Fara í efni

PSI: KRÖFTUGUSTU HEIMSSAMTÖK LAUNAFÓLKS

Í Genf í Sviss hefur í vikunni staðið árlegur stjórnarfundur í Public Services International (PSI), Samtökum launafólks í almannaþjónustu. Ég á sæti í stjórn PSI, tilnefndur af norrænu verkalýðssamtökunum, sem mynda eins konar samráðsheild innan þessara samtaka, og er þetta þriðji stjórnarfundurinn, sem ég sit frá því ég var kjörinn til stjórnarsetu á heimsþingi samtakanna í Ottawa í Kanada árið 2002 og hef ég sagt frá þessum fundum hér á síðunni, sbr. HÉR og HÉR.
Ég tek nokkuð mikið upp í mig í yfirskrift þessarar frásagnar en þetta er einfaldlega mitt mat og hef ég fylgst talsvert með starfi alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar.

Starfandi í öllum heimsálfum

PSI eru heildarsamtök 20 milljóna launamanna í öllum heimsálfum. Í hverri heimsálfu eru starfandi deildir. Í Evrópu eru annars vegar EUROCON, European Constituency (yfirleitt vísað til sem EUREC en það er stjórnarnefnd svæðisins), sem tekur til allrar Evrópu og EPSU (European Public Services Union), sem tekur til EES, það er hins Evrópska efnahagssvæðis. Heimssamtökin, PSI, hafa látið mjög til sín taka gagnvart alþjóðastofnunum þar sem ákvarðanir eru teknar sem snerta hagsmuni almannaþjónustu og hagsmuni launafólks en grundvallarmarkmið samtakanna er að standa vörð um og bæta almannaþjónustuna ( þ.e. grundvallarþjónustu samfélagsins, hvort sem er á sviði heilbrigðismála, félagsþjónustu, menntamála eða varðandi vatn, skólp, rafmagn o.s.frv.) og berjast fyrir réttindum og kjörum þeirra sem veita þá þjónustu en það er fólkið sem að þessum samtökum standa. 
Á  undanförnum árum hefur þróunin verið í þá átt, að á vettvangi alþjóðastofnana eru teknar ákvarðanir sem snerta almannaþjónustuna og þá sem þar starfa. Þær stofnanir, sem í hlut eiga eru einkum Alþjóðabankinn, Aþjóðagjaldeyrissjóðurinn (og þá einkum gagnvart ríkjum Þriðja heimsins), OECD og, ekki síst í seinni tíð, Alþjóðaviðskiptastofnunin, World Trade Organisation þar sem nú er tekist á um GATS, General Agreement of Trade in Services, Almennt samkomulag um verslun á sviði þjónustu.

GAPS en ekki GATS

PSI hefur leitað eftir samstarfi við önnur alþjóðaverkalýðssamtök og einnig svokölluð "frjáls félagasamtök" (Nongovernmental organisations) og haft nokkurn árangur í þeirri viðleitni. Samsvörun við samstarf af þassu tagi hér heima er sú breiða samstaða sem hefur myndast um herferðina Vatn fyrir alla, þar sem samtök launafólks, stofnanir og félagasamtök leggja áherslu á að réttur til vatns verði skilgreindur sem mannréttindi og félagslegur réttur sem eigi heima í stjórnarskrá landsins.
Af nýlegum aðgerðum PSI af þessu tagi má nefna þá breiðu samstöðu verkalýðshreyfingar og ýmissa samtaka um að að stöðva GATS samningana þar til samkomulag næst við verkalýðsheyfingu og samtök sem berjast fyrir almannahag, við ríkisstjórnir um nokkuð sem hefur verið kallað GAPS (General Agreement on Public Services). Á íslensku héti þetta Almennt samkomulag um almannaþjónustu.
Upphafsmaður þessarar hugmyndar er Brendan Martin, forstöðumaður rannsóknarstofnunar um alþjóðamál (sem heitir Public World), en þess má geta að Brendan Martin flutti fyrirlestur á vegum BSRB í Reykjavík í september árið 1999. Fyrirlesturinn vart gefinn út og er hægt að nálgast hann hér á heimasíðu BSRB. Samtökin One World Action og Alþjðóasamband neytendasamtaka (Consumers International) eiga þegar aðild að þessu átaki ásamt PSI. Fjöldi annarra samtaka hefur sýnt áhuga á GAPS.
Hugmyndin er sú, að gerður verði samkomulagsrammi þar sem skilgreind verði mannleg, félagsleg og efnahagsleg réttindi. Í öðru lagi verði kveðið á um skyldur ríkisstjórna að tryggja þessi réttindi. Í þriðja lagi verði umfjöllum um leiðir til að ná skilgreindum markmiðum; í þriðja lagi verði síðan kveðið á um skuldbindingar samnningsaðla.
Þetta er hugsað til að skapa breiða samstöðu í samfélaginu þar sem að máli kæmu verkalýðsfélög og frjáls félagasamtök. Þetta gæti, með öðrum orðum, leitt til vitundarvakningar um baráttumarkmið okkar. Þá gæti samkomulag af þessu tagi, ef vel væri á haldið, verið skuldbindandi fyrir ríkisstjórnir og síðan mætti víkka þetta út á heimsvísu. Hér hafa menn í huga samningana um GATS sem áður segir. Ef forsenda GATS væri GAPS væri vel komið.

Brúum bilið

Á grundvelli samstöðu af þessu tagi stendur nú til að birta yfirlýsingu – sem PSI og einnig BSRB á aðild að – sem svar við yfirlýsingu stærstu fjölþjóðafyrirtækja heimsins nýlega um að hraða beri GATS samningum með það fyrir augum að flýta einkavæðingu almannaþjónustunnar. Þess má geta að í yfirlýsingu frá PSI árið 2003 var sett fram sú hugmynd að myndað verði eins konar þing sem veiti WTO aðhald varðandi GATS samningana (sjá nánar HÉR).Ég minnti á þetta á fundinum og kom þá í ljós að þessari hugmynd er haldið vakandi en við engar undirtektir, hvorki að hálfu WTO né einstakra ríkisstjórna. Mike Waghorn, aðstoðarframkvæmdastjóri PSI, en á hans herðum hvíla einkum samskiptin við WTO, upplýsti að því miður benti ekkert til þess að Alþjóðaviðskiptastofnunin væri að mildast í afstöðu sinni varðandi kröfur um einkavæðingu. Þvert á móti virtist hún jafnvel vera að forherðast í afstöðu sinni. Sagði hann að tillögur frá Evrópusambandinu, eða öllu heldur kröfur sambandsins, á hendur þriðjaheimsríkjum hvað þetta snertir, hefðu komið eins og köld gusa framan í menn nú nýlega, í aðdraganda fundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong í desember. Þar yrði því stál í stál að hans mati. 
Af þessum sama meiði breiðrar alþjóðlegrar samstöðu er síðan GCAP, Global Call for Action Against Poverty, Ákall um aðgerðir gegn fátækt. Ákallið er sprottið úr jarðvegi verkalýðshreyfingar og frjálsra almannasamtaka. PSI hefur brugðist við þessu kalli með nokkru sem hefur verið kallað Brúum bilið. Tilnefndir hafa verið þrír dagar á þessu ári sem sérstakir baráttudagar til að vekja athygli á þeirri ábyrgð sem hvílir á heimsbyggðinni að brúa bilið milli ríkra og snauðra þjóða í heiminum. PSI lét búa til hvít armbönd sem fólk var hvatt til að bera í þessu átaki til að vekja á því athygli. Fyrsti baráttudagurinn var 1.júlí. Hann var valinn með hliðsjón af fundi leiðtoga helstu iðnríkja heims (G8) í Skotlandi á þessum tíma. Af þessu tilefni afhenti BSRB Davíð Oddssyni, þáverandi utanríkisráðherra, hvítt armband frá PSI, sbr. HÉR. 
Næsti baráttudagur var 10. september en þá stóð fyrir dyrum að þúsaldarmarkmið SÞ yrðu rædd á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þessi dagsetning var jafnframt helguð baráttu fyrir öflugri velferðarþjónustu (Quality Public Services) en PSI hefur í þessu átaki um að brúa bilið viljað leggja áherslu á samhengið á milli baráttu fyrir jöfnuði og góðri velferðarþjónustu. Ekki sé þetta síst mikilvægt í fátækum ríkjum og síðan að sjálfsögðu fyrir efnaminni hluta ríkari samfélaga. BSRB lét nú gera armband með íslenskri áletrun: Öflug almannaþjónusta er undirstaða velferðar, sbr. HÉR.
Þriðji baráttudagurinn verður svo 10. desember í aðdraganda fyrrnefnds fundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, sem fram fer í Hong Kong 13. til 18. desember.

Kvennahreyfingin á Íslandi

Barátta íslenskra kvenna vakti verðskuldaða athygli og stóðu allir bókstaflega á öndinni þegar sagt var frá þátttökunni á útifundunum 24. október. Ég reyndi að skýra stöðu mála bæði varðandi launamun og aðra þætti sem þarna koma til álita. Einsog sagt var frá þessu fyrst hefði mátt skilja að ástandið væri verra á Íslandi en nokkurs staðar í heiminum. Eftir að ég hafði skýrt málin og lagt áherslu á að ég teldi það ekki einskorðast við Ísland að hefðbundin kvennastörf væru lakar launuð en hefðbundin karlastörf, varð ég þess var að margar konur á fundinum jánkuðu til að samsinna þessu. Var greinilegt að þeim þótti meira en lítið vafasamt að menn gætu þvegið hendur sínar í öðrum löndum hvað þetta snertir. Síðan vakti ég athygli á íslenska yfirvinnusamfélaginu sem skýrði hina djúpu kynjagjá að hluta, því karlar ynnu að jafnaði meiri yfirvinnu en konur. Hitt væri svo alvarlegt mál og margstaðfest í könnunum, að til staðar væri launamunur sem ætti sér enga aðra skýringu en þá að hann væri kynbundinn. Ég sagði frá könnun Félagsvísindastofnunar, sem unnin var fyrir HASLA, Hagrannsóknarstofnun launafólks í almannaþjónustu, sem BHM, BSRB, KÍ og SÍB eiga aðild að, þar sem þetta meðal annars kom fram. Þá fjallaði ég um fæðingarorlofslögin íslensku og einnig þá umræðu sem fram hefði farið að undanförnu um ofbeldi gegn konum, en allt þetta mætti ætla að hefði skapað jarðveg fyrir fjöldahreyfingu auk þess sem hún ætti sér rætur í samsvarandi fundi árið 1975, fyrir réttum 30 árum. Þessi sögulega tenging hefði skipt verulegu máli. Réttlætiskennd samtímans hefði tengst hinni sögulegu taug. 

Heilbrigðisþjónustan og alþjóðavæðingin

Enda þótt á þessum stjórnarfundi hafi fyrst og fremst verið rætt um breytingar á skipulagi PSI með það fyrir augum að gera samtökin markvissari í starfi, þá má engu að síður segja að mál málanna hafi nú, sem endranær verið alþjóðavæðingin. Hún birtist í ýmsum myndum, meðal annars í þeirri jákvæðu mynd að fulltrúar verkalýðshreyfingar úr öllum heimshornum koma saman að bera saman bækur sínar eins og stjórnarfundur PSI er ágætt dæmi um. Neikvæðari dæmi eru hins vegar sorglega mörg. Þannig er á vettvangi PSI mikið rætt um afleiðingar alþjóðavæðingar innan heilbrigðiskerfisins.
Meðal annars í tengslum við alþjóðavæðinguna hafa sterk fjármálaöfl þrýst á ríkisstjórnir  víðs vegar um heiminn að markaðsvæða almannaþjónustuna, þar á meðal heilbrigðisþjónustuna. Yfirleitt hafa fyrstu skrefin verið hin sömu, hreingerningar, matseld, upplýsingakerfi hafa verið einkavædd. Síðan hefur komið að margvíslegri rannsóknarvinnu og þá einstökum læknisverkum. Í umræðu á stjórnarfundinum var varað við því að menn gæfu einkavædda þjónustu upp á bátinn sem tapað stríð. Það þyrfti þvert á móti að standa sérstakan vörð um marga þessara þátta ekki síst þau starfssvið sem ófaglært fólk sinnti því einkavæðingunni fylgdu iðulega rýrari kjör fyrir það fólk. Varðandi einkavæðinguna almennt var bent á að hin almenna regla hafi verið sú þegar samningar hafi verið gerðir við einkafyrirtæki, að ábyrgðin og allt sem flokka mætti undir raunverulega áhættu, hafi hvílt hjá hinu opinbera.
Ýmsir umhugsunarverðir þættir hafa komið upp í umræðunni. Þannig er bent á að mikill skortur er á vinnuafli innan heilbrigðisþjónustunnar í flestum löndum. Að hluta til er þetta vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðanna. Hlutfallslega fjölgar í röðum eldri kynslóðarinnar. Það þýðir að hlutfallslega er hlutfall þeirra sem eru í starfi minna. Þetta þýðir að þeim fjölgar hlutfallslega sem þurfa á aðhlynningu að halda á sama tíma og hlutfall þeirra sem sinna aðhlynningarstörfum fækkar. Annað er að konum, sem borið hafa uppi heilbrigðisþjónustuna, bjóðast nú víða aðrir starfsmöguleikar og betur launuð störf. Þetta hefur síðan þýtt að ríku löndin hafa lagt áherslu á að ráða menntað hjúkrunarfólk frá þriðja heiminum en það hefur valdið þeim hrikalegum vandræðum ekki síst í þeim löndum þar sem eyðni og aðrir alvarlegir sjúkdómar herja. Þá er einnig á það að líta að fylgikvillar fátæktar eru sjúkdómar og bágara heilsufar en hjá þeim sem búa við efnahagslega velsæld.

Einn þátturinn sem tengist þessu viðfangsefni og kom til umræðu er hvernig markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar dregur úr möguleikum til heildstæðrar skipulagningar heilbrigðisþjónustunnar. Í þessu sambandi var sérstaklega vísað til öldrunarþjónustu og almennrar heilbrigðisþjónustu. Þetta kom einng mjög ákveðið fram í fyrirlestri Görans Dahlgrens, hins kunna sérfræðings á sviði heilbrigðismála, sem flutti fyrirlestur í Reykjavík í boði BSRB í maí 2004 (sjá bækling með erindinu sem BSRB gaf út sjá HÉR). Göran Dahlgren segir mjög ákveðið að reynslan sýni að einkavæðing grafi undan samfellu heilbrigðisþjónustunnar.

Verkalýðshreyfingin og mannréttindin

Verkalýðshreyfingin beitir sér í þágu mannréttinda með margvíslegum hætti, þar á meðal fyrir rétti launafólks til að mynda samtök og starfa með lýðræðislegum hætti. Því fer fjarri að slík grunnréttindi séu viðurkennd um allan heim. Á fundum PSI koma alltaf upp nöfn sömu ríkjanna. Núna komu sérstaklega til umfjöllunar Eþíópía, Zimbabwe, Nepal og Kolombía. Síðastnefnda landið, Kolombía er efst á blaði með hrikalegan blóði drifinn feril að baki. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs voru 42 baráttumenn innan verkalýðshreyfingarinnar myrtir. Það eru að vísu helmingi færri en á sama tíma í fyrra. Hins vegar hafa helmingi fleiri verkalýðsforkólfar verið fangelsaðir í ár en í fyrra. PSI og mörg aðildarfélög samtakanna hafa beitt sér af alefli til stuðnings verkalýðshreyfingunni í Kolombíu og sendi stjórnarfundurinn nú frá sér hvatningu um að allir leggist á árarnar og herði róðurinn.
Í upphafi stjórnarfunda PSI erum við jafnan minnt á stöðu mannréttinda í mörgum löndum heims því þá eru lesin upp nöfn þeirra sem ekki gátu sótt fundinn. Þannig gat fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar í Palestínu ekki sótt fundinn annað árið í röð.
Rætt var um stöðu mála í Írak en þar fær verkalýðshreyfingin ekki að starfa óáreitt. Í ágúst sl. var sett á fót eins konar eftirlitsnefnd sem tók yfir alla sjóði á vegum verkalýðssamtaka og meinar hún þeim aðgang að þeim. Síðan munu vera uppi áform um að koma á nýrri skipan á forsendum stjórnvalda. Alþjóðasamband frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU) hafa snúið sér til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og farið fram á að hún beiti sér í þessu efni.

Almannaþjónusta er óaðskiljanleg lýðræðinu.

Á fundinum voru teknar ýmsar ákvarðanir sem varða leiðir til að auka samskipti innan PSI. Þá var ákveðið að bæta enn leiðir til að afla þekkingar og miðla henni. Þá skyldi enn hertur róðurinn í þá veru að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku sem varðar almannaþjónustuna. PSI lítur svo á að stefna samtakanna þurfi að byggja á lýðræðislegum vilja allra aðildarfélaganna, svara þörfum notenda og veitenda þjónustunnar. Byggt er á þeirri hugsun að öflug almannaþjónusta sé ekki einvörðungu grundvöllur velferðar. Hún er einnig hornsteinn lýðræðisins.