Fara í efni

FJÁRMÖGNUN LÝÐRÆÐISINS - FUNDING DEMOCRACY

Kanada - ráðstefna
Kanada - ráðstefna

Fyrirsögnin er yfirskrift ráðstefnu sem ég sótti í Ottawa í Kanada þriðjudaginn 16. og miðvikudaginn 17. júní. Ég flutti þar fyrirlestur um Hrunið íslenska og afleiðingar þess. Þar var ég í hópi ræðumanna sem ég þekkti suma hverja vel af afspurn, svo sem Robert Reich, fyrrum vinnumálaráðherra og kopp innarlega í búri hjá Clinton og síðar Obama. Þó ekki nógu innarlega til að hafa eins merkjanleg áhrif í gjörðum þessara forseta og mér býður í grun að hann hefði viljað,  því Reich talar langt langt til vinstri við þessa tvo forseta Bandaríkjanna.

Vaxandi misskipting

Annars talaði Reich fyrst og fremst máli staðreynda og að mínu mati skynseminnar þegar að því kom að draga af þeim ályktanir og lærdóma.
Eins og aðrir ræðumenn benti hann á þá staðreynd að misskipting hefur farið vaxandi síðustu þrjá áratugi. Fernt beri að hafa í huga til að skýra þessa þróun.
1) Verkalýðshreyfing væri ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var (á almennum markaði hafi um 35% launafólks verið í verkalýðsfélögum í Bandaríkjunum í upphafi þessa tímabils, núna væru  innan við 7%).
2) Innra stoðakerfi samfélagsins hefði verið veikt það ýtti undir aukna misskiptingu.
3) Skilningur í orði og í verki á mikilvægi menntunar og rannsókna væri nú annar og minni - það hefði langtímaáhrif til veikingar samfélagsins.
4) Fjármálakerfi sem áður var þjónandi væri nú ráðandi og stýrandi.


90% Auðlegðarskattur Eisenhowers

Í þessu umhverfi hefði síðan verið ráðist á allt regluverk samfélagsins og skattakerfi. Raunverulegir auðlegðarskattar sem hefðu verið háir - um 70% - væru nú komnir langt niður; í forsetatíð repúblikanans Eisenhowers á sjötta áratugnum hefðu verið yfir 90% og öllum þótt eðlilegt.
Reich fjallaði síðan um það hve söfnun auðs á toppnum samhliða rýrnandi kaupmætti í neðri lögunum drægi úr neyslu og þar með hagvexti. Milljarðamæringarnir væru ekki neytendur á almennum markaði nema í litlum mæli. „En það liggur eitthvað í loftinu", sagði Reich, og það væru sameiginlegar áhyggjur allra yfir misskiptingunni. Kannski ekki yfir henni sem slíkri heldur vaxandi reiði almennings vegna hennar.

Það sem allir vilja heyra

Allir forsetaframbjóðendur, líka úr röðum Repúblikanaflokksins, töluðu um hina illu misskiptingu. Hvers vegna? Vegna þess að ráðgjafar þeirra segðu að þetta væri það sem kjósendur vildu heyra!

Frábær var ræða Alex Himmelfarb, prófessors og eins konar heiðurs-sendiherra Kanada frá 2006 en áður gegndi hann æðstu stöðum í stjórnsýslunni og stóð þar næst forsætisráðherra. Hann fjallaði um mikilvægi skatta og þar með samneyslu sem gerði okkur kleift að reka þjóðfélagið á hagkvæman hátt og búa við öryggi. Það þyrfti að gera fólki grein fyrir því hvað það kostar að lýsa upp göturnar, hafa umferðljós í götuumferðinni og í öllu regluverki til að gera samskipti okkar örugg, líka í fjármálaheiminum.

Ást og aftur ást!

Það vær þjóðaríþrótt að blóta sköttum en samt vildu allir kostnaðarlausa heilsuþjónustu og menntun, með öðrum orðum njóta þess sem við gætum aðeins gert með sameiginlegu átaki en ekki ein á báti. Hættan væri sú ef fólk sem mest þyrfti á þjónustu hins opinbera að halda fengi ekki þjónustu að viðbrögðin yrðu neikvæð gagnvart sköttum yfirleitt. Þá gæti svo farið að þeir sem helst þyrftu á samfélagsþjónustu að halda snerust gegn henni.
„Ég elska skatta", sagði Alex og brosti í kampinn, og hingað væri hann kominn til að dreifa ástarbosðakap sínum. Var gerður góður rómur að máli hans. Í kímninni var djúp undiralda sem hreyfði við öllum.

Sérstaða mannskepnunnar!

Aðrir frábærir ræðumenn vörpuðu ljósi á viðfangsefnið, ræddu samhengið á milli skatta og lýðræðis, Við stefndum í átt að auðræði sögðu menn, tími væri til að snúa af þeirri braut og væri það reyndar líffsnauðsyn. Við ættum ekki að horfa aðgerðalaus á samfélagsrýmið  einkavætt- „puclic space being privatized".   Alls kyns tölfræði var kynnt, svo sem að 80 helstu auðkýfingar heims „ættu" meiri auðæfi en helmingur mannkyns, þrír og hálfur milljarður manna!
Við vorum minnt á ýmis gullkorn nýfrjálshyggjunnar svo sem þá staðhæfingu Margrétar Thatchers að ekki væri til neitt sé héti samfélag, „society". Sagt var að nýfrjálshyggjan væri langt komin með að gera þessa pólitísku sýn hennar að veruleika! Jim Stanford, hagræðingur verkaýðssamtaka Kanada benti á þá ranghugmynd frjálshyggjumanna að maðurinn  væri i eðli sínu gráðugur, þ.e.  hinn hagræni  maður, „homo economicus" sem þeim væri hugleikinn. Þvert á móti væri það sem gerði mannskepnuna frábrugðna öðrum lífverum væri hið gagnstæða við eintrjáningsháttinn. það væri hæfileikinn til að vinna saman,  „co-operate."

Ekki svindl eða undanskot heldur hagræði!

Síðan voru skattaskjólin rædd og fór um mig hrollur þegar ég minntist tilrauna íslenskra stjórnvalda að koma á íslensku skattaskjóli í samvinnu við Verslunarráðs Íslands. Þá var ég ánægður með OECD, Efnahags- og framfarastofnunina, sem ég hef ekki alltaf hrópað húrra fyrir, því OECD barðist þá og gerir enn, gegn skattaskjólum á aflandssvæðunum. Á ráðstefnunni var fulltrúi frá OECD og gerði hann grein fyrir tilraunum sem nú væru gerðar til að koma á skattasamræmingu á heimsvísu til að útiloka skattasvindl.
Á ráðstefnuninni  var sýnd kvikmynd um efnið, The Price We Pay, áhrifarík og óhuganleg. Merkilegt þótti mér að fá upplýsingar um mikilvægi „City" í London sem byði upp á skattskjól og væru reyndar skattaskjólin á Bahamaheyjum, Jersey og Cayman eyjum og víðar rekin með velviljann frá breskum stjórnvöldum í sín segl.
Í myndinni var sýnt frá yfirheyrslum í breska þinginu, „hearings" þar sem fulltrúar frá fyrirtækjum sem eru starfrækt með miðstöðvar í skattaskjólum, Google og Amazon bókaforlagið komu þar við sögu. „Við brjótum engin lög", sögðu talsmenn þessara netfyrirtækja sér til varnar." Það vitum við",  sögðu þingmennirnir: „Við erum ekki að saka ykkur um lögbrot, heldur siðleysi". Við þessu varð fátt um svör. Einhver sagði þó, að ekki væri um að ræða skattundaskot heldur skattahagræði, „not tax evasions but tax efficiency"!

Samtök gegn pólitískri spillingu

Undir lok ráðastefnunnar var rætt um spillingu í alþjóðaumhverfinu. Bent var á að ekki væri  saman að jafna smáþjófum og hinum stórtæku. Hinir fyrrnenfndu brjóta lögin en hinir síðarnefndu væru iðulega  jafnframt í aðstöðu til að móta lögin. Það væri munur á að „break the law and make he law" eins og einhver orðaði það á ensku. En bætti við, að engu að síður væri mikilvægt að taka á spillingu hversu smá hún væri í sniðum því hún smitaði út frá sér, skapaði ómenningu og ef kerfið niður úr væri spillt yrði aldrei hægt að taka á stóru gerendunum á toppnum. Sérstaka athygli mína vakti Akaash Maharaj frá samtökunum Global Organization of Parliamentarians against Corruption, GOPAC, sem flutti áhrifaríkt erindi um mikilvægi baráttu gegn pólitískri spillingu. Akaash Maharaj hafði ég verið í sambandi við í aðdraganda ráðstefnunnar og brást hann ekki væntingum mínum.

Tisa

Staðnæmst var við Tisa samningaviðræðurnar sem Íslendingar eiga aðild að. Ég hef tekið upp þessar leyniviðræður á þingi og skrifað um þær, sbr., slóðir hér að neðan. Tisa (Trade in Services Agreement) samningaviðræðurnar ganga út á að viðræðuríkin, og væntanlega aðildarríki samkomulagsins skuldbindi sig og framtíðarríkisstjórnir til að undirgangast óuppsegjanlega milliríkjasamninga þar sem gerðardómar á forsendum alþjóðafjármagnisins skera úr um deilumál sem upp kunni að koma. Ótrúlegt má heita hve samfélögin eru lokuð fyrir þessu spillta, ólýðræðislega og stórskaðlega ferli!
Ég hef ákveðinn skilning á því hvers vegna Íslendingar hengslast þarna með, það þarf hugrekki til að gera annað en allir aðrir. Það eur allir að gera það, auðvitað við líka! Þannig hugsar íslenska ríkisstjórnin, sú danska, sú norska, sænska, finnska, breska, franska .... og öll hjörðin sem lætur fjármagnið segja sér fyrir verkum.

Mikilvægi uppljóstrara

Þá var rætt um uppljóstrara, „whistle blowers". Þetta var vel við hæfi enda samhengi á milli þess að vernda uppljóstrara og opna á leyndarheim skipulegs alþjóðlegs skatta-undanskots. Þessi umræða á svo sannarlega erindi til Íslands.
Réttindi uppljóstrara þyrftu að komast í markvissan og stöðugan farveg. Þannig var það orðað:  „ Núna eru uppljóstrarar gerðir að hetjum eða misyndismönnum, hvorugt á að þurfa að verða hlutskipti þeirra, það þarf að normalísera gjörðir þeirra" (They ere heroized or villanized, they should be normalized").

PSI: Kröftugusta verkalýðshreyfing heims!

Það yljaði mér um hjartarætur að finna kraftinn í umræðunni  á ráðstefnunni sem sótt var af tæplega þúsund manns. Mikils þótti mér um vert að verkalýðsahreyfingin í opinbera geiranum skuli standa að umræðu eins og þessari. Rosa Pavanelli, framkvæmdastjóri Public Service International, PSI , talaði á ráðstefnunni og greindi frá starfi PSI á heimsvísu, Jürgen Buxbaum, gamall jaxl sem á sínum tíma sótti BSRB heim en BSRB á aðild að PSI, fjallaði um hvert ætlunarverk okkar ætti að vera og Daniel Bertossa, ungur maður innan forystukjarnans í PSI ræddi um Tisa viðræðurnar. Höfuð- skipuleggjendur ráðstefnunnar voru eitt af aðildarfélögum PSI,  ACFO sem eru samtök þeirra sem halda utan um fjármál og bókhald hjá hinu opinbera (finncial officers), enda kom það í hlut Milt Isaacs, formanns ACFO að opna ráðstefnuna og gerði hann það mjög vel.  
Fleiri kanadísk samtök komu að undirbúningnum eða studdu ráðstefnuhaldið með einum eða öðrum hætti svo og PSI, sem í Ottawa minntu á hvers lifandi samtök eru megnug þegar kemur að því að örva fólk og hvetja til baráttu.
Eitt er víst að baráttu er þörf gegn freku og aðgangshörðu alþjóðafjármagninu og hjarðmennsku stjórnmálanna í fylgispekt sinni við það.


  

Hér má sjá hverjir töluðu á ráðstefnunni: http://www.fundingdemocracy.com/en/speakers/
Nýjustu greinar mínar um TISA:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/islendingar-segi-sig-fra-tisa-vidraedum 

https://www.ogmundur.is/is/greinar/attac-stendur-vaktina

https://www.ogmundur.is/is/greinar/tisa-leynisamningar-um-aukid-gagnsaei 

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-akvedur-hvad-samid-er-um-i-tisa-vidraedum

https://www.ogmundur.is/is/greinar/tisa-a-althingi-mikilvaegar-yfirlysingar

https://www.ogmundur.is/is/greinar/thannig-skilgreinr-utanrikisraduneytid-frelsi

https://www.ogmundur.is/is/greinar/tisa

https://www.ogmundur.is/is/greinar/thakkir-til-gudlaugs-thors

Ræðu mína á ráðstefnunni mun ég setja síðar hér inn á heimasíðuna.
Jonasson - ogmundur