Fara í efni

EIGA UMSVIFAMIKLIR FJÁRGLÆFRA-MENN AÐ FÁ SÉRMEÐFERÐ Í DÓMSKERFINU?

Eftir nýlega dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, í málum sem kennd eru við Al-Thani, hafa ýmsir lögmenn tjáð skoðanir sínar á dómunum. Þar er nokkuð áberandi „varðsveit" sem hefur það hlutverk að draga úr mikilvægi dómanna og segja þá efnislega ranga. Umræðunni er ætlað að hafa áhrif á dómara og almenningsálit og reyna þannig að „stýra dómskerfinu" inn á hagfelldar brautir fyrir hina dæmdu. Á sama tíma lýsa sumir þessara manna áhyggjum af því að dómstólar láti um of stjórnast af umræðunni í samfélaginu - enda vill varðsveitin stýra sjálf umræðunni - á eigin forsendum.

Tveir hópar fólks bera mesta ábyrgð

            Fólk í tveimur hópum ber langsamlega mestu ábyrgðina á íslenska efnahagshruninu. Annars vegar þeir sem setja reglur viðskiptalífsins [löggjafarvaldið] og hins vegar þeir sem ætlað er að fara eftir reglunum. Flestir aðilar í báðum hópum brugðust herfilega. En í stað þess að viðurkenna ábyrgð sína, hafa ýmsir leitað furðuskýringa erlendis frá, s.s. eins og þeirra að fall erlendra fjármálastofnana og illgirni útlendinga hafi valdið íslenska hruninu.

            Með þessari afstöðu neita menn að horfast í augu við tvennt. Í fyrsta lagi það að ætlunin var [mjög sennilega] aldrei sú að reka hið einkarekna íslenska bankakerfi sem alvöru bankakerfi, heldur breyta því í spilavíti og forða sér í burtu áður en allt hryndi til grunna. Með öðrum orðum ásetningur og afleiðingarnar flestu leyti fyrirsjáanlegar. Í öðru lagi, ef ásetning skorti þá var að minsta kosti ljóst að uppbygging íslenska bankakerfisins sem slíks gat aldrei staðist til frambúðar. Allt hlaut því að hrynja til grunna, fyrr eða síðar. Á því bera einhverjir ábyrgð. Ef hún hvílir ekki á herðum stjórnendanna, hverjum stendur þá nær að bera hana?

            Talsvert stór hluti þjóðarinnar hefur fyrir löngu áttað sig á því að hrunið varð ekki af sjálfu sér. Það skýrir afstöðu margra í dag til þessara mála. Hér er enda um tiltölulega einfalt orsakasamhengi að ræða. „Varðsveitin", sem nú fer víða mikinn, reynir hins vegar með öllum ráðum að sýna fram á það að umrædd brot séu ekki afbrot [í skilningi laga] og ef þau eru afbrot þá að minnsta kosti ekki refsiverð.

            Vandinn við mál ef þessum toga er sá að þótt við blasi að stjórnendur séu ábyrgir fyrir hruninu, að mjög miklu leyti, þarf að heimfæra umrædda háttsemi undir tilgreind lagaákvæði. Til þess að það sé gerlegt þarf lagaverkið að vera traust og þannig úr garði gert að það dugi vel ákæruvaldi og dómskerfi þegar á reynir.

            En líkt og í Bandaríkjunum, var það ásetningur ákveðinna stjórnmálaafla á Íslandi að hafa regluverkið þannig (lagaumhverfið) að menn hefðu mjög frjálsar hendur í viðskiptalífinu[i], án þess að gerast brotlegir við lög (stundum kallað „deregulation"). Það var því beinlínis markvisst unnið að því að draga bitið úr allra lagasetningu sem að gagni mátti verða í þessu sambandi.

            Segja má að íslenska dómskerfið þreyti nú erfitt próf þar sem mjög reynir á hæfni þess og sjálfstæði. Mælikvarðinn á það hvort dómskerfið [bæði dómstig] stenst prófið er tvíþættur. Annar vegar hvort dómskerfið hefur burði til þess að fella dóma yfir fjárglæframönnum almennt og hins vegar hvort dómskerfið stenst þrýsting „varðsveitarinnar" [sérhagsmunagæslunnar] og fjölmiðla henni tengdri. Héraðsdómur Reykjavíkur sýnist hafa staðist nýleg próf. Lokadómar bíða Hæstaréttar.

Lög, reglur og raunveruleiki

            Gæslumenn sérhagsmuna í nefndri „varðsveit" hafa reynt á vægast sagt ótrúverðugan hátt að sýna fram á að nýlegir dómar Héraðsdóms Reykjavíkur séu mjög þungir. Er þar m.a. vísað til 249. gr. alm. hgl., sem fjallar um umboðssvik, auk dómafordæma. En samkvæmt nefndri lagagrein er refsiramminn að hámarki 6 ár. Um fordæmalaus mál er að ræða að umfangi og eðli. Nú má vel hugsa sér að löggjafinn hefði einfaldlega ákveðið að umboðssvik skyldu ekki skilgreind sem afbrot og þar með aldrei varða refsingu. Sem betur fer komu afreglunaröflin því ekki til leiðar.

            Ef svo illa hefði farið, væri staðan sú í dag að stórkostlegt misferli með fjármuni væri refsilaust. Allir sjá þó í hendi sér að það breytir engu um verknaðinn sem slíkan, hann var framinn samt sem áður. Munurinn er eingöngu sá að menn kæmust upp með verknaðinn án þess að baka sér refsiábyrgð. Þ.e.a.s. glæpurinn sem er framinn er engu minni þótt löggjafarvaldið (hvert sem það er) hefði ákveðið að undanskilja glæpinn í lögum eða gera lögin þannig úr garði að þau væru í raun gagnslaus gagnvart tilteknu afbroti. Til frekari útskýringar má segja að þjófnaður verði ætíð þjófnaður enda þótt lög einhvers ríkis væru það bitlaus að ákveða þjófnað refsilausan eða jafnvel undanskilja hann í hegningarlögum. Það segir ekkert um glæpinn heldur fremur að löggjöfin sé gölluð.

            Þetta er rétt að hafa í huga þegar rætt er um meinta þyngd dóma. Glæpir eru gjarnan mjög alvarlegir enda þótt löggjafinn hafi ekki staðið sig í stykkinu að skilgreina þá sem slíka og ákvarða viðhlítandi viðurlög. Áðurnefnd afreglun í Bandaríkjunum var þannig pólitísk ákvörðun, beinlínis til þess gerð að menn kæmust frekar upp með ákveðin fjármunabrot.

            Í viðtali Bill Moyers, árið 2009, við bandaríska lögfræðinginn, hagfræðinginn og afbrotafræðinginn, Dr. William K Black, bar Moyer m.a. fram eftirfarandi spurningu: „Er það mögulegt að þessir flóknu fjármálagerningar [afleiður] væru vísvitandi búnir til svo svindlarar gætu nýtt sér þá?" Black: „Algerlega. Þetta drasl, framandi drasl sem þú ræðir um, var myndað af hlutum eins og lygaralánum (liars' loans) sem þekkt voru fyrir að vera sérstaklega slæm."[ii]

            Um afreglunina (deregulation) segir Black m.a.: „Ríkisstjórn Bush losaði sig við reglur, þannig að ef enginn leitaði gátu menn gert þetta [framið afbrot] refsilaust og það gerðist einmitt."[iii] Síðan tala íslenskir lögmenn sumir hverir um „rannsóknarbrjálæði" og gagnrýna það embætti á Íslandi sem hvað mest hefur styrkt íslenska réttarríkið undanfarin ár, þ.e. embætti sérstaks saksóknara. Sú styrking var löngu tímabær. En siðblinda og siðleysi einkenna mjög „gagnrýni" á embættið.

Þungir dómar?

            Þegar kemur að því að meta lengd dóma, í samræmi við afbrot, er nauðsynlegt að hafa í huga að það er ekki línulegt samband á milli annars vegar lengdar fangelsisdóma og glæpatíðni hins vegar. Það staðfesta rannsóknir í ýmsum löndum. Mjög langir dómar tryggja því ekki að sjálfkrafa að dragi úr afbrotum.[1] Hins vegar þarf að vera ákveðið samræmi á milli afbrots sem um ræðir og viðurlaganna.

            Og þótt fráfæling (deterrence) standi ekki í beinu sambandi við lengd dóma, má telja það til þjóðþrifamála að hættulegir fjárglæframenn gangi ekki lausir lengur en nauðsyn ber til (það er þó umhugsunarefni hvort fráfæling heftir gerðir siðblindingja).

            Að meta þyngd refsinga einvörðungu út frá refsiramma laganna er í raun ófullnægjandi viðmið í tilviki margra alvarlegra glæpa, s.s. umfangsmikilla hvítflibbaglæpa sem hér um ræðir. Þótt t.a.m. 6 ára refsirammi fyrir umboðssvik væri fullnýttur þá yrði það að teljast væg refsing, þegar haft er í huga að heilt þjóðfélag var sett á annan endann (svo mjög að leita varð aðstoðar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) og er þá fjárhagstjónið hvað best mælanlegt. Annað tjón er og verulegt [af völdum hrunsins] enda þótt ekki sé það allt mælt í beinu tapi fjármuna. Og gerendur og ábyrgðarmenn hrunsins eru einmitt hvítflibbaglæpamenn. Skaðinn sem þessir aðilar hafa valdið þjóðarbúinu er gríðarlegur. Það er stóra samhengi málsins.

            En það hentar „varðsveitinni" vel að einblína á refsiramma einstakra afbrota (t.d. vegna umboðssvika) og lagatæknileg atriði - að horfa þröngt á málin.

            Nú kann einhver að spyrja: við hvað á að miða ef ekki refsiramma laganna? Því má svara þannig að horfa ber til málanna í samfélagslegu samhengi og fullnýta refsiheimildir í því ljósi, enda þótt því megi halda fram að brotin séu í raun alvarlegri en refsiramminn segir til um.

Almennt um hvítflibbaglæpi

            Fyrrum alríkisdómari í Ástralíu,[iv] Ray Finkelstein, hefur lýst þeirri skoðun sinni að lög sem snerta hvítflibbaglæpamenn (white-collar criminals) séu of mildileg. Hann telur að of vægir dómar yfir fjárglæframönnum skapi þá tilfinningu að ein lög gildi fyrir efnafólk og önnur fyrir fátæka. Hefur hann og bent á að minnka mætti sönnunarkröfur (level of proof) til sakfellingar í þessum málum niður fyrir það sem er „hafið yfir skynsamlegan vafa" (beyond reasonable doubt). Þá segir Finkelstein tilhneigingu hjá dómurum til þess að líta á fangelsun fjárglæframanna sem „síðasta úrræði".[v]

            Í sumum tilvikum taki dómari tillit til mögulegra endurheimtna [sbr. lagahugtakið restitution] til þess að minnka þörf á fangelsisvist. Þetta viðhorf til refsinga leiði óhjákvæmilega almenning að þeirri niðurstöðu að annars konar lög gildi fyrir ríka og fátæka.[vi] Enn fremur hafi dómstólar oft túlkað lög þrengra í þessum málum heldur en ætlun löggjafans var.

            Andstætt því sem ýmsir kunna að ætla, er ákveðið ofbeldi oft innbyggt í hvítflibbaglæpi. Til eru rannsóknir sem styðja það.[vii] Merkir að hvítflibbaglæpamenn geta hneigst til ofbeldis og orðið hættulegir sem slíkir. Skammt er þannig á milli „hefðbundinna ofbeldisglæpa" og hvítflibbaglæpa hvað ofbeldi snertir. Það styrkir enn frekar það sem að framan greinir að fjárglæframenn ættu ekki að ganga lausir lengur en nauðsyn ber til.

            Á heimasíðu bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, segir:

„Ljúga, svíkja og stela. Það eru hvítflibbaglæpir í hnotskurn. Hugtakið - að sögn framkomið 1939 -  [Sutherland] er nú samheiti yfir alhliða svik framin af fagfólki í viðskiptum og hjá stjórnvöldum. Þetta eru ekki glæpir án fórnarlamba. Einstakt svindl getur eyðilagt fyrirtæki, lagt fjölskyldur í rúst, með því að þurrka út ævisparnað þeirra, eða kostað fjárfesta milljarða dollara (eða jafnvel allt þrennt eins og í Enron-málinu). Sviksamleg áform eru í dag háþróaðri en nokkru sinni og við erum staðráðin í að nota kunnáttu okkar til þess að hafa uppi á sökudólgum og stöðva svindl áður en það hefst."[viii]

            Þeir aðilar á Íslandi sem hvað mest tala um „rannsóknarbrjálæði", gagnrýna sérstakan saksóknara, og nýlega dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, ættu að hafa þetta hugfast [og bæta eigið siðferði] enda hefur bandaríska alríkislögreglan reynst hafa rétt fyrir sér þegar eðli og umfang hvítflibbaglæpa eru til umræðu. Varaði t.a.m. réttilega við stórfelldum svikum á lánamarkaði (epedemic morgage fraud) í Bandaríkjunum árið 2004.[ix] Af því má læra margt.

Ítarefni um lögfræði og efnahagsbrot

Bibas, Stephanos. „White-Collar Plea Bargaining and Sentencing After Booker." William and Mary Law Review 47.3 (2005): n. pag. William and Mary Law Review, 2005. Web. 17 Jan. 2014. <http://scholarship.law.wm.edu/cgi/viewcontent.cgi?article=1229&context=wmlr>.

Dutcher, J. Scott. „FROM THE BOARDROOM TO THE CELLBLOCK: The Justifications for Harsher Punishment of White-Collar and Corporate Crime." ARIZONA STATE LAW JOURNAL 37 (n.d.): 1295-319. Web. 17 Jan. 2014. <http://www.law.asu.edu/Portals/34/Dutcher.pdf>.

Frase, Richard S. SENTENCING IN GERMANY AND THE UNITED STATES: COMPARING ÄPFEL WITH APPLES. MAX PLANCK INSTITUTE FOR FOREIGN AND INTERNATIONAL CRIMINAL LAW, n.d. Web. 17 Jan. 2014. <http://www.fedcure.org/information/USSC-Symposium-0708/dir_14/Frase_SentencinginGermany+US.pdf>.

Lovegrove, Austin. Sentencing the Multiple Offender: Judicial Practice and Legal Principle. Rep. no. 59. Australian Institute of Criminology, 2004. Web. 17 Jan. 2014. <http://www.aic.gov.au/documents/4/F/1/%7B4F1B46DE-6EFA-4BC6-A221-AA41E56CEC96%7Drpp59.pdf>.

NAGARAJAN, G., and J. KHAJA SHERIFF, Dr. „WHITE COLLAR CRIMES IN INDIA." International Journal of Social Science & Interdisciplinary Research 1.9 (2012): n. pag. Sept. 2012. Web. 17 Jan. 2014. <http://indianresearchjournals.com/pdf/IJSSIR/2012/September/16.pdf>.

Owens, John B. „Have We No Shame?: Thoughts on Shaming, „White Collar" Criminals, and the Federal Sentencing Guidelines." American University Law Review 49.5 (2011). Web. 17 Jan. 2014. <http://digitalcommons.wcl.american.edu/cgi/viewcontent.cgi?article=1303&context=aulr>.

„Rajaratnam Judge Speaks Out on White-Collar Crime." WSJ Live. THE WALL STREET JOURNAL DIGITAL NETWORK. 2 Mar. 2012. Video. 2 Mar. 2012. Web. 17 Jan. 2014. <http://live.wsj.com/video/rajaratnam-judge-speaks-out-on-white-collar-crime/70FFBD69-8827-446A-BF3A-875EE34F306B.html>.

Wheeler, Stanton. „Sentencing the White-Collar Offender." AMERICAN CRIMINAL LAW REVIEW 17 (1980): 479-500. Yale Law School Legal Scholarship Repository. Yale Law School. Web. 17 Jan. 2014. <http://digitalcommons.law.yale.edu/cgi/viewcontent.cgi?article=5129&context=fss_papers>.

„White Collar Crime." HG.org Worldwide Legal Directories. Accessed 17 Jan. 2014 <http://www.hg.org/white-collar-crime.html

 


 

[1]    Sjá t.d.: http://www.nationmaster.com/graph/cri_sen_len-crime-sentence-length

 


 

[i]     Þá má telja það fráleita ráðstöfun að leggja Þjóðhagsstofnun af og fela greiningardeildum bankanna að sjá um þjóðhagsspár, enda engan veginn óháðir aðilar í þessu sambandi.

[ii]    http://www.pbs.org/moyers/journal/04032009/transcript1.html

[iii]   Sama heimild.

[iv]   Ástralía fellur í flokk ríkja sem styðast við hefðarrétt (common law).

[v]    http://www.smh.com.au/federal-politics/political-news/law-too-soft-on-whitecollar-criminals-says-former-judge-finkelstein-20120322-1vmxb.html

[vi]   Sama heimild.

[vii]  http://ia.unm.edu/pdf/BrodyKiehl.pdf

[viii] http://www.fbi.gov/about-us/investigate/white_collar

[ix]   http://edition.cnn.com/2004/LAW/09/17/mortgage.fraud/