Fara í efni

Ísrael hvílir á veikum lagalegum grunni

Nú hafa yfirvöld í Ísrael viðurkennt að þau ætli að innlima Gaza, fylgja tillögum Trumps forseta Bandaríkjanna. Aðgerðin hefur fengið nafnið „Hervagnar Gídeons.‟ Hin veraldlegu stjórnvöld Ísraels skirrast ekki við að skreyta sig með gildishlöðnum heitum úr Bíblíunni til að efla eldmóð sinna manna og slá ryki í augu okkar hinna.

Hamas var aldrei annað en blóraböggull. Hernaðurinn er trúr sínu eðli; útrýming á íbúum Gaza. Hamas gátu aldrei gert Ísrael til hæfis. Það var dauðadómur fyrir sérhvern leiðtoga Hamas að tala fyrir friði.

Vonandi eru ráðamenn, vítt og breytt, búnir að átta sig á því að tómt mál er að beina orðum sínum til yfirvalda í Palestínu, hvort sem það er á Gaza eða á Vesturbakkanum. Þau hafa ekkert að segja gegn ægivaldi og duttlungum Ísraels.

Allir stjórnmálaleiðtogar ættu að vita að vandinn liggur ekki hjá Palestínu, þótt ýmsir þeirra hafi fallið í þá gryfju. Ábyrgðin liggur fullkomlega hjá Ísrael sem stundar grimmilegt landvinningastríð sem stjórnvöld þar hafa nú í rauninni viðurkennt með því að ætla að innlima Gaza. Ábyrgð Ísraels liggur dýpra en gæti virst í fyrstu.

„Ísrael er eina lýðræðisríkið í Miðausturlöndum,‟ hver kannast ekki við þetta? Eins konar mantra, gjammandi yfir okkur eins og varðhundur. Það má zíonisminn eiga að þessi gjammandi varðhundur hefur króað margan manninn af og gert hann að talsmanni landráns og aðskilnaðarstefnu. Getur verið að innistæðu vanti fyrir þessari fullyrðingu um eina lýðræðisríkið í heimshlutanum?

Vandi Ísraels er stjórnarfarslegur. Í raun og veru hvílir Ísrael á afskaplega veikum grunni. Landið hefur aldrei eignast sína stjórnarskrá. Lögin eru hálfgerður bútasaumur eftir þörfum.

Þegar Ísraelar hófu að mótmæla endurskoðun dómskerfisins í byrjun árs 2023 furðuðu þeir sig á öfgakenndri áætlun ríkisstjórnarinnar og í rauninni augljósu valdaráni. Höfuðvandinn er vöntun á stjórnarskrá sem veikir stofnanir landsins. Þetta eru landsmenn æ betur að átta sig á og sem trúlega á sinn þátt í miklum flótta frá Ísrael.

Allar götur frá stofnun Ísraels hefur það skort grundvöll lýðræðisríkis. Í áratugi hafa ýmsir þingmenn ásamt kynslóðum lögfræðinga viðurkennt það. Einnig hefur það verið viðurkennt að Ísrael stendur frammi fyrir vaxandi óvissu um lögmæti sitt í kjölfar hernáms Palestínu og yfirráðum yfir fjölda ríkisfangslausra. Hernámið hefur Alþjóðadómstóllinn dæmt ólöglegt. Þrátt fyrir hernaðinn gegn Gaza, er tilhneiging í Ísrael til að líta á þessi tvö mál; vöntun á stjórnarskrárskipan og áframhaldandi hernám Palestínu, sem algerlega aðskilda hluti. Þau eru hins vegar algerlega óaðskiljanleg. Það er vöntun lýðræðislegra grunnstoða Ísraelsríkis sem hefur gert því kleift að viðhalda og auka hernámið jafnt og þétt.

Þrátt fyrir endurteknar tilraunir, allt frá stofnun ríkisins, hefur mistekist að samþykkja formlega stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem skilgreinir valdsvið mismunandi stofnana innan stjórnkerfisins; sem búi yfir heildstæðri réttindaskrá; sem tryggi grundvallarmannréttindi, borgaraleg réttindi og jafnréttindi allra. Í staðinn hefur landið byggt á löggjöfum, dómsúrskurðum og sérstöku fyrirkomulagi sem venjur og hættir hafa þróað.

Landið er með mjög veika mannréttindalöggjöf sem byggir á mjög svo umdeildum lögum, samþykkt snemma á 10. áratugnum. Árið 2018 gáfu einnig umdeild lög einungis gyðingum sjálfsákvörðunarrétt í Ísrael. Auk þess eru ekki öll landamæri áþreifanlega skilgreind, ólíkt því sem gerist víðast hvar í ríkjum sem vilja kenna sig við lýðræði. Þess vegna er oft óljóst hvar lög Ísraels eiga við og hvar ekki. Ríkið stýrir einnig milljónum Palestínumanna sem ekki njóta grundvallarréttinda.

Í upphafi voru menn vel meðvitaðir um þá þætti sem nauðsynlegir væru til að gera landið að alvöru lýðræðisríki. En fyrsti forsætisráðherrann, David Ben-Gurion varð andsnúinn hugmyndinni í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingarinnar í maí 1948. Vöntun á stjórnarskrá þýddi að Ísrael skorti bindandi lagalegan grunn, sjálfan grundvallarþátt lýðræðisins.

Við sjálfstæðisyfirlýsinguna voru um 750.000 frumbyggja Palestínuaraba, ýmist reknir eða höfðu flúið svæði sem innlimuð voru í hið nýja ríki. Um 150.000 héldu kyrru fyrir sem var um 15 prósent af íbúum Ísraels. Þar sem engin stjórnarskrá var til, skjalfest réttindi eða jafnvel lög um ríkisborgararétt, varð staða þessa hóps óljós. Hið nýja ríki tók upp framsækna stefnu um almennan kosningarétt, einnig fyrir Palestínumenn í Ísrael. En það setti einnig megnið af samfélögum þeirra undir herlög sem var framfylgt með neyðarreglum nýlendutímans frekar en í gegnum lög ríkisins. Sú aðferð hélt fram að sex daga stríðinu 1967 þegar Palestínuarabar innan Ísrael hlutu borgaraleg réttindi. En á sama tíma kom ríkið enn aftur á fót herstjórn sem tók til nær milljón Palestínumanna á nýjum hernumdum svæðum, undir yfirskini tímabundins hernáms, risastórs hóps réttindalausra þegna.

Grundvallarmarkmið Netanyahus í endurskipulagningu dómskerfisins er að auðvelda innlimun Palestínu. Sú spurning hlýtur að vera knýjandi, hvers vegna fyrsti forsætisráðherra Ísraels, David Ben-Gurion var andsnúinn því að landið yrði raunverulegt lýðræðisríki. Að framansögðu er það ljóst að ýmislegt er hægt að gera; að komast upp með, bak við veika lagastoð. Var það framtíðarsýn fyrsta forsætisráðherra Ísraels, að skýla sér á bak við vafaatriðin, sem stjórnarskrárleysið og það sem veikur lagagrunnur veitti? Það sem er að gerast gagnvart Gaza nú hefði enga stoð í lögum og stjórnarskrá Ísraels ef landið hefði borið gæfu til að verða raunverulegt lýðræðisríki. Ríkjandi reglur, allt frá stofnun Ísraelsríkis, hafa hins vegar verið landrán og aðskilnaðarstefna. Stefna sem í raun og veru hafði verið að festa sig í sessi löngu fyrir stofnun ríkisins, þegar hreyfingar zíonista fóru að skipuleggja sig upp úr aldamótunum 1900. Helstu kyndilberar zíonismans nú, eru augljóslega D. Trump og B. Netanyahu. Það er spurning hvort David Ben-Gurion hafi verið svona „framsýnn.‟

Heimild: Scheindlin, Dahlia, „The Fight for a New Israel.‟ Foreign Affairs, nr. 6, nóv./des. 2024.