Fara í efni

Hvað segir ríkisstjórnin um geimvopnaáætlun Bandaríkjastjórnar?

Birtist í Fréttablaðinu 15.04.04.
Svarið við þeirri spurningu er að ríkisstjórn Íslands hefur afskaplega lítið um þetta að segja - en það sem sagt er segir þeim mun meira.
Í nýbirtri skýrslu utanríkisráðherra Íslands greinir frá því að 13. júní 2002 hafi tekið gildi uppsögn Bandaríkjastjórnar á samnnigi um bann við uppsetningu gagnflauga til að granda langdrægum eldflaugum (Limitation of  Anti-Ballistic Missile Systems – ABM). Þetta var samningurinn gegn svokölluðum stjörnustríðsáformum Ronalds Reagans, þáverandi Bandaríkjaforseta á 9. áratugnum, en um þessi áform tókust þeir á um Reagan og Gorbatsjoff á Reykjavíkurfundinum 1986.

Nýtt vígbúnaðarkapphlaup í uppsiglingu?

George W. Bush yngri gat varla varla beðið að segja þessum samningi upp og var það eitt fyrsta verk hans í embætti Bandaríkjaforseta. Það olli miklum deilum á sínum tíma en virðist nú hafa fallið í skuggann af Íraksstríðinu. Að þessari gagnrýni er vikið í skýrslu utanríkisráherra Íslands: "Bandarísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að segja upp ABM-samningnum þar sem það kunni að leiða til nýs vígbúnaðarkapphlaups." Þetta er stóralvarleg ásökun en viðbrögð ríkisstjórnar Íslands eru í samræmi við önnur viðbrögð þegar stjórn Bandaríkjanna á í hlut. Í skýrslunni segir: "Að mati bandarískra stjórnvalda var samningurinn leifar frá kaldastríðsárunum og stóð að þeirra mati í vegi fyrir tilraunum með uppsetningu gagneldflaugakerfis". Já, en var það ekki tilgangurinn? Og er það ekki alvarlegt að Bandaríkjastjórn skuli nú hafa frumkvæði að nýju vígbúnaðarkapphlaupi.
Ekki þykir skýrsluhöfundum ástæða til að hafa þungar áhyggjur af því.

9 milljarðar dollara í Stjörnustríðsáætlunina á næsta ári

Á sama tíma og öllu þessu vindur fram segja þeir bandarísk stjórnvöld "halda ... áfram að efla eigin eldflaugavarnir m.a. með tilraunastarfsemi yfir Kyrrahafi. Fjölmörgum Evrópuríkjum hefur verið boðið að taka þátt í þessari undirbúningsvinnu og er stefnt að því að varnarkerfið nái til allra bandamanna þegar fram líða stundir. Fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir fjárveitingu rúmlega 9 milljarða Bandaríkjadala til að standa straum af tilraunum og útbyggingu fyrsta hluta eldflaugavarnarkerfisins í Alaska."
Þetta lítur sem sagt allt alveg ljómandi vel út að mati ríkisstjórnar Íslands – enda allar líkur á að við fáum að vera með! Samkvæmt fréttum virðist mönnum líka ganga ágætlega að réttlæta vígvæðinguna. Þar er gamalkunnugt ráð að koma sér upp óvinum sem þarf að verjast gegn.

Allt eins og í gamla daga

Um daginn bárust þau vafasömu tíðindi að Rússar væru að nýju farnir að tala um nauðsyn þess að bregðast við útþenslu NATO með því efla herstyrk Rússlands! Þetta er bara allt að verða eins og í gamla daga. Vinir Bush í hergagnaiðnaðinum geta svo sannarlega verið ánægðir með framgöngu sinna staðföstu manna.
Enn sem komið er ganga stjörnustríðsáformin snurðulaust og án mikillar umræðu. Ástæðan er eflaust sú að átökin í Írak kalla á athygli manna. Þó má búast við einhverri umræðu í júlí þegar tilraunahnetti, sem tengist þessum miklu áformum um vígvæðingu himinhvolfsins, verður skotið út í geiminn. Til hans er skírskotað með skammstöfuninni NFIRE (Near Field Infrared Experiment). Með hnettinum á að rannsaka áhrif af útblæstri eldflauga í geimnum svo síðar meir verði hægt að greina á milli óvinaflaugar og stróksins sem aftur úr henni stendur. Það fylgir sögunni að NFIRE hnötturinn sé þó einnig búinn vígtólum því á honum er búnaður sem hægt verður að nota til að granda flaugum sem fljúga hjá. Þessar upplýsingar eru ekki úr skýrslu utanríkisráðherra Íslands.
Þar þykir nægja, sem áður segir, að benda á að ABM-samningurinn sé að mati Bandaríkjastjórnar leifar frá kalda stríðinu sem standi í vegi fyrir uppsetningu nýrra vígtóla. Það gefur auga leið að slíkum hindrunum þarf að ryðja úr vegi. Eða hvað?