SÝN SACHS Á (Ó)FRIÐARHORFUR Í ÚKRAÍNU
Hér að neðan er slóð á sjónvarpsþátt frá því í maí þar sem Jeffrey Sachs sat fyrir svörum hjá Pascal Lottaz um heimsmálin með áherslu á Úkraínustríðið og hvernig megi leiða það til lykta.
Sachs bendir á að í því samhengi þurfi að horfa til fjögurra aðila, að sjálfsögðu Úkraínu og Rússlands en einnig til Bandaríkjanna og Evrópu.
Þótt viðtalið sé orðið rúmlega tveggja mánaða gamalt á það enn erindi að mínu mati.
Sachs telur að lykillinn að stríðslokum í Úkraíu sé hjá Trump Bandaríkjaforseta sem vilji binda enda á stríðshörmungarnar. Hann skorti hins vegar staðfestu og þurfi auk þess að glíma við pólitísk öfl heima fyrir sem alls ekki vilji að stríðinu ljúki og haldi sig við þrjátíu ára gömul áform um að gera allt sem unnt sé til þess að grafa undan Rússlandi. Úkraínustríðið sé liður í þeirri áætlun.
Þetta eru ekki nýjar tilgátur en settar fram á sannfærandi hátt að því er mér finnst eins og jafnan hjá Jeffrey Sachs
Evrópa fær ekki háá einkunn í þessu samtali. Forystumenn þar taki undir með þeim sem séu við stjórnvölinn í Úkraínu og vilji framhald á stríðinu “þar til sigur vinnst”. Þetta þekkjum við Íslendingar vel eftir að fylgjast með íslenskum ráðherrum stilla sér upp með ráðamönnum í Úkraínu og stríðshaukum NATÓ ríkjanna og taka undir sigurkröfuna.
Menn verði að hafa í huga, segir Sachs, að valdakjarni Úkraínu styðjist ekki við lýðræðislegan vilja – hann sé aldrei kannaður. Áfram haldi því mannfall og eyðilegging sem leiði til þess að innviðir Úkraínu séu eyðilagðir. Við þetta má bæta að meðan þessu vindur fram sölsa fjölþjóðlegir hrægammar jafnt og þétt undir sig land og hráefni og annað í Úkraínu sem færir þeim auð. Trump opinberaði þessa ásælni í auðævi Úkraínu en minna hefur farið fyrir slíku tali í Evrópu þótt þar séu ráðandi öfl við sama heygarðshornið. En það eru mín orð.
En aftur að orðum Sachs. Hann segir að það sé af sem áður var að vestrænir fjölmiðlar veiti stjórnendum óháð aðhald. Segir hann helstu fjölmiðla vestanhafs básúna áróður og dragi upp falsmyndir af því sem sé raunverulega að gerast.
Því fari fjarri að staða Úkraínu fari batnandi á vígvellinum. Hún veikist þvert á móti og sé nú miklu veikari en hún var þegar friðartillögur lágu fyrir vorið 2022.
Ég þykist vita að þessu séu ekki allir sammála. En fyrir alla muni hlýðið á Jeffrey Sachs og röksemdir hans.
Umrætt viðtal:
https://www.youtube.com/watch?v=T_oRDTJRvtE&ab_channel=NeutralityStudies
------------------------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
Warning: Sometime people who have wante to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and then given their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this please. )