Fara í efni

UMSÖGN UM FRUMVARP UM EIGNARRÁÐ OG NÝTINGU FASTEIGNA

Í samráðsgátt forsætisráðuneytisins hafa frá því fyrr í mánuðinum legið drög að frumvarpi um jarðakaup sem lengi hefur verið kallað eftir. Frá því er skemmst að segja að þessi frumvarpsdrög svara ekki því kalli og þarf að gera á þeim miklar breytingar til þess að svo verði.

Eftirfarandi umsögn hef ég sent inn á vefinn:   

Mjög gagnlegt verður að fá lög sem tryggja gagnsæi um eignarhald á landi eins og kveðið er á um í þessu frumvarpi.

Hins vegar verður ekki séð að í frumvarpinu séu reistar afgerandi skorður við samþjöppun á eignarhaldi á landi, með bindandi ákvæðum þar að lútandi, eins og kallað hefur verið eftir.

Í fyrsta lagi gagnrýni ég að horfið skuli hafa verið frá þeirri nálgun sem uppi var á árinu 2013 í reglugerð sem undirritaður setti og samsvarandi lagafrumvarpi sem undirritaður lagði fyrir Alþingi á sama tíma af hálfu þáverandi ríkisstjórnar. Þar voru á grundvelli EES réttar reistar skorður við aðkomu að eignarhaldi á landi annarra en þeirra sem eru íslenskir ríkisborgarar eða eiga lögheimili á Íslandi.

Í öðru lagi gagnrýni ég þau stærðarmörk sem frumvarpsdrögin gera ráð fyrir varðandi leyfisskyldu til kaupa á landi. Hin almenna regla ætti að vera að leyfisskylda hvíli á allri jarðasölu umfram litla spildu undir orlofshús. Ástæða er til að benda á að í eldri jarðalögum voru mun víðtækari ákvæði um leyfisskyldu en í frumvarpinu.

Í frumvarpinu þarf að vera afdráttarlaust ákvæði sem banni einstaklingi eða lögaðila og tengdum aðilum, að eignast meira en tiltekna stærð af landi og mætti hugsa sér að styðjast við sem nemur tvöfaldri eða jafnvel þrefaldri stærð á meðal lögbýli. Því aðeins væru hámarks stærðarmörk þó heimil að viðkomandi eigandi hefði búsetu á jörðinni.

Varðandi samráðsskyldu um þá þætti sem vísað er til í frumvarpstextanum  er ekki nægilegt að mínu mati að leita til sveitarfélaga um samráð. Eðlilegt væri að náttúruverndarsamtökum á borð við Landvernd væri einnig tryggð aðkoma að slíku samráði í lögum.

I lögunum þarf  að horfa til hlunninda á borð við vatns- og virkjanarétt, hafnargerð, veiða innan netlaga á sjávarjörðum og ber þá að hafa í huga að Ísland hefur undanþágu í EES samningnum hvað varðar fiskveiðar og fiskvinnslu og einnig hvað landbúnaðinn áhrærir en til þessara þátta þarf að horfa þegar EES borgarar eiga í hlut. Augljóst er að land og landnýting er að breytast, meðal annars vegna fyrirsjáanlegra viðskipta með “hreina orku.” Allt þetta kallar á aukna árvekni af hálfu löggjafans. Ekki nægir að visa til þátta á borð við þessa í almennum lagatexta eins og gert er í frumvarpsdrögunum, heldur þarf einnig að takmarka með bindandi hætti möguleika spákaupmanna að braska með land og hlunnindi sem því fylgja.

Ögmundur Jónasson