Fara í efni

STÓRMÁL HEIMA FYRIR, MISSKIPTING Í EVRÓPU OG TYRKLAND

Alþingi og Evrópuráð 2
Alþingi og Evrópuráð 2

Slæmt er að vera fjarri þinginu þessa daga þegar stórmál eru til umræðu, lífeyrismálin, almannatryggingar, LÍN og fleiri stórmál. Nánast þykir mér það vera siðlaust af hálfu ríkisstjórnarinnar að ætla sér að afgreiða stórmál af þessu tagi með því að vinna þau með hraði á handarbakinu eins og vilji hennar augljóslega stendur til.

Löggjafinn loki lífeyriskerfi opinberra starfsmanna á nokkrum dögum

Þannig hljómar það ævintýralegt, eða eigum við að segja hrollvekjandi, að ætla sér að leggja niður lífeyriskerfi opinberra starfsmanna rétt sisona! Kerfi sem kostaði áratuga baráttu að koma á laggirnar. Nú á að jafna þessi kjör niður á við á óljósum, og að mínu mati, óframkvæmanlegum fyrirheitum um launahækkanir. Nema menn ætli að halda með opinbera launakerfið inn  í samsvarandi markaðslaunafyrirkomulag og er við lýði á almennum markaði. En okkur er sagt að allir séu sáttir - enda enginn skertur nema framtíðin.
Ég virði það að sjálfsögðu að samtök opinberra starfsmanna hafi lengi setið yfir málinu og hér er vissulega um að ræða kjör sem þau eiga að semja um. En jafnframt þarf að virða rétt þingsins og samfélagsins alls. Ef aðstandendur málsins eru eins vissir í sinni sök og þeir segjast vera, þá hlýtur málið að þola almenna umræðu, bæði innávið og útávið.  

Skýrslur mínar til umfjöllunar hjá Evrópuráðinu

En hvers vegna er ég fjarri þingsal Alþingis? Ég sæki nú löngu ákveðna fundi á vegum Evrópuráðsnis. Og meira er framundan. Ekki hafði mig órað fyrir að þingið stæði enn nú undir lok september og féllst ég því á að skýrslur á mínum vegum væru teknar fyrir í nefndum. Átti reyndar ekki mikið val auk þess sem ég hafði tekið að mér að halda fyrirlestra erlendis, sem ég hleyp ekki auðveldlega frá.
Á miðvikudag sótti ég fund Félags- og velferðarnefndar Evrópuráðsins í París þar sem  ég kynnti frumdrög að skýrslu sem ég er að vinna fyrir Evrópuráðsþingið um vaxandi misskiptingu í Evrópuríkjum og hvort samhengi kunni að vera á milli þeirrar þróunar annars vegar og þverrandi áhrifa verkalýðshreyfingar hins vegar.

Hlustað á sérfræðinga

Efnt var til þess sem á ensku er kallað „hearing", en á slíkum fundum er hlustað á álit sérfræðinga. Annars vegar kom á fundinn, Dr. Aristea Koukiadaki, prófessor í vinnurétti frá háskólanum í Manchester í Bretlandi, sem unnið hefur að rannsóknum á þessu sviði og hins vegar Renate Hornung-Draus, skrifstofustjóri þeirrar deildar þýska atvinnurekendasambandsins sem fer með alþjóðasamskipti.  Síðar mun ég greina frá niðurstöðum þessarar vinnu og þeirrar skýrslu sem vonandi fljótlega lítur dagsins ljós. Ég er í miklu kapphlaupi við tímann á meðan ég enn er einn þriggja fulltrúa Íslands á þingi Evrópuráðsins.

Kastljósið á Moldóvu ...

Af þessum fundi hélt ég til Tirana í Albaníu þar sem ég átti að fylgja úr garði skýrslu sem ég hef unnið ásamt Valentinu Leskov, albönskum þingmanni, um stöðu mannréttindamála í Moldóvu. Við höfum haft þetta verkefni með höndum og gengið frá greinargerðum um athuganir okkar og niðurstöður eftir tvær heimsóknir til landsins  en ég hef áður gert grein fyrir þeim,sjá m.a. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/evropuradsheimsokn-losar-politiskan-fanga-ur-haldi

... og Tyrklandi

Á fundinum var einnig, og á meðal annars, fjallað um stöðu mannréttindamála í Tyrklandi. Fékk ég þá einkunn frá fulltrúa Tyrklands að ég væri að hvítþvo hryðjuverkasveitir Kúrda eftir að ég hafði gagnrýnt ofbeldi tyrkneskra stjórnvalda sem ég fengi ekki séð annað  en að væru í reynd hryðjuverk gegn saklausu fólki. Ég hafði rökstutt fullyrðingu mína með dæmum úr skýrslum Evrópuráðsins og Amnesty International og annarra mannréttindasamtaka. Viðbrögðin af hálfu fulltrúa tyrkneskra stjórnvalda minntu á hve málefnaleg umræða á erfitt uppdráttar í Tyrklandi ef hún er hvöss í garð stjórnvalda. Ef þú leyfir þér að gagnrýna stjórnvöldin ertu sagður styðja hryðjuverk!  Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem einnig á sæti þessari nefnd, var með framlag um þetta málefni og þótti mér það gott.    

Hryðjuverk eru stundum ríkisrekin

Ég minnti á að í maí mánuði síðastliðnum, talsvert fyrir valdaránstilraunina í júlí hafði þinghelgi verið numin brott með breytingu á stjórnarskrá Tyrklands, og væru 152 þingmenn, flestir Kúrdar, nú að svara fyrir rétti ásökunum um hryðjuverk þótt þeir hafi ekki gert annað en mótmæla mannréttindabrotum í landinu, svipað og ég gerði á þessum fundi sem síðan kallaði á framangreinda einkunnagjöf.
Staðreyndin er sú að á vettvangi Evrópuráðsins höfum við fengið að heyra, meðal annars frá Amnesty International sem áður segir, hvernig langvinnt útgöngubann víða í Suðaustur-Tyrklandi hefur leitt til þess að hátt á fjórða hundrað þúsund manns er nú á vergangi og hálf önnur milljón manna er talin hafa fengið að finna fyrir aðgerðum stjórnvalda. Enginn deilir um að það er mannréttindabrot að varna fólki aðgang að vatni en slíkt hefur verið fylgifiskur þessara aðgerða. Kemur þar einnig margt annað til sem gerir líf fólks nánast óbærilegt.

Hamfarir af mannavöldum

Þessum aðgerðum má líkja við hamfarir nema hvað ekki er við náttúruna að sakast heldur stjórnvöld sem vilja láta taka sig alvarlega á vattvangi Evrópuráðsins, sem hefur það hlutverk að standa vörð um mannréttindi. 
Aðgerðirnar gegn Kúrdum jafnast að mínu mati á við hryðjuverk af hálfu ríkisins. Þetta sagði ég á fundinum en þar með legg ég ekki blessun mína yfir hryðjuverk annarra.