Fara í efni

ENN ER ÍSLAND SELT

 

Hvað skyldi það taka mörg ár að selja allt Ísland undan okkur? Það gæti gerst á mjög skömmum tíma. Það gæti líka tekið lengri tíma – en það stefnir hraðbyri í að íslenskar náttúruperlur komist í eigu auðmanna, innlendra og erlendra.

Mér skilst á fréttum að nokkuð sé um liðið síðan jörðin Horn í Borgarfirði, þar sem fjallið Skessuhorn rís, var seld úr landi. Það er hins vegar fyrst núna, eftir að Fréttablaðið og Bylgjan og vonandi fleiri fjölmiðlar kanna málið, að salan fær almenna umræðu. Og það er sem við manninn mælt að almenningur lætur frá sér heyra og er afstaða þorra fólks afdráttarlaust gegn sölunni.

Þrennt sem skiptir máli

Þetta minnir á þrennt : a) mikilvægi vökulla fjölmiðla, b) hve auðvelt það er að selja Ísland út fyrir landsteinana og c) að almannavilji er andvígur sölu af þessu tagi.

Gagnrýnin stenst

Í ljós hefur komið að gagnrýni sem sett var á lög ríkisstjórnarinnar frá árinu 2020 og áttu að hefta uppkaup auðmanna á landi reynist eiga við rök að styðjast.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/umsogn-um-frumvarp-um-eignarrad-og-nytingu-fasteigna

https://www.ogmundur.is/is/greinar/rikisstjornin-heftir-ekki-landakaup-audmanna-fyrri-grein

https://www.ogmundur.is/is/greinar/rikisstjornin-reynir-ekki-ad-hefta-landakaup-audmanna-sidari-grein

Hvers vegna vilja auðmenn eignast jarðir á Íslandi?

Sumir peningamenn eru að kaupa sér frið og þögn. Það þýðir að aðrir eigi ekki að vera að þvælast um á landi þeirra. Þegar eru dæmi þess að almenningi, útvistarfólki, sé bandað frá af eigendum, ekki bara útlendum heldur einnig íslenskum en þeir síðarnefndu eru þó heldur feimnari við slíkt enda þvert á íslensk lög og hefðir.
Svo eru það aðrir sem kaupa land til að selja það í bókstaflegri merkingu, flytja fjörusand og fjöll út sjóleiðis.
Enn eru það þeir sem eru á eftir öðrum auðlindum, vatni, laxi að ógleymdum vindinum, vilja setja vindmyllur á hvern hól.
Ekki má heldur gleyma því að skaðvaldur birtist okkur líka í þeirri gróðastarfsemi sem fylgir því að markaðsvæða andrúmsloftið. Það þýðir að land er keypt til að fénýta það, rækta eitthvað, já, bara eitthvað sem vex nógu hratt til þess að geta selt kolefniskvóta. Þetta eru þeir sem ætla að græða á grænu.

Grundvallaratriðin

Landsala er nokkuð sem kemur okkur öllum við því landið og náttúran er okkar allra og á að vera okkar allra. Þetta er grundvallaratriði.
Annað grundvallaratriði er að gera sér grein fyrir því að svona þarf þetta ekki að vera. Við getum sett lög og reglur um að eignarhald á landi eigi að vera innan landsteinanna. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki frekar en fyrri ríkisstjórnir þorað að setja slík lög. Við vorum nærri því árið 2013 en þá lagði ég fram á Alþingi frumvarp sem, ef samþykkt hefði verið, komið í veg fyrir landsölu til annarra en íslenskra ríkisborgara með lögheimili á Íslandi. Reglugerð þessa efnis hafði ég þegar staðfest. Hún var hins vegar afnumin við stjórnarskiptin og frumvarpinu stungið undir stól. Þar hefur það verið síðan.

Í núverandi lögum þarf enn undanþágu fyrir kaup á landi ef kaupandinn býr utan EES svæðisins en í þeim skilyrðunum er lítið hald. Hér dugar ekkert annað en skýrt bann. Út fyrir landsteinana á eignarhaldið ekki að fara. Reynslan sýnir að þegar peningar eru annars vegar bogna allir sem gætu hagnast, eigendur, sveitarstjórninr og ríkisstjórnir.

Þá verða allir fyrirvarar teygjanlegir


Þetta var um erlenda kaupendur að segja. En einnig þarf að koma í veg fyrir að innlendir menn safni jörðum til að braska með. Land sem ekki fer í ásættanlega nýtingu og er ég þá ekki að tala um vindmyllur, á að ganga til samfélagsins fyrir sanngjarnt verð. Leggjast þarf yfir það á hvaða forsendum slík verðlagning yrði ákveðin svo kaup yrðu ríki og sveitarfélögum ekki ofviða.

Eitt er víst að við eigum ekki að horfa aðgerðarlaus upp á að auðmenn taki Ísland yfir.
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Umfjöllun í Fréttablaðinu og Vísi í dag og í gær:

https://www.frettabladid.is/frettir/log-haldlaus-i-jardakaupum/

https://www.frettabladid.is/frettir/ahyggjur-af-thvi-ad-island-se-komid-a-brunautsolu/

https://www.visir.is/g/20232390459d/ottast-frekar-jarda-kaup-ut-lendinga-thvi-their-vilji-vera-i-fridi-

Bylgjan í dag: https://www.visir.is/k/3b8a29e5-3610-464d-b011-d422fa78eefe-1678988860401

Framtak Jónu Imsland

Ekki má gleyma átaki Jónu Imsland fyrir nokkrum misserum til að fá fólk til að skrifa undir áskorun til ríkisstjórnarinnar til að hún beitti sér fyrir lögum sem lokuðu á landsölu. Tíu þúsund manns skrifuðu undir. Og ekki gleyma að þarna var um að ræða einstakling nánast einn á báti. Þeim mun magnaðara var þetta framtak Jónu Imsland.
Nokkrar greinar skrifaði ég til stuðnings þessu átaki:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/akall-jonu
https://www.ogmundur.is/is/greinar/thokk-se-bylgjunni-mblis-og-kvennabladinu

(Myndin að ofan er af vef ferðaþjónustu Vesturlands, vesturland.is)