Fara í efni

ÞAKKIR TIL FORMANNS SAMTAKA ÁHUGAFÓLKS UM SPILAFÍKN

Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, fékk í vikunni birta grein á vefmiðlinum vísi.is, Spilakassar í skjóli mannúðar og björgunar, og tek ég mér það bessaleyfi að birta hana hér að neðan.

Ástæðan er margþætt.

Í fyrsta lagi er ástæða til að hafa umræðu um peningaspil í hámælum sem aldrei fyrr vegna þess að rekendur spila-vítis-véla eru að færa sig upp á skaftið. Þar er um að ræða bæði Háskóla Íslands sem niðurlægir sjálfan sig dag hvern með rekstri spilavíta og Íslandsspil sem Rauði kross Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg reka. Þessir aðilar þrýsta nú á um að víkka út starfsemi sína með peningaspilum á netinu. Íþróttahreyfingin er þar með í för, hreyfing sem er í þann veginn að gera sig vanhæfa til þess að taka við opinberum styrkjum til æskulýðsstarfs vegna áfergju sinnar í afla fjár á vafasaman hátt, með peningaspilum og áfengissölu á íþróttaviðburðum.

Í öðru lagi birti ég grein Ölmu Hafsteinsdóttur af eigingjarnari ástæðum. Hún leitast nefnilega við að rétta minn hlut í kjölfar ásakana forsvarsmanna í Rauða kross Íslands og Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem skrifuðu nýlega grein þar sem þeir höfðu uppi misvísandi aðdróttanir á hendur mér frá ráðherratíð minni sem dómsmálaráðherra og síðar innanríkisráðherra. Ég er þakklátur formanni Samtaka áhugafólks um spilafíkn að setja það í letur sem sannara reynist.

Ætla má að forsvarsmenn Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafi verið að bregðast við nýlegum skrifum mínum og eflaust viljað friða eigin samvisku með því að beina gagnrýni annað en í eigin hús: https://www.ogmundur.is/is/greinar/spilavandinn-horft-fram-og-til-baka

Grein Ölmu Hafsteinsdóttur:

Spilakassar í skjóli mannúðar og björgunar

Þorsteinn Þorkelsson hjá Landsbjörg og Ingvar Örn Ingvarsson hjá Rauða krossi Íslands skrifuðu nýverið sameiginlega grein í Morgunblaðið í nafni Íslandsspila. Í stað þess að fjalla um ábyrgð sína á þeim spilakössum sem Íslandsspil eiga og reka, beina þeir athyglinni að einum fyrrverandi ráðherra málaflokks fjárhættuspila. Skrif þeirra eru augljóslega tilraun til að afvegaleiða umræðuna. Í stað þess að horfast í augu við eigin þátt í innleiðingu og útbreiðslu spilakassa og þeim samfélagslega skaða sem þeir valda, ráðast þeir á þann ráðherra sem einn hefur haft kjark til að andæfa þeim og reynt að vernda þá sem verst standa og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér – gegn þessum sömu mannúðarsamtökum sem lýsa sér svo. Umræddur ráðherra, Ögmundur Jónasson, hefur svarað fyrir sig eins og við var að búast og skýrt frá samskiptum sínum við rekstraraðila spilakassa og tilraunum til þess að koma skikk á þennan rekstur. Sjá grein sem birtist í Morgunblaðið þann 28.11 á vef Ögmundar Íslandsspilum svarað

Tvímenningarnir láta ósagt að hvergi í lögum um spilakassa Íslandsspila er þeim gert skylt að halda þessum rekstri áfram. Hann er ekki lagaskylda, heldur val - og það er val sem þeir bera sjálfir ábyrgð á. Grein þeirra afhjúpar þannig ákveðna kaldhæðni. Svokölluð mannúðarsamtök sem njóta góðs af kerfisbundnu arðráni á viðkvæmum hópi – spilafíklum – geta nefnilega seint talist mannúðarsamtök. Á skrifstofum Rauða krossins og Landsbjargar virðist vera litið svo á að velferð fólks, brotnar fjölskyldur, atvinnumissir, andlegt og líkamlegt þrot og jafnvel sjálfsvíg séu ásættanlegur fórnarkostnaður svo lengi sem spilakassarnir eru opnir og skila tekjum. Það stenst aftur á móti enga siðferðilega skoðun að mannúðarsamtök verndi tekjulind sína af meiri hörku en þau huga að fólki í neyð; með gjörðum sínum segja þau meira en nokkur blaðaskrif geta falið. Það er einfaldlega ekki hægt að predika mannúð og björgun þegar peningastreymið sprettur af fíkn og örvæntingu.

Það sem höfundarnir skauta jafnframt algjörlega fram hjá er vilji almennings. Samkvæmt könnunum Samtaka áhugafólks um spilafíkn vilja 86% þjóðarinnar að spilakössum verði lokað til frambúðar og rúmlega 70% landsmanna eru neikvæð gagnvart því að Rauði krossinn og Landsbjörg fjármagni starfsemi sína með spilakössum. Afstaða meirihluta þjóðarinnar er því afgerandi Viðhorf til spilakassa á Íslandi. Þegar fulltrúar þessara svokölluðu almannaheillasamtaka líta framhjá svo einarðri niðurstöðu er ekki lengur hægt að ímynda sér að um vanþekkingu sé að ræða. Hér er greinilega á ferðinni djúpstæð afneitun lítils hóps innanbúðarmanna gagnvart óþægilegum sannleika sem aðrir sjá en þeir ekki.

Í þessu máli snýst umræðan ekki um flokkspólitík eða persónur, þvert á það sem Þorsteinn og Ingvar gefa í skyn. Hún snýst um þá grundvallarspurningu hvort ásættanlegt sé að fjármagna málefni og verkefni í almannaþágu með svo skaðlegum hætti að lífi einstaklinga og fjölskyldna er beinlínis rústað. Svarið við þeirri spurningu liggur í augum uppi í samfélagi sem vill kenna sig við mannúð – almenningur vill loka spilakössunum – en hjá samtökum sem auglýsa sig undir slíkum formerkjum er engin svör að fá. Ef Rauði krossinn og Landsbjörg vilja standa undir nafni, þurfa þessi samtök að horfast í augu við staðreyndir og axla ábyrgð. Það gera þau ekki með því að afvegaleiða umræðuna, heldur með því að stuðla að raunverulegum breytingum.

Samtök áhugafólks um spilafíkn skora á Þorstein Þorkelsson og Ingvar Örn Ingvarsson að setja fram skýra og opinbera greinargerð þar sem útskýrt er hvernig rekstur spilakassa samræmist gildum þeirra samtaka sem þeir tala fyrir, með hvaða hætti þeir réttlæta þann samfélagslega kostnað sem honum fylgir og hvers vegna Rauði krossinn á Íslandi og Landsbjörg velja að fjármagna starfsemi sína með þessum hætti.

Höfundur er formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn

https://www.visir.is/g/20252818355d/spilakassar-i-skjoli-mannudar-og-bjorgunar

------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)