Fara í efni

ÞAKKIR TIL KRISTÍNAR, MÖGGU STÍNU, HJÁLMTÝS, BJARKAR OG ALLRA HINNA ...

Í dag settist sama sólin á Gaza svæðinu og hér við Ægisíðuna mína í Reykjavík þar sem ég tók þessa mynd. Og það sem meira er að hún gekk til viðar á svipuðum tíma uppúr fjögur hjá mér en klukkutíma fyrr að íslenskum tíma við austanvert Miðjarðarhafið enda á öðru tímabelti.

En hvað eigum við Íslendingar og Gazabúar annað sameiginlegt en sólina? Ég er hugsi eftir lestur Dagbókar frá Gaza eftir Atef Abu Saif.
Ég er ekki enn byrjaður á lestri neinna jólabókanna; ákvað að taka þessa bók inn með teskeið. Lesa dag fyrir dag - hægt og rólega. Var búinn að fresta því lengi vel að lesa þessa dagbók frá útrýmingarbúðunum sem Angústúraútgáfan gaf út árið 2024. Ég vissi hvað beið mín og hlakkaði ekki til. Dagbókin er frá því að hamfarirnar á Gaza hófust í október 2023 til ársloka það ár. Hvað var ég að gera þá? Ég hef reynt að hugsa til þess, fletta því upp, rifja upp.

Við höfum öll nasasjón af því hvað þarna gerðist á þessum tíma - og allar götur síðan, ekki gleyma því - en munum engu að síður aldrei geta skilið til fulls. Að þessu vék ég í tilvitnun í Dagbókina frá Gaza í áramótakveðju hér á síðunni: «það er ekki hægt að ræða um sársauka. Það er ekki hægt að tjá hann eða skrifa um hann. Maður upplifir hann bara.»
https://www.ogmundur.is/is/greinar/bedid-um-frid-i-grimmum-heimi

Mitt eintak af Dagbók Atefs Abu Saif er útkrassað og víða upphrópunarmerki: “Nú er svo komið að skurðaðgerðir eru framkvæmdar án nokkurrar svæfingar.” Hér stendur á spássíu, að þetta skiljum við þó!
En skilur okkar heimshluti – ríkin sem segjast búa við svo mikil og góð gildi – hver ábyrgð þeirra raunverulega er? Hún er ekki lítil. Íslenskum stjórnvöldum hefur þótt nóg að segja að Ísrael þurfi að fara að alþjóðalögum í “vörn” sinni og að allt þetta sé mikið áhyggjuefni. Og allir samsinna um leið og næsti sprengjufarmur er sendur af stað.

En lestur Dagbókanna sannfærði mig – eða öllu heldur minnti mig á - hlutdeild NATÓ-ríkja í þjóðarmorðinu, skipulegum fjöldamorðum og pyntingum, mölbroti innviða, markvissum áformum um að eyðileggja líf fólks, leggja það algerlega í rúst. Verkfærin til níðingsverkanna koma frá bandalagsríkum Íslands í NATÓ, vinaþjóðunum svokölluðu. Stórtækastir eru Bandaríkjamenn, en Bretar, Ítalir, Hollendingar og fleiri eru á sínum stað - á hnjánum - frammi fyrir hergagnaiðnaðinum, heimsauðvaldnu og zíonismanum í Ísrael.

Einhverjir hafa orðið til að gagnrýna háværa mótmælendur hér á landi en ég tek ofan fyrir þeim, háværum og lágværum; ég tek ofan fyrir Möggu Stínu, hún hrópaði fyrir mína hönd, ég tek ofan fyrir Kristínu S. Bjarnadóttur á Akureyri sem unnið hefur kraftaverk á kraftaverk ofan í hjálpar- og stuðningsstarfi sínu, Agli Einarssyni fyrir skrif hans og stuðningsaðgerðir, fyrir Hjálmtý Heiðdal og félögum í forystusveit félagsins Ísland Palestína og að sjálfsögðu fyrir Sveini Rúnari Haukssyni og Björk Vilhelmsdóttur sem staðið hafa í forystu mannréttindabaráttu Palestínumanna um áratugaskeið. Og svo eru öll hin ónefndu. Þökk til ykkar allra.

-----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)