Fara í efni

Alþjóðasamband starfsfólks í almannaþjónustu - Public Services International

Undanfarna daga hef ég setið stjórnarfund í Alþjóðasambandi starfsfólks í almannaþjónustu, Public Services International (PSI). Samtökin taka til allra heimsálfa og er geysilega fróðlegt að heyra frásagnir og lesa skýrslur frá öllum hornum heimsins. Engin samtök í heiminum, leyfi ég mér að fullyrða, er eins kröftugt mótvægi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðabankann, Alþjóðaviðskiptastofnunina og aðrar valdastofnanir og valdatæki alþjóðafjármagnsins og einmitt þessi samtök. Yfir stöðuna í þessu samskiptum var rækilega farið og lagt á ráðin um starfið á komandi ári.
Um heim allan stendur slagurinn á milli fjármagnsaflanna annars vegar og almannahagsmuna hins vegar. Hinir fyrrnefndu hafa sótt mjög í sig veðrið á undanförnum árum. Verkalýðsshreyfingin heyr varnarbaráttu og oft við erfið skilyrði.

Eftir Kalda stríðið eru fjármunir takmarkaðir

Hún á við fjárhagsvandræði að stríða og er án efa ein ástæða þessa sú að eftir að Kalda stríðinu lauk er minna um fjárstuðning frá hinu opinbera bæði austan og vestan. Stjórnvöld litu svo á að verkalýðshreyfing væri miklivægt afl sem betra væri að hafa sín megin í hinum pólitísku átökum. Nú vilja ráðandi öfl hins vegar verkalýðshreyfinguna sem hljóðasta. Þess vegna er fjárstreymið takmarkaðra. Að sjálfsöðgu koma félagsgjöldin frá launafólkinu. Það er hins vegar á það að líta að víða er fátækt mikil og takmarkaðir fjármunir af þeim sökum, alla vega þegar komið er með þessa fjármuni inn í dýrt umhverfi alþjóðastofnana þar sem slagurinn fer að hluta til fram.

Dráp og limlestingar

En það eru ekki bara fjárhagserfiðleikar sem hrjá verkalýðshreyfinguna og baráttufólk hennar. Í mörgum löndum er hreinlega um það að ræða að verkalýðsforkólfar eru fangelsaðir, pyntaðir og drepnir. Hrikalegast er ástandið að þessu leyti í Kólumbíu (sjá samsvarandi frásögn frá samsvarandi fundi fyrir réttu ári hér á síðunni), en í flestum heimshornum eru ófá dæmi um aðfarir af þessu tagi. Hér er um að ræða átök um réttindi verkafólks en einnig er tekist á um einkavæðingu almannaþjónustunnar. Hvort tveggja er til dæmis uppi á teningnum í Kólumbíu. Þar eru mjög hörð átök um einkavæðingu rafmagns, vatns og velferðarþjónustu. í Suður-Kóreu eru mikil átök um réttindi launafólks og hafa stjórnvöld mætt kröfum starfsfólks í almannaþjónustu af mikilli hörku með brottrekstri úr starfi og fangelsunum. Þess má geta að samtök norrænna ríkisstarfsmanna, NSO, þar sem Jens Andrésson, formaður SFR og varaformaður BSRB, fer nú með formennsku, hafa tekið þátt í alþjóðlegum mótmælaaðgerðum í Seul.

Heilbrigðisþjónusta í uppnámi

Mjög víða eru átök um heilbrigðisþjónustuna. Vandinn birtist í margvíslegu formi. Alls staðar eru fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sammála um mikilvægi þess að halda henni í almannaeign og á forræði almennings. Annað sé ávísun á mismunun og misrétti. Í þessu samhengi hafa menn áhyggjur af Þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Menn gera sér grein fyrir því að verði opnað fyrir einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar í Evrópusambandinu, eins og mun gerast að öðru óbreyttu, þá verður þess skammt að bíða að kröfur um einkavæðingu munu berast í gegnum GATS samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. En því fer fjarri að einkavæðingin sé fólki alls staðar efst í huga. Í mörgum fátækum ríkjum er það verulegt áhyggjuefni hve margt fólk sem menntar sig til starfa innan heilbrigðisþjónustunnar er keypt upp í ríkari löndum. Eftir standa hin snauðu lönd með sjúkrahús full af sjúklingum en án starfsfólks!  Fulltrúi frá Filippseyjum sagði þess mörg dæmi að fólk í þorpum á landsbyggðinni í sínu heimalandi hefði ekki séð lækni í fimm ár. Hann taldi upp lönd sem læknar og annað hjúkrunarfólk hefði haldið til: Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Noregur... Ein hlið þessara mála væri bág aðstaða heima fyrir og bágborin réttindi. Þess vegna þyrfti að vinna að því rétta stöðu velferðarþjónustunnar heima fyrir og tryggja starfsfólkinu grundvallarréttindi. Fram kom í umræðunni að þeirri hugmynd hefði verið hreyft að ríkum löndum bæri að greiða fátækum ríkjum, sem yrði af menntuðu heilbrigðisstarfsfólki, skaðabætur. Á fundinum var dreift upplýsingum um þetta efni, m.a. grein sem birtist 1. desember í International Herald Tribune eftir Hilde F. Johnson ráðherra þróunarsamvinnu og alþjóðamála í norsku ríkisstjórnnni. Fram kom í greininni að í Afríku væri hlutfall heilbrigðisstarfsmanna  aðeins 0.8 fyrir hverja eitt þúsund íbúa - eða með öðrum orðum, ekki einu sinni einn á móti eitt þúsund. Í Evrópu er hlutfallið 10.3 og í Bandaríkjunum 9,9 heilbrigðisstarfsmenn á hverja þúsund íbúa. En dæmi um þróunina: Árið 2001 skráðu 473 hjúkrunarfræðingar frá Zimbabwe sig til starfa í Bretlandi. Ekki mikill fjöldi hjá milljónaþjóð kynni einhver að segja. En myndin dekkist heldur betur þegar fram kemur að þetta ár útskrifuðust 737 hjúkrunarfæðingar í Zimbabwe. Í Zambíu, samkvæmt grein Hilde, hafa 600 læknar verið menntaðir síðan landið fékk sjálfstæði árið 1964. Aðeins 50 eru enn eftir í landinu! Geta þetta verið réttar tölur?!! Alvarlegasta málið af öllum á heilbrigðissviðinu er þó að allra mati alnæmisvandinn.

Alnæmi

Ég er sannfærður um að langt er í frá að almennt geri menn sér grein fyrir því hve alvarlegt vandamál alnæmi er í mörgum fátækum ríkjum, einkum ríkjum Afríku sunnan Sahara. Nú er svo komið í heiminum að um 40 milljónir manna eru smitaðir, þar af um 3 milljónir barna. Fjöldi smitaðra eykst jafnt og þétt. Á hverjum einasta degi smitast um 14 þúsund manns. Ástæðan fyrir því að fjöldi smitaðra er ekki enn meiri er sú að á milli 2 og 3 milljónir deyja af völdum sjúkdómsins árlega. Í fyrra er talið að dánartalan hafi náð 3 milljónum. Álagið á heilbrigðis- og allt efnahagskerfi hlutaðeigandi ríkja er gífurlegt. Að ekki sé minnst á hinar mannlegu þjáningar. Þörf er á heimsvakningu á þessum alvarlega vanda og heimsátak er brýnt.

Fulltrúi Palestínu á fundinum

Í fyrsta skipti í langan tíma var fulltrúi Palestínu á stjórnarfundi PSI. Á fundinum sem ég sat í fyrra hafði fulltrúi Palestínu reynt að koma en ekki fengið leyfi ísraelskra yfirvalda að sækja fundinn. Fulltrúinn sem er kona frá Nablus, hafði verið á heimsþingi PSI árið 2002 og lýst þá ástandinu í heimalandi sínu á ómyrkan hátt. Sendinefnd ísraelska verkalýðssambandsins mun ekki hafa verið skemmt og yfirgaf þingið. Til þessa atburðar er rakið ferðabannið sem síðar var sett á fulltrúa Palestínu. Reyndar hafði viðkomandi einstaklingur margoft áður þurft að sæta ferðabanni og margvíslegum hömlum. Sorglegt er til þess að vita að palestínska og ísraelska verkalýðshreyfinigin skuli ekki hafa náð betur saman en raun ber vitni. Í því sambandi má nefna að verkalýðshreyfingin í Ísrael á nú mjög undir högg að sækja af hálfu ríkisstjórnar landsins.

Staða kvenna, ungs fólks og farandverkafólks

Rætt var um leiðir til að styrkja stöðu kvenna og ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar. Þá fór fram umræða um árangur af áróðursherferðum á vegum PSI um launajafnrétti kynjanna. PSI hefur lagt að aðildarfélögunum að halda þessu baráttumáli hátt á lofti. Í fyrirlestri á þinginu var sýnt fram á samhengið á milli fátæktar og jafnréttis. Því meiri fátækt, þeim mun meiri ójöfnuður. Sama samhengi er á milli stöðu velferðarþjónustunnar og stöðu kvenna. Því veikari sem þjónustan er þeim mun erfiðari er staða kvenna. Hvatt var til áframhaldandi vinnu á þessu sviði. Undir umræðunni um stöðu kvenna komu fram upplýsandi upplýsingar um farandlaunafólk og þá ekki síst innan heilbrigðisþjónustunnar sem áður er vikið að.

Skipulagsform og ályktanir

Á þinginu var rætt um innri málefni samtakanna, ráðstöfun fjármuna og skipulagsform. Enda þótt fjallað væri um mörg eldfim málefni, átakasvæði í heiminum;  Súdan og Fílabeinsströndina, Moldóvíu (þar sem nú er mjög þrengt að verkalýðshreyfingunni) þá varð fljótlega ljóst að um þrjú lönd eða átakasvæði yrði krafa um að fundurinn ályktaði: Um Írak, Palestínu og Kólombíu. Um Írak og Palestínu kom strax fram meiningarmunur í afstöðu manna um áherslur og orðalag en niðurstaðan varð kröftug mannréttindakrafa.

Spennandi starf framundan

PSI hefur nú hafið mikla sókn í þágu almannaþjónustunnar og hefur á mjög árangursríkan hátt tekið höndum saman með öðrum samtökum sem starfa á heimsvísu, verkalýðssamtökum og frjálsum félagasamtökum. PSI vill stuðla að víðtækri sátt um velferðarþjónustuna og búa til Almennt Samkomulag um Almannaþjónustuna: Genaral Agreement on the Public Services. Hér er teflt fram andstæðu við GATS, samningaviðræðurnar á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar: General Agreement on Trade in Services. PSI lætur ekki svo lítið að tala um þjóðarsátt um þetta efni heldur er heimssátt á dagskrá.
Þannig eiga samtök sem starfa á heimsvísu líka að hugsa.

Sjá heimasíðu PSI