GOTT HJÁ UTANRÍKISRÁÐHERRA ÍSLANDS
Utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu sem fordæmir áform Ísraels um nauðungarflutninga íbúa Gaza svæðisins enda “brot á alþjóðalögum”.
Er ástæða til þess að fagna því sérstaklega að þessir utanríkisráðherrar, og þar með ríkin sem þeir eru í forsvari fyrir, skuli senda þessa yfirlýsingu frá sér svo augljóst sem tilefnið er?
Jú, það er ástæða til að fagna því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands skuli vera í þessum hópi! Ástæðan er sú að hinn vestræni heimur hefur nánast allur þagað þrátt fyrir þjóðarmorð og nú enn meiri boðuð grimmdarverk; sendir meira að segja drápstól án afláts til morðingjanna og fangelsar þá heima fyrir sem voga sér að mótmæla. Að Ísland skuli vera í hópi þeirra sem mótmæla er þess vegna nokkuð til að gleðjast yfir en jafnframt er ástæða til þess að hvetja til aðgerða gagnvart Ísrael.
Auðvitað eiga Hamas samtökn að sleppa þeim gíslum sem eftir eru og um það á að gera kröfu. En að þurfa að hnýta því í hverja einustu yfirlýsingu sem tengist þjóðarmorði og stórfelldum mannréttindabrotum og stríðsglæpum er gamalkunnugt pólitískt “blikk” til valdhafa í Ísrael. Það hefur nefnilega alltaf verið notuð sú formúla þegar Ísrael hefur gerst sekt um skefjalaus grimmdarverk að hnýta eftirfarandi aftan við slíkar yfirlýsingar: “... þótt Ísrael hafi rétt á því að verja sig!” Sé þessu hnýtt aftan við hefur gagnrýnin verið umborin í Tel Aviv og Washington.
Í yfirlýsingu ráðherranna sex er Ísrael blikkað með þessum hætti en orðalag yfirlýsingarinnar er hins vegar mjög afdráttarlaust og geri ég ekki lítið úr því. Gott hjá ÞKG!
Hér er slóð á yfirlýsingu ráðherranna sex á íslensku og á ensku: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/05/07/Sameiginleg-yfirlysing-um-Gaza/
Ari Tryggvason skrifar athyglisverða grein sem birtist í gær hér á síðunni sem hann nefnir, Ísrael hvílir á veikum lagalegum grunni. Ari segir að langt sé frá því að Ísrael geti talist vera lýðræðisríki þótt einatt sé hamrað á því að svo sé. Þetta þurfi að hafa í huga vilji menn öðlast skilning á framferði þessa ríkis. Sjá grein Ara Tryggvasonar: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/israel-hvilir-a-veikum-lagalegum-grunni
-------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/