TAKK INDRIÐI
Já, þakkir einnig til Heimildarinnar fyrir að birta greinar Indriða H. Þorlákssonar, fyrrum ríkisskattstóra, en hann hefur skrifað afbragðsgóðar og gagnlegar greinar í blaðið um nokkurt skeið.
Nýjasta grein Indriða fjallar um einkavæðingu, ábyrgð og skattasiðferði.
Þessi grein er að mínu mati mjög mikilvægt innlegg í stjórnmálaumræðu þjóðfélags sem siglir hraðbyri í átt til sífellt aukinnar markaðsvæðingar. Svo hefur verið um alllangt skeið og hafa fyrri ríkisstjórnir ekkert viljað læra af reynslunni. Margt bendir til þess að þar verði framhald á enda harðdrægir einkavæðingarsinnar innanborðs.
Það vantaði ekki gagnrýnar ábendingar þegar HS Orku var skipt upp og síðan þegar selt var með því skilyrði að hvorki ríki né sveitarfélög keyptu. Um það nánar hér á eftir og vísa ég þar í umfjöllun í bók minni Rauða þræðinum. Þar eru þessi mál tekin allítarlega fyrir.
En fyrst að umfjöllun Indriða sem bendir einkum á þrennt og reyndar sitthvað meira til sem þó er best að fá beint í æð með lestri greinar hans í Heimildinni
- Indriði nefnir að gróðafyrirtæki sem borgar eigendum sínum út arð án afláts lætur sér ekki til hugar koma að taka þátt í tilkostnaði við að verjast ágengum og ógnandi náttúruöflum. Og það sem meira er stjórnvöldum kemur ekki til hugar að krefja þau um slíkt!
- Eigendur HS orku taka lán hjá sjálfum sér til að lána síðan til eigin eignar, krefja hana um háa vexti sem teljast frádráttarbærir frá skatti og skapa með því móti svigrúm til að taka til sín milljarða arð.
- Lífeyrirsjóðir landsins taka þátt í skattaundanskotinu sem er náttúrlega ekkert annað en siðlaust svindl.
Sjá grein IHÞ í heild sinni: https://heimildin.is/grein/24417/einkavaeding-abyrgd-og-skattasidferdi/
Vert er að staldra við eftirfarandi í grein Indriða H. Þorlákssonar:
“Í ársreikningum HS Orku vekur hins vegar athygli að nýverið tók fyrirtækið lán hjá eigendunum sínum, fjárfestingasjóðnum MIRA og Jarðvarma, samlagshlutafélagi 14 íslenskra lífeyrissjóða, að fjárhæð 38 milljón bandaríkjadala, jafngildi um 5,5 mrd. kr1. Lánið er kúlulán til 7 ára með 10,9 prósent ársvöxtum sem bætast árlega við höfuðstólinn. Ekki kemur fram hver tilgangur með lántökunni sé en á þessum 7 árum mun HS Orka greiða eigendunum sínum 5,3 mrd. kr. í vexti sem dragast frá skattskyldum tekjum fyrirtækisins á tímabilinu og lækka með því skatta þess um rúmlega 1 mrd. kr. Sú búbót leggst við arðgreiðslur félagsins sem verið hafa um 5,5 mrd. kr. að meðaltali á árunum 2017 til 20222.”
Við þessa umfjöllun Indriða má bæta nýjum fréttum frá HS orku um tap á síðasta ári. Þegar skýringar á tapinu, sem samkvæmt bókhaldi nemur 420 milljónum króna, eru komnar í samhengi við ábendingar Indriða glittir í bókhaldsbrelluna. Eftirfarandi er úr frétt Viðskiptablaðsins 2. maí sl.:
„Fjármagnsliðir setja verulegt mark á afkomu félagsins milli ára. Í stórum dráttum skýrist breytingin af óhagstæðum gengismun að fjárhæð 70 milljónir króna á árinu 2024 samanborið við gengishagnað að fjárhæð 1.019 milljónir króna árið áður. Samhliða framkvæmdum í Svartsengi hækkuðu nettó fjármagnsgjöld um 947 milljónir króna á milli ára, voru 2.646 milljónir 2024 en 1.700 milljónir 2023.“
Sjá nánar: https://vb.is/frettir/420-milljona-tap-hja-hs-orku/
Sem áður segir er fjallað um þessi mál í Rauða þræðinum, bæði málið sjálft og átök innan VG sem þessu tengdust. Sjá t.d. hér bls 369 og 370:
“... Upphaf þess máls var ásetningur Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðherratíð Árna Mathiesen að hefja einkavæðingu raforkufyrirtækja. Það var gert með því að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja með því skilyrði að opinberir aðilar, það er ríki og sveitarfélög eða fyrirtæki í þeirra eigu, hefðu ekki heimild til að kaupa hlutinn heldur aðeins einkaaðilar.
Þetta opnaði leið fyrir Geysi Green fjárfestingarhópinn til að kaupa sig inn í HS Orku. Þetta var árið 2007. Síðar gerist það að Geysir Green lendir í hremmingum og er þess skammt að bíða að fyrir tækið Magma kaupir sig inn í HS Orku. Magma átti að heita sænskt fyrirtæki en sænskt var það aðeins á yfirborðinu til að þykjast vera lögaðili innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Í reynd var þetta skúffufyrirtæki fyrir kanadískan fjárfesti. Þetta virkaði sem sprengiefni inn í grasrót VG sem vildi ekki sjá orkuauðlindirnar einkavæddar og alls ekki að eignarhaldið yrði fært út úr landinu ...
... Aðdragandinn að markaðsvæðingu orkugeirans var alllangur. Braskarar og stjórnmálamenn höfðu komið þar að borði, ekki aðeins í þessu máli heldur fleirum af sama toga. … Boltinn hafði áður verið gefinn fyrir markið með innleiðingu á fyrstu orkupökkum Evrópusambandsins sem íslensk stjórnvöld létu þjóðina gleypa í heilu lagi eins og verið hefur allar götur síðan. Þetta var alls ekki nauðsynlegt vegna þess hve aftengd við vorum þessum markaði og hefði mátt sækja um undanþágu eins og reyndar einnig síðar þegar haldið var lengra inn í markaðsumhverfið með orkugeirann. Jafnvel við háborð markaðshyggjunnar í Brussel hefðu menn skilið að á fámennu og einangruðu svæði yrði samkeppnin varla annað en kostnaðarsamar umbúðir. Öðru máli gegndi ef Ísland tengdist stærri markaði með sæstreng. Um undanþágur var hins vegar ekki hirt, hvorki fyrr né síðar.
Orkutilskipanir ESB gengu út á að skipta stofnunum og fyrirtækjum í orkugeiranum upp í framleiðsluhluta og veituhluta. Þriðji þátturinn yrði síðan miðlægt dreifingarkerfi sem á Íslandi hlaut nafnið Landsnet. Þarna varð til HS Orka og HS Veitur, hið fyrra orkuframleiðslan (Svartsengi o.fl.), en HS Veitur önnuðust dreifinguna sem síðan átti eftir að verða að sameiginlegu veitufyrirtæki sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Ekki sluppu HS Veitur þó við einkafjárfesta því á árinu 2011 keypti íslenskur fjárfestir rúmlega þriðjungs hlut í HS Veitum af nokkrum sveitarfélögum
… Árið 2010 var hins vegar átakaárið um þessi mál. Beittum við nokkur úr VG okkur fyrir því að ríkið myndaði bandalag með sveitarfélögum á Suðurnesjum, sem sum hver höfðu lýst áhuga á að taka yfir hlut Magma í HS Orku. Málið fór fyrir flokksráðsfund VG og má kenna hitann í umræðunni í skrifum Þorleifs Gunnlaugssonar frá því í júlí 2010 en hann var þá borgarfulltrúi VG …”
-------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/