ÞARF EKKI AÐ TAKA SUMARFRÍ Í BARÁTTUNNI UM ÍSLAND?
Menn gerast nokkuð stóryrtir á Alþingi þessa dagana og þá ekki síst þegar kvölda tekur. Sjálfum fannst mér fara vel á því að einn varaforseta þingsins slíti fundi undir miðnætti einn daginn, nokkuð sem síðan hefur verið túlkað sem tilraun til valdaráns!
Jafnvel þótt hefðin sé sú að samráð sé um fundarlok þá er hitt óvenjulegt að varaforseta úr stjórnarandstöðu sé ætlað að kúska samflokksmenn sína þegar hart er deilt og þar á meðal um þinghaldið að næturlagi. Þá er hefðin sú að þingforsetar úr stjórnarmeirihluta stýri fundum. Sú hefð byggir á vel skiljanlegum rökum.
Yfirstandandi rimma verður ekki leyst með því að tala aðra á kaf eða kæfa þá sem vilja tala aðra á kaf. Hér leyfi ég mér að segja að ég tali af nokkurri reynslu.
Hvernig væri að semja um það að málið verði til lykta leitt fyrir árslok en í millitíðinni gæfist færi á að kalla fyrir þingnefnd (að nýju eða í fyrsta sinn) alla þá sem einhver þingmaður telji að eigi þangað erindi? Ekki væri til lítils unnið enda sjálft lýðveldið Ísland sagt vera í húfi.
Sjálfum finnst mér þessi deila ekki vera sú sem ég hefði viljað sjá um kvótakerfið. Kemur mér reyndar ekki á óvart. Á Alþingi sitja nær einvörðungu stuðningsmenn framsalskerfisins sem eru með þessu frumvarpi að innsigla meinsemdina en ekki uppræta hana; að líklegt megi heita að í næstu framtíð verði deilt um veiðigjaldið, hversu hátt eða lágt það skuli vera, en ekki um ranglætið sem fólgið er í sjálfu kerfinu. Það breytir þó ekki því að fyrr eða siðar verður þetta kerfi lagt af.
Eftir því sem ég kemst næst eru þau Sigurjón Þórðarson og Lilja Rafney, bæði í Flokki fólksins, einu þingmennirnir sem eru framsalskerfinu andvíg og þar með sammála meirihluta þjóðarinnar. Ég get ekki útilokað að einhverjir þingmenn kunni að vera á sama máli og þau Sigurjón og Lilja Rafney en sé sú raunin hafa þeir farið leynt með afstöðu sína.
Bæði VG og Samfylking höfðu lofað að fyrna framsalskerfið en stóðu hins vegar ekki við þau fyrirheit þegar þessir flokkar mynduðu meirihluta og hefði verið í lófa lagið að stokka kerfið upp. Þetta gerðum við ekki illu heilli og síðar var bætt í og grásleppunni, sem enn stóð út af, skellt í framsalskvótann rétt fyrir lok síðasta kjörtímabils. Þetta gerði VG. Það eru svik á borð við þessi sem eru að eyðileggja stjórnmálin, ekki þóf á þingi í nokkrar vikur.
Fólk veit varla hverju og hverjum á að trúa. Jafnvel fjármálaráðherrann, meintur höfuð skúrkur veiðigjaldsins, sagði, eftir því sem ég man best, í skýrslu sem hann vann fyrir samtök stórútgerðarinnar fyrir ekki svo ýkja löngu, að fyrning kvótakerfisns, jafnvel um hálft prósent árlega væri óásættanleg eignaupptaka sem gæti nánast orðið banabiti sjávarútvegsins. Þetta var ekki orðalag hans en inntakið var þetta. Með þessu móti hefði kerfið verið fyrnt á 200 árum – en ekki 20 árum eins og VG lagði til í árdaga. Á þetta minnti ég í blaðagrein nýlega. Þetta minnir á það að veiðigjaldsfólkið er upp til hópa í varðstöðu fyrir þá sem hafa hagsmuni af kvóta-framsalskerfinu – raunverulegir samherjar .
https://www.ogmundur.is/is/greinar/er-best-ad-hinkra-med-hamingjuoskir
En hvað með meinta valdaránsflokka? Þeir eru sjálfum sér samkvæmir í þessu máli, dyggir þjónar stórútgerðarinnar. Ekkert nýtt þar á ferðinni. Það sem er nýtt er hve rækilega þeir opinbera þjónkun sína og koma sér fyrir vikið út úr húsi hjá sístækkandi meirihluta þjóðarinnar. Um fylgispekt þeirra við stórútgerðina og ránskerfið í sjávarútvegi þarf enginn lengur að efast.
Um þetta ætti deilan að standa – um sjálft kerfið og réttmæti þess að kvótinn gangi í erfðir til frambúðar; að örfáir einstaklingar fái í sína vasa og veski milljarða sem ættu með réttu að vera hjá þjóðinni.
Um ranglæti framsalskerfisins stendur núverandi deila hins vegar ekki. Væri tekist á um sjálft kerfið talaði ég ekki fyrir sumarhvíld þingmanna. En í þeirri deilu sem nú stendur yfir um upphæð tímabundins gjalds á ránsfenginn get ég alveg unnt öllum samherjunum á Alþingi hvíldar um sinn.
Svo mætti með haustinu taka að nýju upp þráðinn í baráttunni fyrir framtíð lýðveldisins.
Sjá einnig nýlegar greinar:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/einleikur
https://www.ogmundur.is/is/greinar/umraeda-um-kvotakerfid-verdur-ad-vera-truverdug
-----------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/