Fara í efni

SPILAVANDINN: HORFT FRAM OG TIL BAKA

Birtist í Morgunblaðinu 29.10.25.
Byrjum á því að horfa til baka. Við erum stödd á árinu 2013. Mikil umræða hefur farið fram um leiðir til að setja fjárhættuspilum skorður í ljósi þess að sífellt er að koma betur í ljós hvílíkum skaða þau valda einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu í heild sinni.
Það er ekki aðeins sá sem stendur löngum stundum fyrir framan spilakassann eða þrásitur við tölvuskjá sem haldinn er spilafíkn. Segja má að sama gildi um þá sem njóta ágóðans. Áfergja þeirra sem hagnast á kostnað hinna sem standa andspænis vítisvélunum er ekki lítil. Og það er þessi tegund spilafíkils sem nýtur meðvirkni á Alþingi og í stjórnkerfi.
Ég varð þess snemma áskynja. Jafnan þegar ræða átti fjárhættuspil á þingi tæmdist þingsalurinn. Menn vildu ekki styggja Háskóla Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Rauða kross Íslands eða SÁÁ. Þetta voru í mínum huga hinir eiginlegu spilafíklar. Og það voru þeir sem ég þurfti sem innanríkisráðherra að glíma við þegar ég vildi koma böndum á þessa starfsemi. Það reyndist ekki auðvelt.

Aðgerðaáætlun sett fram

Eftir könnunarleiðangra til Norðurlandanna og fjölda samráðsfunda með fyrrgreindum íslenskum fjárhættuspila-rekendum varð til áætlun. Ég komst að þeirri niðurstöðu að erfitt myndi reynast tæknilega og með öllu útilokað á þinginu að ganga þá leið sem ég helst vildi, það er að segja að banna þessa illu starfsemi í einu vetfangi. Fyrir því var ekki stuðningur á Alþingi.
Áætlunin sem ég kynnti í ársbyrjun 2013 byggði þess vegna á því mati að enginn árangur myndi nást í einu stökki, árangur næðist aðeins skref fyrir skref.

Eftirlit og forvarnir samhliða skipulagsbreytingu

Í fyrsta lagi yrði að koma á raunverulegu eftirliti sem var (og er enn) í algeru skötulíki. Stofna skyldi í því skyni Happdrættisstofu sem hefði eftirlit með því að spilaiðnaðurinn færi að lögum og reglum.
Í öðru lagi var hugmyndin sú að koma í veg fyrir innbyrðis samkeppni spilarekenda. Hún leiddi til þess að þeir kepptust um að ná í sífellt ágengari vélar, hannaðar með það fyrir augum að hafa sem mest fé af fólki. Ef búin væri til regnhlíf sem næði yfir öll fjárhættuspil landsins, rekstur yrði með öðrum orðum á einni hendi, og síðan ávinningnum deilt út á milli einstakra stofnana og samtaka samkvæmt lýðræðislegum vilja til dæmis með tengingu við Alþingi, væri þessi ógeðfellda og mjög svo skaðlega tegund samkeppni úr sögunni.

Rúsínan í pylsuendanum

Ekki þótti spilarekendum þetta sérlega fýsilegt. En þeir áttu það sameiginlegt að óttast samdrátt í tekjum því til sögunnar var kominn ógnvænlegur samkeppnisaðili, fjárhættuspil á netinu. Allir vildu íslensku spilakassarekendurnir nú komast á netið. Ég taldi að hægt væri að draga þann lærdóm af reynslu Norðmanna að þarna væri hægt að setja tilteknar skorður en ætla mætti á hinn bóginn að útilokað væri að ná algerlega utan um þennan þátt.
Ég hafði orðað það við íslensku spilarekendurna hvort hér gætum við átt einhverja samleið og í framhaldinu lagði ég fram frumvarp á Alþingi sem kvað á um að sett yrði á laggirnar Happdrættisstofa sem hefði eftirlit með þessari starfsemi og stýrði fjármunum til þeirra sem önnuðust forvarnir og faglega aðstoð til handa spilafílklum. Rætt var um leiðir til að vernda spilafíkla, til dæmis með spilakortum. Og svo kom rúsínan í pylsuendanum. Reynt yrði að loka á erlendar veðmálasíður en eftirlitskyld spilun á netinu á vegum innlendra rekstraraðila heimiluð en með takmörkunum þó.

En svo breyttist allt

Það var sem við manninn mælt að nú voru allir tilbúnir að hlusta.
Það var Alþingi hins vegar ekki til að byrja með. Þegar ég steig fyrsta skrefið með frumvarpi í ársbyrjun 2013 varð fyrir mér múr. Meira að segja tal mitt um að halda bæri ágóðanum af vefspilun innan landsteinanna fékk takmarkaðar undirtektir. Skýtur það ekki skökku við að vara við fjárhættuspilum á netinu en vera reiðubúinn að greiða götu innlendra aðila þar, kemur það ekki út á eitt fyrir spilafíkilinn hver það er sem græðir svo lengi sem hann tapa? Við þessu átti ég ekkert svar annað en að muldra að helst vildi ég banna þessa óværu með öllu og myndi gera það ef ég bara gæti. Lét þess þó getið að vissulega væri á því grundvallarmunur að missa þessa fjármuni úr landi og að nýta þá hér innanlands til einhvers góðs.
En hver skyldi það hafa verið á þingi sem vildi ofar öllu horfa til spilafíkilsins og hagsmuna hans? Það var fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, núverandi formaður Viðreisnar, þess flokks sem nú segir að veðmál á netinu séu komin «til að vera».
Hvað netið varðar hefur afstaða okkar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur snúist við. Ég vil horfa einvörðungu til fórnarlamba, loka spilavítunum hvar sem þau er að finna en Viðreisn tekur undir með íþróttahreyfingunni um að öllu máli skipti að fá peningana «heim» og helst alla leið heim á íþróttavöllinn.

Hvað olli breyttum viðhorfum?

Hvað sjálfan mig snertir hefur þetta breyst:
Krafa Háskóla Íslands, Rauða krossins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og nú íþróttahreyfingarinnar um að fá aðgang að æsku landsins í gegnum veðmál á netinu, vel vitandi um skaðsemi þessa, hefur valdið mér slíkri ógleði að ég er ekki lengur reiðubúinn að samþykkja slíkt. Hafði gert það sem neyðarbrauð en ekki lengur.
Og er þar komið að ástæðu númer tvö. Ég hef sannfærst um að hamla megi verulega gegn netspilun ef vilji er til þess af hálfu löggjafans, framkvæmdavaldsins og fjármálakerfisins. Hvað síðasta þáttinn áhrærir vísa ég til jákvæðrar viðleitni Indó bankans. Um takmarkanir á netinu hafa talsmenn íþróttahreyfingarinnar verið sannfærandi – í það minnsta lengi vel, á meðan þeir einskorðuðu viðfangsefnið við að slökkva á erlendum aðilum. En ef hægt er að koma í veg fyrir starfsemi þeirra gildir væntanlega hið sama um íslenska rekstraraðila.
Þriðja ástæðan er sú að taka beri alvarlega það fólk sem stigið hefur fram og sagt eigin sögu af skaðsemi netveðmála. Ég vísa sérstaklega í Kristin Hjartarson sem á áhrifaríkan hátt hefur sagt eigin sögu, hvernig veðmálin hefðu ekki aðeins gleypt peningana hans heldur allt líf hans. Ætlum við virkilega að láta varnaðarorð manna á borð við hann sem vind um eyru þjóta?
Þriðja ástæðan er vaxandi spilavandi, sérstaklega hjá ungmennum í íþróttahreyfingunni víða um lönd, og ábendingar ábyrgra aðila um að þörf sé á róttækum aðgerðum fórnarlömbum veðmangaranna til varnar.
Í fjórða lagi vísa ég til vilja landsmanna, en fram kom í Gallup könnun, sem Samtök áhugafólks um spilafíkn lét efna til á árinu 2020, að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, 85,5 % samkvæmt könnuninni, vildi láta loka með öllu á þessa ósiðlegu aðferð til að safna peningum.
Fimmta ástæðan er sú að ég trúi því að innst inni sé að finna þann streng með okkur öllum að vilja gera rétt. Ég hef hrifist af rekstraraðilum, nú síðast í Ölveri í Glæsibæ, sem hafa skilað vítisvélunum til föðurhúsanna, Háskóla Íslands, Rauða kross Íslands og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og þar með orðið af miklum persónulegum ávinningi. Þeir sögðust hafa tekið þá ákvörðun með hjartanu.
Það mættu fyrrnefndar stofnanir og íþróttahreyfingin í landinu einnig gera, enda eiga þær heima í sjálfri brjóstvörn lýðheilsu og almenns siðgæðis.

Hvað og hver er komin til að vera?

Ráðherra Viðreisnar hafði þau orð í fjölmiðli að þessi starfsemi væri „komin til að vera“. Vel má vera að svo verði um sinn. En skyldi Viðreisn þá vera komin til að vera?
Væri ekki ráð að allir aðilar endurskoðuðu hug sinn í ljósi reynslunnar og breyttra aðstæðna?
Viðhorf sem voru í gær eru ekki endilega viðhorfin í dag, hvað þá morgundagsins. Það getur ekki verið vilji okkar að leggja líf fólks í rúst eins og fjárhættuspilin óumdeilanlega gera.

---------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)