VAXTARRÆKTARKONAN EINMANA OG MAÐURINN Í SKILTINU
Þetta eru titlarnir á tiltölulega nýútkomnum bókum frá Angústúru bókaforlaginu. Þar er ég áskrifandi og mæli hiklaust með því við alla að gerast áskrifendur. Mér dettur þetta í hug sem ég skrifa þetta, að Angústúru-áskrift væri kjörin jólagjöf: https://angustura.is/pages/arsaskrift
Angústúra gefur út fjölda bóka en áskriftin tekur til þýddra bóka víðs vegar að úr heiminum og er það jafnan tilhlökkunarefni að fá nýjustu Angústúru kiljuna inn um lúguna.
Nóg um þennan óumbeðna auglýsingaáróður.
Ég hef nýlokið lestri tveggja mjög ólíkra kiljubóka – stuttar báðar en þó innhaldsríkar. Annars vegar er það Vaxtarræktarkonan einmana eftir japanska höfundinn Yukiko Motoya og hins vegar Maðurinn í skiltinu eftir Maríu José Ferrada en hún er frá Chile.
Sjálfshjálparbók fyrir kúgaðar konur
Fyrst nokkrir þankar um þá japönsku sem fjallar um vaxtaræktarkonuna sem vísað er til í titli bókarinnar og síðan fjölmargt annað því bókin er safn smásagna. Hvað skal segja um þær? Ég held að rétt sé að byrja á þeirri játningu að mér leið ekkert sérstaklega vel undir lestri þessarar bókar. Kannski átti það að vera þannig. Ég er karl en ekki kona en bókinni er augljóslega ætlað það hlutverk að vera eins konar vakning til sjálfshjálpar konum sem búa við það illa hlutskipti að vera að engu gerðar í sambúð við þrúgandi og óþolandi karlrembur. Lesandi fær það á tilfinninguna að þetta sé hin almenna regla. Oftar en ekki kúgi eiginmenn eiginkonuna. Eflaust er það víða svo en varla alls staðar.
Ráðin sem Yukiko Motoya gefur kúguðum konum í þessari bók sinni flokkast varla til hefðbundinnar hjónabandsráðgjafar. Til dæmis það ráð að losa sig við sambýlismanninn í eitt skipti fyrir öll með því að skora hann á hólm í einvígi! Það sé þess virði að reyna, vogum vinnur vogum tapar segir máltækið.
Reiðhjólahnakkur meðfærilegri en eiginmaður af holdi og blóði
Einnig mætti reyna að forðast samneyti við hundleiðinlegar karlrembur með því einfaldlega að stofna ekki til sambands við slík eintök. Í staðinn mætti leita fyrir sér annars staðar og freista þess til dæmis að fara á fjörur við reiðhjólahnakk – það er auðvelt að ferðast með þeim (þá) því að hægt er að skrúfa þá af hjólinu að loknum hjólatúr og taka þá með í rúmið - eða að reyna mætti við platkall úr strái eða hálmi. Hálmmaðurinn heitir einmitt ein sagan. Hún fjallað um konu sem tók saman við hálmmann. Hann var vissulega erfiður framan af en að lokum til friðs eins og efni stóð til – í orðsins fyllstu merkingu.
Þannig væru alls kyns leiðir til þess að komast hjá því að glata sjálfri sér og renna inn í einhverja karlrembu-amöbu.
Konur forðist samlögun við karlófétin
Sjálfum þykir mér það engan veginn vera hræðileg tilhugsun að hjón renni hugarfarslega saman í eitt, ekki þó með því að flæða inn í einhvers konar heiladauða eins og Yukiko Motoya vísar svo ákaft til í sögum sínum að gerist oftar en ekki og þá á forsendum hins kúgandi eiginmanns, heldur þyrfti það að gerast samkvæmt mínum kokkabókum á jafnræðisgrunni þar sem annað byggir hitt upp. Þetta sér Yukiko Motoya alls ekki fyrir sér að geti gerst. Hjá henni gildir það eitt að hlaða varnarmúr gegn yfirgangs-karlrembunni; með grjótgarði í hjónarúminu ef ekki vill betur.
Óhrædd við óhefðbundna hugsun
Það verður að segjast að Yukiko Motoya er launfyndin á stundum, klifrar léttilega upp úr boxinu til að hugsa utan þess og það gerir hún alls óbangin, óneitanlega stundum skemmtilega ögrandi. Og það er hárrétt hjá Maríönnu Clöru Lúthersdóttur sem minnir á það í eftirmála að höfundurinn dragi upp skýrar ljóslifandi myndir að hætti góðs leikstjóra en Yukiko Motoya er einmitt leikstjóri í bland við rithöfundinn.
Lesandinn látinn um að botna óbotnanlegar sögur
Það er góður siður hjá Angústúru-útgáfunni að fá þýðendur eða annað kunnáttufólk til að varpa ljósi á bókmenntaverkin, botna þau ef þörf krefur. Það gerir Maríanna Clara Lúthersdóttir vel í eftirmála þessarar bókar. Hún hefur sérstaklega orð á því að Yukiko Motoya láti lesandann iðulega um að botna sögur sínar. Það er rétt athugað. Ég verð þó að segja að stundum þykir mér heldur langt til botns í óbotnuðum sögum hennar.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir á þakkir skildar fyrir góða þýðingu. Og Angústúra á þakkir skildar fyrir að leita aðeins til úrvalsþýðenda.
Maðurinn í skiltinu
Hin bókin sem ég var að ljúka lestri á er um manninn í skiltinu eftir Maríu José Ferrada. Hún fjallar um fáttækt og fordóma, einelti og útskúfun, hjarðhegðun og leit mannsandans, jafnvel við erfiðustu aðstæður, að friði í sálinni.
Þýðandi bókarinnar, Jón Hallur Stefánsson, segir réttilega að bókin standi nærri ljóðinu „í anda sínumum og aðferð“, það „megi eiginlega lesa hana sem langt prósaljóð.“
Þannig hefjist stríðin
Kannski er það þess vegna sem Maríu José Ferrara tekst að segja okkur drjúgan hluta mannkynssögunnar á rúmlega eitt hundrað blaðsíðum. Og auðvitað er það rétt hjá Jóni Halli að í þessari skáldsögu er margt orðað á ljóðræna vísu, til dæmis um tímann sem líður „án þess að bíða eftir neinum“, enda það sem hann geri best. Höfuðpersónur skilja hver aðra á tungumáli sem þarfnast ekki orða og valdbeitingin sem lesandinn verður vitni að í bókinni átti sem endranær „upptök sín í því að einhver hafði rétt fyrir sér og hélt síðan áfram með því að orð féllu á báða bóga.“ Þannig hefjist stríðin.
Velviljaður mannskilningur
Það sem er fallegast við þessa bók er velvilji höfundarins. Það er ekki nóg með að María José Ferrara búi yfir miklu innsæi; hún reynir að skilja alla, líka hinn óvægna, blokkaríbúann sem sjálfur var eitt sinn var förumaður í sárri fátækt og neyð, en finnst sér nú ógnað af sínum líkum frá fyrri tíð, hemilslausum flökkulýð sem þefjar af fátækt, „angar af reyk“, og hefur sest að nærri nýfengnum hýbýlum hans. Þetta fólk birtist honum nú sem minning um líf sem hann vill ekki muna; vofur sársauka og þreytu, vofur sem hann óttast og er tilbúinn að berja út úr tilveru sinni.
Hin fullkomna mótsögn
Lesandinn er þó frá fyrstu blaðsíðu til loka bókarinnar á bandi hinna útskúfuðu og þar með mannsins sem fundið hafði sér bústað í risastóru kóka-kóla auglýsingaskilti. Inn í svakalegri mótsögn gat hin óhamingjusama sál varla klifrað! Þar sat þessi flóttamaður úr samfélaginu og virti heiminn fyrir sér, skínandi rafljós í fjarska, en marglitar ljósaperurnar ímyndaði hann sér að hann hefði gróðursett og væru þær núna að koma upp í allri sinn dýrð í fjarlægu gróðurbeði.
Þýðing Jóns Halls er listilega góð enda sjálfur ljóðskáld. Hann þýddi einnig fyrri bók Maríu José Ferrara, Kramp. Sú bók fór einnig vel í mig.
Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kramp
------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)