ER BEST AÐ HINKRA MEÐ HAMINGJUÓSKIR?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.05.25.
Ég skal viðurkenna að sjálfum er mér þvert um geð að óska eigendum stórútgerðarinnar á Íslandi til hamingju með eitt eða neitt. Þar með er ekki sagt að ég sjái ekki hvítan blett á stórútgerð eða eigendum hennar þegar málin eru skoðuð í sögulegu ljósi.
Það er hins vegar margt breytt frá dögum Bogesens sem átti útgerðarplássið nánast með húð og hári en fann vel að merkja til nokkurrar ábyrgðar á byggðarlaginu fyrir vikið. Ekki svo að skilja að ábyrgðarkenndin hafi verið slík að höfundi Sölku Völku, Halldóri Laxness, hafi þótt ástæða til að hneigja sig fyrir þessari sögupersónu sinni. Samt sem áður er ástæðulaust og hreinlega ósanngjarnt að þurrka út úr minningunni bókasafnið í fiskvinnslunni í Vestmannaeyjum í tíð Einars ríka sem lagði ofurkapp á að starfsfólk sitt hefði greiðan aðgang að menningunni eins og fram kemur í sögu hans sem Þorbergur skráði meistaralega. Sömu sögu má eflaust segja af Einari Guðfinnssyni í Bolungarvík og fleiri mætti nefna.
Enn er að sjálfsögðu að finna marga ágætismenn í rekstri stórútgerðarfyrirtækja og ekki má gleyma því að fráleitt er að alhæfa um öll þessi fyrirtæki sem sum fylla eigin vasa eigenda sinna en önnur byggja á samvinnurekstri. Málið snýst því ekki um gott fólk eða slæmt, gráðugt eða gjöfult, heldur um gott fyrirkomulag og slæmt.
Nú bregður svo við þegar stjórnvöld hyggjast skattleggja ofurgróða stórútgerðarinnar ögn meira en verið hefur í því skyni að styrkja innviði samfélagsins, að dælt er tugmilljónum í auglýsingarherferð um að slíkt sé óþarfi. Menn þurfi ekki annað en að litast um í byggðum við sjávarsíðuna, allt standi þar í miklum blóma, innviðir traustir, ágæt bókasöfn og gróskumikið mannlíf; Bogesen endurfæddur og gjöfulli á samfélag sitt en nokkru sinni.
Ýmsir hafa orðið til að andmæla þessari söguskoðun, minnt á það hve illa framsalskerfið hafi leikið margar sjávarbyggðir, hvernig eignarhald í sjávarútvegi sé komið langan veg frá þeim sem verðmætin skapa og hvernig annars konar þróun hefði getað stuðlað að enn gróskumeira samfélagi sem byggði á meiri jöfnuði og minna auðræði en nú sé raunin.
En þá að hamingjuóskum sem sumir telja að stórútgerðin verðskuldi.
Í fyrsta lagi er auðlindagjaldið sem nú er deilt um nánast aukaatriði í samanburði við þær kröfur sem ýmsir stjórnamálaflokkar, Samfylking, Vinstrihreyfingin grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn settu fram um og upp úr síðustu aldamótum, nefnilega þær að framsalskerfi kvótans yrði aflagt í áföngum, kerfið fyrnt með öðrum orðum og veiðiheimildum ekki úthlutað varanlega. Mörgum þótti krafa VG um 5% fyrningu á ári, þannig að það tæki 20 ár að umbylta kerfinu, langt frá því að vera nógu róttæk. Nú er hins vegar svo komið að stórútgerðin kemst upp með það að segja, og það átölulaust, að jafnvel svo mikið sem 0,5% fyrning á ári, það er að segja kerfið endurhannað á 200 árum, væri óásættanleg skerðing á einkaeignarrétti! Að þessi málflutningur skuli líðast hlýtur að teljast vera blóm í hnappagat talsmanna stórútgerðarinnar. Að deilurnar standi aðeins um upphæð veiðileyfagjalds er í sjálfu sér sigur stórútgerðarinnar.
Í öðru lagi virðast málsvarar útgerðarinnar ætla að komast upp með það að halda því fram að fráleitt sé að skilja fyrstu grein fiskveiðistjórnarlaganna, sem kveður á um að sjávarauðlindin sé „sameign íslensku þjóðarinnar“, á þann veg að þjóðin eigi þar eitthvað. Það eigi engin neinn fisk fyrr en hann sé kominn í netið, um borð í skip og í vinnslu. „Sameign“ snúist bara um að farið sé að dæmi Bogesens og stuðlað að gróskumiklu mannlífi eins og auglýsingaherferðin kenni. Semsagt, við, almenningur, eigum í reynd ekkert.
Og í samræmi við það ákvað Hæstiréttur að ógilda úrskurð Héraðsdóms sem á sínum tíma komst að þeirri niðurstöðu að þjóð í þrengingum bankahrunsáranna hefði verið heimilt að dreifa úthlutun aflaheimilda til fleiri aðila en þeirra sem töldu sig eiga að fá allan makríl í sinn hlut á þeirri forsendu að þeir hefðu veitt makríl um þriggja ára skeið þegar þessi flökkufiskur gerði sig heimakominn við Íslandsstrendur í kjölfar bankahruns. Ekkert var af stórútgerðinni tekið en hún vildi líka allan viðbótarafla í sinn hlut. Og Hæstiréttur sagði stórútgerðina eiga rétt á skaðabótum frá íslenskum skattgreiðendum!
Málið er ekki enn í höfn en þegar er búið að dæma tveimur fyrirtækjum samtals rúmar 700 milljónir í skaðabætur auk dráttarvaxta. Fimm fyrirtæki höfðu næga sómakennd til að draga kröfur sínar á hendur almenningi til baka. En það breytir ekki því að stórútgerðin var látin vinna sigur eina ferðina enn.
En áður en kemur að því að óska henni til hamingju með sigra sína væri kannski rétt að hugsa aðeins fram í tímann. Svo er að skilja að margir landsmenn vilji nú ganga í Evrópusambandið. Að því er ég best veit vill þjóðin þó öll að við stöndum vörð um auðlindir okkar og þá ekki síst sjávarauðlindina okkar.
En okkar hverra?
Kannski væri rétt að hinkra með hamingjuóskirnar.
-------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/