Fara í efni

BSRB OG HVÍTA BANDIÐ


Birtist í Morgunblaðinu 10.09.05.
Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sjálfum sér ákveðin markmið að keppa að í því skyni að útrýma fátækt í heiminum. Þessi markmið hafa verið nefnd þúsaldarmarkmið SÞ enda sett í byrjun nýrrar aldar. Þau eru m.a. fólgin í því að fækka um helming þeim sem eru þjakaðir af hungri, að öll börn eigi kost á menntun, óháð kyni, dregið verði úr dánartíðni barna undir fimm ára aldri um tvo þriðju, dregið úr dánartíðni mæðra í barnsburði um þrjá fjórðu, útbreiðsla AIDS sjúkdómsins stöðvuð, stuðlað verði að sjálfbærri þróun og sanngjarnari viðskiptum milli ríkra þjóða og fátækra. Allir þessir þættir eru ítarlega útfærðir og áttu markmiðin að hafa náðst 2015. Hinn 15. september hefst ein umræðulotan á Allsherjarþingi SÞ og á þá að vega og meta hvað sé til ráða, en ríki heims eru langt á eftir áætlun með að framfylgja þessum markmiðum.
 
Örbyrgð er alvarlegasta ógnin

Í ljósi þess hve hrikalegt ástandið er víða er ástæða til að óttast að þúsaldarmarkmiðin séu óraunhæf. Ef hins vegar ríkti um það eining í heiminum að brúa bilið á milli ríkra og snauðra mætti taka risastór skref til framfara. Fráleitt er annað en að róa að því öllum árum að þúsaldarmarkmiðin nái fram að ganga og helst gott betur. Ekki leikur á því vafi að sú örbyrgð, sem hrjáir drjúgan hluta mannkynsins er alvarlegasta ógn sem steðjar að mannkyninu. Á hverjum degi deyja 30 þúsund börn af völdum fátæktar. Þetta er viðurkennd staðreynd! Fjórir milljarðar manna eru með ófullnægjandi aðgang að vatni og 5,6 milljónir deyja af þessum sökum á ári hverju!
Á heiminum öllum hvíla því siðferðilegar skyldur að vinna markvisst að úrbótum. Ört vaxandi heimshreyfing verkalýðssamtaka og annarra almannasamtaka, hefur myndað breiðfylkingu til að örva umræðu og knýja á um markvissar úrbætur og hafa Samtök starfsfólks í almannaþjónustu, Public Services International, PSI, sem BSRB á aðild að, staðið mjög framarlega í þessari baráttu. Þessi alheimsherferð gegn fátækt kallast á ensku Global Call to Action Against Poverty, en  hefur verið kölluð „Brúum bilið“ á íslensku.

Áminning verkalýðshreyfingarinnar

PSI hefur ítrekað bent á, að forsenda þess að árangur náist sé stöðug umræða um málefni þessu tengd. Þess vegna hafa samtökin hvatt aðildarfélög sín um heim allan til að sameinast um tilteknar dagsetningar til að minna nánasta umhverfi sitt á þessi knýjandi málefni.
Ein slík dagsetning er í dag, 10. september, og er tilefnið fundur ráðamanna heims um þúsaldarmarkmiðin.  Síðast var það 1. júlí síðastliðinn þegar leiðtogar G8 ríkjanna hittust í Skotlandi. Þá var Davíð Oddssyni, utanríkisráðherra, afhent ályktun stjórnar BSRB þar sem íslensk stjórnvöld og almenningur voru hvött til að taka virkan þátt í baráttu fyrir því að brúuð verði sú gjá, sem er á milli ríkra þjóða og snauðra. Var ráðherranum afhent hvítt band, sem PSI hefur hvatt félagsmenn sína til að hafa um úlnliðinn til að minna sig og aðra á málefnið.
Nú hefur BSRB látið útbúa hvít armbönd með áletruninni; Brúum bilið – Öflug almannaþjónusta er undirstaða velferðar – BSRB.  Armbandið kostar ekki neitt, en með því að ganga með það sýna menn átakinu stuðning. Hefur alheimsherferðin gegn fátækt tekið upp kröfuna um öfluga almannaþjónustu, sem lykilþátt í að berjast gegn fátækt og fyrir velferð.
En hvað geta Íslendingar gert? Við eigum aðild að ýmsum alþjóðastofnunum sem geta haft úrslitaáhrif á hvernig til tekst um efnahagslegar úrbætur í fátækum ríkjum. Þar ber helst að nefna Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðskiptastofnunina. Fyrrnefndu tvær stofnanirnar hafa sett þróunarríkjunum skilyrði sem þau þurfa að uppfylla til að fá lánveitingar. Í því sambandi má nefna að áform um niðurfellingu skulda byggja einnig á kröfum um að „þiggjendurnir“ markaðsvæði efnahagskerfi sín og einkavæði þar með ýmsa grunnþjónustu samfélagsins. Þetta hefur þýtt að fátækar og skuldugar þjóðir hafa sett opinberar rafmagns- og vatnsveitur á markað og annað það sem fjölþjóðlegir auðhringir vilja eignast og hagnast á. Það segir sig sjálft að fái auðhringirnir að fara sínu fram halda þeir áfram að færa fjármagn frá þróunarríkjunum. Mun þá eftirgjöf skulda fara fyrir lítið.
Í þeirri umræðu, sem fram fór í stjórn BSRB í aðdraganda þess að ályktað var um málefnið, kom fram það sjónarmið að forðast beri að alhæfa í þessari umræðu og ekki réttmætt að skella allri skuld á ríkari hluta heimsins. Í mörgum þeim ríkjum, sem búa við mesta örbyrgð, hefði verið viðvarandi spilling og óstjórn.
Það stendur vissulega fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar nærri að benda á þetta. Iðulega fer saman gerspillt stjórnarfar og hömlur á starfsemi frjálsra verkalýðssamtaka. Í slíkum ríkjum er verkalýðshreyfingunni annað hvort stýrt af stjórnvöldum eða lífshættulegt er að taka virkan þátt í réttindabaráttu hreyfingarinnar.
Í niðurlagi ályktunar BSRB segir m.a.: „BSRB telur mikilvægt að fulltrúar Íslands í alþjóðastofnunum og alþjóðasamstarfi beiti sér af alefli til stuðnings fátækum þjóðum og er þar lykilatriði að við stillum okkur jafnan upp við hlið þeirra sem vilja verja almannaþjónustuna fyrir gróðaöflum og vilja efla hana og bæta í þágu almannahagsmuna… Þá leggur stjórn BSRB áherslu á að fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi leggi sitt lóð á vogarskálar lýðræðis og beiti sér af alefli á alþjóðavettvangi gegn hvers lags spillingu.“