Fara í efni

ÍSLANDSSPILUM SVARAÐ

Birtist í Morgunblaðinu 28.11.25.
Tveir fulltrúar Íslandsspila skrifa í sameiningu grein í Morgunblaðið 15. nóvember síðastliðinn um spilavandann á Íslandi, hvað gert hafi verið og þó sérstaklega það sem ógert hafi verið af hálfu þrettán dómsmálaráðherra, þar á meðal mín. Yfirskrift greinar þeirra Þorsteins Þorkelssonar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Ingvars Arnar Ingvarssonar frá Rauða Krossi Íslands vekur einmitt sérstaka athygli á þessu síðastnefnda því hún er, Ögmundur: einn af þrettán. Greinin gengur svo út á það að sýna fram á að ég hafi verið, sem aðrir dómsmálaráðherrar frá því spilakassarnir komu til sögunnar á Íslandi, sinnulaus um málefnið.
Grein þessara fulltrúa Íslandsspila er um margt ágæt en hefði þó getað orðið enn betri ef meiri sanngirni hefði verið gætt og farið í öllu rétt með.

Sumt rétt hermt …

Í fyrsta lagi skal það þó sagt að hárrétt er hjá þeim félögum að þegar á heildina er litið hafa stjórnvöld sýnt andvaraleysi og ekki nýtt sér það vald sem þau hafa til að reisa skorður við spilafárinu. Ábyrgð þeirra og þar af leiðandi ábyrgðarleysi er því ótvírætt.
Í öðru lagi er það einnig rétt að ekki er hægt að setja alla spilakassa undir sama hatt að því leyti að þeir eru miságengir og að í þá átt gangi samtenging spilakassa Happdrættis Háskóla Íslands. Undir þetta sjónarmið hef ég vissulega tekið. Einnig það er rétt hermt. Það breytir því þó ekki að spilakassar Rauða kross Íslands og Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru ekki síður hannaðir til að hafa fé af fólki enda hafa margir orðið illa úti frammi fyrir þeim, jafnvel misst aleigu sina. Þá vantar það inn í samanburð þeirra félaga að horfa til staðsetningar spilasala, hver nálægð þeirra er til dæmis við unglingaskóla og félagsmiðstöðvar.
Í þriðja lagi er það rétt að fólk sem ánetjast spilafíkn er sáralítill hluti landsmanna. Nefna þeir hlutfallstölur sem rannsóknir hafi leitt í ljós. Engu að síður sé spilavandinn að ágerast og sé þróunin „ógnvænleg“. Þar gef ég mér af samhenginu að þessir fulltrúar Íslandsspila horfi fyrst og fremst til óbeislaðrar netspilunar.

… en misvísandi

Varðandi meint andvaraleysi allra dómsmálaráðherra ætla ég að leyfa mér að bera af mér sakir. Þótt það kunni að vera rétt að ég hefði getað sett happdrætti Háskóla Íslands strangari skorður með reglugerðarbreytingu og þannig bætt samkeppnisstöðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða kross Íslands og SÁÁ í kapphlaupinu við háskólahappdrættið um að komast ofan í vasa spilafíkla, var staðreyndin sú að ég ætlaði mér stærri hluti. Í umfjöllun minni í Morgunblaðinu frá 20. október, sem var tilefni viðbragða fulltrúa Íslandsspila, skýri ég lið fyrir lið hvað hafi verið á döfinni í ráðherratíð minni með rannsóknarvinnu, samráðsfundum með rekstraraðilum, lagafrumvarpi sem ég lagði fram á Alþingi og síðan kynningu á framtíðaráformum sem gengu út á að ná betur utan um vandann.
Andstaðan hafi hins vegar verið mikil á þingi og frá hendi rekstraraðila að sama skapi að öðru leyti en því að þeir vildu eigin hlut meiri en hlut samkeppnisaðila sinna minni. Í grein þeirra Þorsteins og Ingvars Arnar kemur í ljós að enn eru Íslandsspil við þetta heygarðshornið; að eðlilegast væri, segja þeir, að hafa „eitt spilaumhverfi undir forræði almannaheillafélaganna ...“ Og „almannaheillafélögin“ eru að sjálfsögðu þeirra félög. Þau eigi með öðrum orðum að vera ein um hituna!

Annað er ósæmilegt

Þær breytingar sem ég vildi gera á rekstrarumhverfi fjárhættuspila í ráðherratíð minni byggðu á því að ná fram málamiðlun. Í ljós hafði komið að algert bann á þessum ófögnuði myndi ekki hljóta samþykki en alltaf var öllum gert ljóst að það hefði ég helst viljað. Við svo búið vildi ég freista þess að ná fram sem víðtækastri sátt. Skal ég viðurkenna að þar vanmat ég aðstæður. Ég vanmat Alþingi og ég lét blekkjast af fagurgala rekstraraðila. Smám saman rann það þó upp fyrir mér að fyrir þeim vakti það eitt að bíða af sér óþægilega ráðherrann. Þegar menn nú leyfa sér að láta að því liggja að sá ráðherra hafi í reynd aldrei reynt að lyfta svo mikið sem litla fingri í átt til breytinga þá verður það að segjast að slíkt er í hæsta máta ósanngjarnt ef ekki hreint og beint ósæmilegt.
Það er hins vegar mat mitt nú í ljósi ógnvænlegrar þróunar sem birtist í vaxandi spilavanda, sem þeir Þorsetinn og Ingvar Örn benda réttilega á, að þær hugmyndir sem ég setti fram í ráðherratíð minni gangi alltof skammt, ég tel að ekkert minna dugi en algert bann við fjárhættuspilum, hvort sem er á netinu eða spilakössum Háskóla Íslands, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða krossins undir merkjum Íslandsspila. Þar reynir nú sem fyrri daginn á vilja ríkisstjórnar og Alþingis að ganga gegn þessum aðilum sem margítrekað hafa sýnt fram á óábyrga afstöðu sína.

Ábyrgð og ábyrgðarleysi

En hver er þá ábyrgð rekstraaðila? Er hún engin önnur en að hlíta þeim lögum og reglum sem þeim eru settar? Svo má skilja á fulltrúum Íslandsspila.
En varla er þetta svo. Við höfum dæmi um allt annað. Í reynd er það aðdáunarvert hve margir hafa sýnt ábyrgð. Það gerði SÁÁ þegar samtökin sögðu sig frá Íslandsspilum fyrir fáeinum misserum. Ég neita því þó ekki að mér hefur fundist samtökin furðu lágróma þegar fjárhættuspil ber á góma í þjóðfélagsumræðunni.
Þeir eru svo til sem hafa sagt sig frá rekstri spilakassa þvert á eigin fjárhagshagsmuni. Er mér eftirminnilegt þegar eigendur veitingastaðar í Þorlákshöfn sögðust ekki geta hugsað sér lengur að hafa spilakassa í sínum húsakynnum jafnvel þótt þeir gæfu mikið í aðra hönd. Eigendur Ölvers í Glæsibæ í Reykjavík ákváðu á dögunum að skila spilakössum til föðurhúsanna einnig þvert á eigin hagsmuni; Olís lokaði kössum i afgreiðslubúðum sínum og síðan eru það allir hinir sem aldrei hafa sóst eftir spilakössum í sínum húsakynnum.
Fróðlegt væri að heyra álit talsmanna Íslandsspila á þessum gjörðum.

Að segja eitt en gera annað

Hvað varðar meintan vilja Íslandsspila til að koma á spilakortum til að hamla gegn spilafíkn þá er ljóst að sá vilji gekk aldrei lengra en svo að án þess að staða samkeppnisaðila um fénýtingu spilafíkla væri samræmd yrði ekkert gert af hálfu Íslandsspila. Ég fylgdist grannt með fréttum af nefnd sem sett var á laggirnar fyrir fáeinum misserum til að ræða regluverk um spilakassa. Mér er það minnisstætt að haft var eftir fulltrúa Áhugafólks um spilafíkn, sem eru samtök þeirra sem þekkja vanda spilafíkla best, að þrátt fyrir tal í fjölmiðlum um vilja til fyrirbyggjandi aðgerða á borð við spilakort, hefði sá vilji ekki komið fram í nefndinni í tillöguformi. Þar hefði áhugi rekstraraðilanna fyrst og fremst beinst gegn því ranglæti sem þeir byggju við á samkeppnismarkaði og að það ranglæti færðist nú óðfluga yfir á netið.
Spilafíklar eru hlutfallslega fáir. Það er rétt hjá talsmönnum Íslandsspila. En þegar krónurnar eru taldar sem renna til Háskóla Íslands og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Rauða kross Íslands þá snúast hlutfallstölurnar við. Þá vegur þungt aleiga spilafíkilsins sem rennur til æðstu menntastofnunar landsins og þeirra samtaka sem kenna sig við almannaheill. Þá tengingu ættu þau að forðast að skreyta sig með á meðan þau eru völd að annarri eins ógæfu í lífi margra og raun ber vitni.

------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)