Fara í efni

TiSA Á ALÞINGI: MIKILVÆGAR YFIRLÝSINGAR

Tisa - ÖJ - 2
Tisa - ÖJ - 2

Í dag fóru fram, að mínu frumkvæði, umræður utan dagskrár á Alþingi um TiSA viðskiptasamningana. Ég tel að Ísland eigi ekki erindi í þessar viðræður af ýmsum ástæðum sem ég hef að undanförnu tíundað í blaðagreinum og finna má hér á síðunni.
 Vegur þar þyngst siðleysið sem er í því fólgið að fara á bak við fátækari hluta heimsins í slagtogi við hinn ríkari hluta. Þegar GATS viðræðurnar strönduðu um miðjan fyrsta áratuginn vegna andstöðu verkalýðshreyfingar, almannasamtaka, að ógleymdum þróunarríkjunum, sem ekki vildu fá alþjóðafjármagnið inn á gafl til sín, þá ákváðu vildarvinirnir góðu (Really Good Friends, sem fimmtíu ríkustu ríki heims kölluðu sig) að efna til leyniviðræðna og freista þess síðan að stilla hinum snauðu upp við vegg.
Þetta segir meira að segja berum orðum í skýrslu utanríkisráðherra Íslands frá því í mars í fyrra.
Það sem ávannst við umræðurnar í dag voru yfirlýsingar utanríkisráðherrans, Gunnars Braga Sveinssonar, og formanns utanríkimálanefndar Alþingis, Birgis Ármannssonar um að ekkert yrði undirritað án samþykkis Alþingis. Það er framför frá fyrri yfirlýsingu utanríkisráðherra þegar hann sagði æi skriflegu svari við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, að samningurinn yrði gerður opinber „strax og hann verður undirritaður."

Yfirlýsingarnar í dag eru  því vissulega mikilvægt skref fram á við.

Umræðan frá í dag er hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20150302T160823