Fara í efni

ÍSLENDINGAR SEGI SIG FRÁ TiSA VIÐRÆÐUM

TISA
TISA

Íslendingar eiga aðild að svokölluðum TiSA viðræðum (Trade in Services Agreement)  ásamt fjörutíu og níu öðrum ríkjum. Þessi ríki eiga það sammerkt að tilheyra hinum efnaðri hluta heimsins.

Viðræðurnar komust í hámæli eftir að Wikileaks birti í júní sl. gögn sem sýndu stöðu þeirra eins og þær voru komnar þá fyrr um vorið.

TiSA er bíræfin og ólýðræðisleg tilraun ríkari hluta heimsins til að láta hinn snauðari hluta hans standa frammi fyrir orðnum hlut varðandi markaðsvæðingu og heimsviðskipti með þjónustu.

Eftir að Alþjóðaviðskiptastofnuninni , WTO, hafði verið þröngvað til að draga úr leyndinni sem hvílt hafði yfir þjónustusamningunum (GATS), sem fram höfðu farið á hennar vegum síðan um miðjan tíunda áratuginn, magnaðist andstaða við viðræðurnar þannig að þær stöðvuðust tímabundið um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar.

 Hin alþjóðlega verkalýðshreyfing, einkum alþjóðasamband starfsfólks í almannaþjónustu, PSI, tók undir með þriðja heiminum sem vildi verjast ágangi auðvaldsins.  

Við svo búið tóku fjármagnsöflin í heiminum sig til og fengu þau ríki sem best létu að þeirra vilja, enda samofin þeim, hefja viðræður leynilega um sama efni - markaðsvæðingu heimsviðskipta með þjónustu.    
(Sjá nánar í nýlegum skrifum mínum: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tisa-leynisamningar-um-aukid-gagnsaei  og https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-akvedur-hvad-samid-er-um-i-tisa-vidraedum  )

Hvað sem segja má um Alþjóðaviðskiptastofnunina - og er ég þar ekki  fremstur í hópi aðdáenda - þá er hún engu að síður vettvangur ríkja heims til að reyna að ná samkomulagi um markaðsvæðingu heimsviðskipta á sviði þjónustu. Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru 160 ríki en 123 þeirra höfðu tekið þátt í GATS viðræðunum þegar þær strönduðu eftir að í ljós kom að sum hinna snauðari ríkja heims vildu ekki hleypa fjármagnsöflunum hömlulaust inná gafl til sín. Aðild að TiSA eiga hins vegar aðeins 50 ríki - forréttindahluti heimsins.

Hlutskipti Íslands er í sjálfu sér ekki vesælla en hinna ríkjanna 49 sem standa að TiSA viðræðunum. En aumt er það og væri okkur sómi að því að segja okkur frá þessum viðræðum.

Fróðlegt verður að heyra um stöðu málsins af Íslands hálfu, frá Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, í umræðu sem fram fer um þetta málefni á Alþingi á morgun (mánudag).

Hér má nálgast fróðlega greiningu Jane Kelsey, fræðikonu við Auckland háskólann á Nýja Sjálandi. Þess má geta að Jane Kelsey kom hingað til lands árið 1996 í boði BSRB og hélt fróðlegan fyrirlestur (sem samtökin gáfu út í bæklingsformi) um einkavæðinguna á Nýja Sjálandi sem fræg varð að endemum. Kelsey hefur sent frá sér fjölda bóka, m.a Rolling up the State og The New Zealand Experiment.
https://wikileaks.org/tisa-financial/Analysis-of-secret-tisa-financial-annex.pdf 

Sjá ennfremur:

https://data.awp.is/data/international/18/analysis_en.pdf