Fara í efni

ÁKALL JÓNU

Um netið fer nú víða undirskriftalisti undir hvatningunni Seljum ekki Ísland. Sjálfur hef ég stutt átakið sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/seljum-ekki-island

Ákallið hefur fengið góðar undirtektir þeirra sem hafa fengið það í hendur. Þau þyrftu hins vegar að vera miklu fleiri. Frumkvöðull þessa átakas er Hafnfirðingurinn Jóna Imsland. Hún hefur sent bréf til einstaklinga og félagsamtaka og á hún mikið lof skilið fyrir framtak og dugnað.

Hér að neðan birti ég bréf Jónu Imsland og hvet ég alla lesendur að verða við ákalli hennar um að dreifa undirskirftalistanum sem víðast. Ef fólk sættir sig ekki við öll smáatriði undirskiftaátaksins má skrifa athugasemd þar að lútandi en að sjálfsögðu snýst ákallið um meginstefið, Seljum ekki Ísland. Við vitum öll af fréttum við hvað er átt.

En það er ekki nóg að fá í hendur slóð á undirskriftasöfnunina. Ef við erum ákallinu sammála verðum að láta verða af því að skrifa undir.

Bréf Jónu Imsland:

“Góðan dag !

Sæl Sólveig Anna !
Ég heiti Jóna Imsland og ég stend að söfnun undirskrifta sem kallast SELJUM EKKI ÍSLAND
Ég stofnaði hóp á facebook um þetta málefni og síðar undirskriftalista.
Nú er ég að reyna að finna fólk sem gæti verið sömu skoðunnar og ég (og margir fleiri) og væri til í að leggja málefninu lið með því að tjá sig um það og deila undirskriftasíðunni á þá netmiðla sem fólk hefur aðgang að og annarstaðar sem þeim dettur í hug og hvetja fólk til að skrifa undir og deila áfram.
Hér er það sem stendur á undirskriftalistanum: 


ÍSLAND Á AÐ VERA EIGN ÞJÓÐARINNAR. HÚN Á AÐ EIGA Í SAMEININGU FJÖLL, DALI, VÖTN, ÁR OG JÖKLA. ÞETTA ER LANDIÐ OKKAR ALLRA !

SKORUM Á RÍKISSTJÓRNINA OG ALÞINGI AÐ SETJA ÞESSAR KRÖFUR OKKAR Í LÖG:

1. Að enginn geti átt/keypt land á Íslandi nema að eiga lögheimili hér á landi. Ef um bújarðir er að ræða skal viðkomandi eiga lögheimili á býlinu.
2. Að takmarka fjölda og stærð eigna í eigu sömu aðila og skal eignarhald vera algjörlega gegnsætt, hver eigi land og hvar.
3. Að ríkið og sveitafélög eigi sameiginlegan forkaupsrétt að öllu landi, sem selt er eða fer í eyði, og verði kaupverð háð opinberu mati þar sem fyrrum nýting seljanda vegur þyngst. Ósnortið land í almanna eign verði ekki selt úr eigu þjóðarinnar.
4. Að tryggður verði réttur almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi, með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.
5. Að skýrt sé að þjóðin öll eigi vatnið, orkuna og aðrar auðlindir landsins og allir landsmenn hafi óhindraðan aðgang að hreinu vatni og hreinu lofti.
6. Gera skal bændum kleift að selja jarðir til ríkis og sveitafélaga og leigja landið síðan afsömu aðilum á sanngjörnu verði. Býlin yrðu þó eign ábúenda.
Og hér er slóðin á undirskriftalistann:
https://www.jenga.is

Með von um jákvæðar undirtektir,
Kveðja, Jóna.”