hvernig áherslur Sameinuðu þjóðanna hvað snertir friðargæslu hefðu verið að breytast á síðustu áratugum. Á dögum Kalda stríðsins hefðu Sameinuðu þjóðirnar fyrst og fremst einbeitt sér að því að koma í veg fyrir átök á milli ríkja og síðan viðhalda vopnahléi. Undantekningar frá þessu væri Kýpur og Kongódeilan þar sem SÞ hefði blandað sér í innbyrðis átök. Á árunum 1986/7 hefðu hins vegar gerst afdrifaríkir atburðir þegar Gorbatsjof Sovétleiðtogi hefði fyrir hönd Sovétríkjanna dregið sig út úr Kalda stíðinu ("resigned from the Cold War"). Í kjölfarið hefði komist á allgott samstarf á milli stórveldanna sem fljótlega hefði sagt til sín með lokum Íran/Írak stríðsins en á sex mánuðum hefði stórveldunum tekist í sameiningu að ljúka því stríði. Þar hefði þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Peres du Cuellar einnig komið við sögu. Frá þessum tíma hefði verið gott samkomulag um flest mál í Öryggisráði SÞ að undanskildum þremur deilumálum: Palestínumálinu, Kosovo og Írak. Varðandi Írak hefði þó í aðalatriðum verið samstaða með fulltrúum í Öryggisráðinu fram til 1995. Hins vegar segði það sína sögu að frá 1990 hefði aðeins 12 sinnum verið beitt neitunarvaldi í Öryggisráði SÞ og væri það af sem áður var í því efni.

Menn gleymi ekki því sem vel er gert

Í fyrirlestri sínum sagði Malone að menn horfðu iðulega framhjá því sem vel hefði tekist í starfi SÞ og oft væri umfjöllun um deilumál ekki í samræmi við stærðargráðurnar. Þannig hefðu aðeins nokkur þúsund manns fallið í Írak í innrásinni en í núverandi styrjöld í Afríkuríkinu Kongó hefðu um þrjár milljónir manna fallið síðan 1995 að því er talið væri og fimm ríki hefðu sent innrásarheri inn í landið aðallega til að fara þar ránshendi.
Fyrirlesarinn ræddi nokkuð um refsiaðgerðir eða þvingunaraðgerðir ("sanction regimes") en 14 sinnum hefði komið til slíks síðan 1990. Stundum hefði þetta gefið góða raun stundum mjög slæma. Yfirleitt hefði verið gripið til slíkra aðgerða í fullri sátt allra fulltrúa og athyglisvert væri að eftir bókun 1483 nú nýlega í Öryggisráði SÞ væri núverandi herstjórn í Írak með blessun SÞ. Um það hefði náðst samstaða sem vissulega væri mjög sérstakt.

Bandaríkin lengi haft andúð á alþjóðasamningum

Inn í fyrirlestur sinn fléttaði Malone áherslubreytingar í utanríkisstefnu Bandaríkjanna frá upphafi vega. Í hinni bandarísku hefð væri rík tilhneiging til einangrunarstefnu og andúð á alþjóðasamningum. Vísaði hann meðal annars í Versalasamningana 1919 þar sem Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti var einn aðalhvatamaðurinn  en Bandaríkjaþing felldi hins vegar samningana fyrir sitt leyti. Andstaða við alþjóðasamninga væri því ekki ný af nálinni. Malone sagði að í reynd væri ekki eins mikill munur á stefnu Clintons og Bush og margir vildu vera láta. Að vísu hefðu óskir Clintons gengið í aðra átt og hann aldrei verið sáttur við beitingu hervalds en hann hefði hins vegar ævinlega látið undan þrýstingi. Í kosningabaráttunni nú síðast hefðu Repúblikanar sagt að kæmust þeir til valda væri hringl og hik af þessu tagi liðin tíð. Vitnaði Malone í þessu sambandi sérstaklega í málflutning Condoleezzu Rice sem nú er öryggismálafulltrúi Bush.

Eru Bandaríkjamenn ef til vill að axla ábyrgð?

Undir lok fyrirlestursins velti gestur okkar vöngum og spurði hvort þegar allt kæmi til alls Bandaríkjmenn væru ef til vill eina þjóðin sem væri að reyna að gera eitthvað raunhæft til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna, t.d. gagnvart Kóreu og nú Íran? Vissulega er Bandaríkjamönnum mótmælt, en er það alltaf af heilum hug? Í þessu sambandi vék Malone sérstaklega að Íran. Allt orkaði þó tvímælis og kom fram hjá fyrirlesara að eftirrekstur gagnvart Norður Kóreu gæti til dæmis beinlínis hafa ýtt á eftir aukinni vígvæðingu í því landi.

Aðeins raunveruleikinn skiptir máli

Eftir fyrirlesturinn voru leyfðar fyrirspurnir og vík ég aðeins að örfáum þeirra og viðbrögðum við þeim. Við fyrirspurn um slæmar afleiðingar refsiaðgerða nefndi fyrirlesari Haiti sérstaklega en nefndi þó Írak á nafn. En hvað vildi hann segja um staðhæfingar þess efnis að andstæðingum stríðs í Öryggisráði SÞ hafi verið mútað eða þeir þvingaðir að fara að vilja Bandaríkjanna og samþykkja innrás í Írak 1990 (sbr. ályktun 678 frá 1990) og samstaðan því ekki af frjálsum og fúsum vilja? Í ljósi slíkra vinnubragða væri fróðlegt að heyra hans álit á því að Öryggisráðið hefði nú samþykkt yfirstjórn hernámsliðsins í Írak (ályktun 1483). Væri viðsnúningur fulltrúa í Öryggissráðinu til marks um styrk þess eða veikleika? Malone svaraði á þá leið að  hvernig sem samstaða hefði náðst í Öryggisráðinu þá hefði hún verið raunveruleg frá 1990 til 1995 og  raunveruleikinn væri það sem máli skipti. Honum láðist að svara seinna atriðinu, það er að segja varðandi ályktun 1483 sem sumum þykir vera til marks um eftirgjöf, nánast uppgjöf gagnvart Bandaríkjastjórn.  

Telur 11. spetember hafa breytt öllu

Í erindinu hafði komið fram að Malone teldi Bandaríkjastjórn vilja halda sig utan erfiðra deilumála ("messy conflicts") þar á meðal í Austurlöndum. Íraksmálið hafi þeir hins vegar fengið í fangið. Í framhaldi af þessu var spurt um félagsskapinn Project for New American Century sem allir helstu framámenn í utanríkisbatteríi  núverandi Bandaríkjastjórnar hefðu verið í. Nokkrir þeirra, þar á meðal núverandi varnarmálaráðherra hefðu sent Clinton forseta bréf þegar árið 1998 www.rense.com/general35/clinton.htm  og hvatt til hernaðaraðgerða gegn Írak til að tryggja bandaríska olíuhagsmuni. Ekki vildi David M. Malone gera mikið úr þessu. Þessir menn (upp hafði fyrirspyrjandi talið Rumsfeld, Perle, Wolfowitz, Cheney) hefðu komist fyrst til áhrifa eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september árið 2001 og þegar allt kæmi til alls væru áherslur þeirra engan veginn einsleitar. Ekki þykir mér þetta sannfærandi málflutningur í ljósi þess að þarna eru á einum báti allir helstu forkólfarnir í stefnumótun bandarískrar utanríkisstefnu, fyrir og eftir 11. september.

Verður NATO skúringatuska Bandaríkjamanna?

Varðandi tilraunir Bandaríkjamanna til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnavopna og vangaveltur fyrirlesara um það hvort Bandaríkjamenn væru ekki í raun sá aðili sem lengst gengi í þessu var spurt um uppsögn á ABM samningnum frá 1972 en samningnum var ætlað að takmarka smíði langdrægs gagnflaugakerfis (stjörnustríðskerfis) og einnig var minnt á að hótanir Bandaríkjamanna um að beita kjarnorkuvopnum í staðbundnum deilum græfu undan samningum sem ríki hefðu gert um að beita ekki kjarnorkuvopnum hvert gegn öðru. Sem svar við þessu minnti fyrirlesari á að Bandaríkjamenn hefðu aldrei verið mikið fyrir milliríkjasamninga. Fleiri fyrirspurninr komu fram og var meðal annars rætt um hlutverk SÞ sem aðili sem hreinsaði upp eftir Bandaríkjamenn. Malone sagði að langtímaminni Bandaríkjastjórna væri ekki mikið. Nú vildu þeir út úr Afganistan og innan Bandaríkjastjórnar væru ýmsir sem vildu strax út úr Írak, Rumsfeld væri í þessum hópi, aðrir eins og Wolfowitz vildu hins vegar koma á raunverulegu lýðræði í landinu og væri einlægur í þeirri afstöðu. NATO væri í hættu að verða tæki til að hreinsa upp eftir Bandaríkjamenn ("tool for mopping up"

Ekki gagnrýnin viðhorf

Sannast sagna kom þessi fyrirlestur mér að sumu leyti á óvart. Þótt ég ítreki að mér finnst gagnlegt og vekjandi að fá slíka gesti hefði ég engu að síður haldið að miklu gagnrýnni viðhorf kæmu fram sem endurspegluðu þá miklu umræðu sem fram fer á vettvangi friðar- og mannréttindahópa svo og í verkalýðshreyfingu, háskólum og víðar. Fram kom að David M.Malone er eindreginn NATO fylgjandi en mér kom á óvart að hann skyldi í flestum efnum  taka upp hanskann fyrir Bandaríkjastjórn, jafnvel á kostnað annarra. Frakkar sem hafa haldið uppi merki SÞ í Íraksdeilunni fengu þá einkunn að þeir skýrðu mál sitt oft vel en ættu kannski fremur að skýla viðhorfum sínum ("good at articulating their thoughts while they should perhaps rather conceal them").

Hvað með siðferðið?

Sameinuðu þjóðirnar hafa legið undir stöðugri skothríð frá Bush stjórninni, sbr. blaðagrein Richards Perle, eins valdamesta stefnumótanda í utanríkismálum hjá Bush, (Thank God for the death of the United Nations, http://www.guardian.co.uk/Iraq/Story/0,2763,918812,00.html) ekki orð um þetta frá fyrirlesara sem er þó að fjalla um Sameinuðu þjóðirnar með sérstöku tilliti til Bandaríkjanna. Nú er að koma óvéfengjanlega fram að Öryggisráðið sem aðrir hefur verið blekkt í bak og fyrir af hálfu Bush og félaga, ekki heldur orð um það. Hans Blix sem stýrði vopnaleitinni fyrir hönd SÞ, segir Bandaríkjastjórn hafa reynt að bregða fyrir sig fæti í Írak og hafa uppi blekkingar og ómerkilegheit, ekki orð um það, heldur er viðkvæðið: Við spyrjum bara hver raunveruleikinn er, ekki hvernig hann hafi orðið til!! Finnst Friðarakademíu siðferði ekki skipta máli?

Hvers vegna sögðu yfirmenn mannúðarhjálpar SÞ af sér?

Og varðandi afleiðingar efnahagsþvingana, þá er ástæða til að spyrja hvort Friðarakademíunni í New York finnist virkilega ekki skipta máli að æðstu yfirmenn mannúðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna þeir Denis Halliday og Hans von Sponeck skuli hafa sagt af sér til að mótmæla þjóðarmorði í Írak sem Öryggisráðið var ábyrgt fyrir því efnahagsþvinganirnar voru í samræmi við ákvarðanir þess. Talið er að á bilinu hálf milljón til ein milljón barna hafi látið lífið beinlínis af völdum þessara aðgerða. Það var hins vegar Bandaríkjastjórn sem hafði knúið Öryggisráðið til að samþykkja efnahagsþvinganirnar (sbr. upplýsingar í The Fire This Time eftir Ramsey Clark fyrrverandi dómsmálaráherra Bandaríkjanna bls. 154-155 og Calling The Shots: How Washington Dominates Today´s UN eftir Phyllis Bennis, Olive Branch Press, New York, 1996). Mörg fleiri dæmi má taka um yfirgang og þvinganir Bandaríkjastjórnar gagnvart fulltrúum í Öryggisráði SÞ. Í mars 2001 fluttu fulltrúar Ríkja utan hernaðarbandalaga ( Non-Aligned Movement), sem sæti eiga í Öryggisráði SÞ, tillögu um að komið yrði á fót verndar- eða eftirlitssveitum í Palestínu. Á meðal flutningsmanna var fulltrúi Kólumbíu. Þetta var Bandaríkjastjórn ekki að skapi enda beitti hún neitunarvaldi í ráðinu.  30. mars lýsti fulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins því yfir að þetta myndi hafa afleiðingar í för með sér í samskiptum Bandaríkjanna og Kólumbíu. Talsmaður ráðuneytisins, Richard Boucher, sagði m.a., "We will be discussing our views with the government of Colombia and reviewing that action in the context of our relations with Colombia both bilateral and multilateral". Þetta dæmi nefni ég nánast af handahófi. Þau dæmi sem Ramsey Clark rekur frá 1990 eru vægast sagt mjög sláandi.

Öryggisráðið blessar árásarliðið

Þá mætti hafa mörg orð um þá umræðu sem nú fer fram í kjölfar ályktunar 1483 sem blessar hernámsliðið. 22. maí, daginn sem ályktunin var samþykkt,  sameinuðust 150 friðarhópar í mótmælum gegn samþykkt Öryggisráðsins og aftur eru nú uppi ásaknir um gylliboð, mútur og þvinganir af hálfu Bandaríkjamanna. Þar er staðnæmst bæði við ríkar þjóðir og snauðar sem sæti eiga í ráðinu, hinar ríkari eru sagðar horfa til olíunnar, þær vilja ekki vera fjarri kökunni þegar henni er skipt, ákvörðun um að greiða útistandandi skuldir eru einnig sagðar hafa freistað Rússa og Frakka og síðan eru fréttir af tíðum heimsóknum bandarískra erindreka til fátækra ríkja sem nú eiga sæti í Öryggisráði SÞ á borð við Angóla, Kamerún, Chile og Gíneu í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Öll þessi síðastnefndu ríki eiga aðild að Ríkjum utan hernaðarbandalaga  sem ályktaði gegn árásinni á Írak á sínum tíma. Þegar til kastanna kom runnu þau sem sæti eiga í Öryggisráðinu hins vegar á rassinn. Aðeins Sýrland sat hjá. Talsmaður fyrrnefndu friðarhópanna 150, Rob Wheeler, lýsti því yfir að Bandaríkjamenn hefðu knúið sitt fram í krafti hótana og mútugreiðslna ("The United States was successful in bulldozing its way because it offered too many bribes and held out too many threats").    http://www.ips.org/

Þörf á víðsýnni umræðu í þágu lýðræðis

Fleiri spurningar koma upp í hugann og vonandi gefast mörg tækifæri til frekari umræðu um þessi mál á opinberum vettvangi. Mikilvægt er hins vegar að umræðan fari fram af víðsýni og að fram á sjónarsviðið verði leiddir aðilar sem eru gagnrýnir á framferði Bandaríkjastjórnar gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Sjálfur tel ég að lýðræðinu í heiminum stafi mjög raunveruleg ógn af núverandi valdhöfum í Bandaríkjunum. Jafnt innan Bandaríkjanna sem utan fer þeim fjölgandi sem eru þessarar skoðunar. Væri ekki ráð fyrir utanríkisráðuneytið að bjóða hingað til fyrirlestrahalds aðilum sem eru þannig þenkjandi og fá þá til að færa rök fyrir sínu máli?