Fara í efni

SÖGUNNI HALDIÐ TIL HAGA


Það er mikilvægt að halda sögunni til haga. Það gefur okkur dýpri skilning á samtíma okkar og auðveldar okkur að rata inn í framtíðina. Í því getur líka verið fólgið réttlæti: Að virt sé að verðleikum sem vel hefur verið gert fyrr á tíð.

Alltof oft taka menn réttindi sem við búum við sem gefinn hlut þegar veruleikinn er sá að fyrir þeim þurfti mikið að hafa og kostaði baráttu og elju.Að mínu mati eru lífeyriskjör okkar einhver mikilvægustu réttindi sem við búum við. Opinberir starfsmenn hafa lengi vel lagt höfuðkapp á að berjast fyrir góðum lífeyrisréttindum og hafa fyrir bragðið notið betri lífeyrisréttinda en aðrir í landinu. Oft hefur verið sótt að þessum réttindum og hefur stundum munað litlu að þau væru skert stórlega.

Alvarlegasta atlagan að þessu kerfi var gerð á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar. Þá gáfust margir upp. Flestir. Ekki Gunnar Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri SFR, síðar framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands. Hann stóð vaktina. Einn með storminn í fangið. Innan BHMR voru líka til einstaklingar vel vakandi.

En það var Gunnar sem gerðist minn leiðsögumaður í lífeyrismálum þegar ég kom til starfa sem formaður BSRB og leitaði ég alla tíð til hans um ráðgjöf.

Í byrjun árs 2008 hélt Sjúkraliðafélag Íslands málþing Gunnari til heiðurs í tilefni af sjötíu ára afmæli hans og var það helgað lífeyrismálum. Þar flutti ég erindi sem ég síðan vitnaði í við opnun nýafstaðins þings BSRB. Hvers vegna? Vegna þess að ég er staðráðinn í því að halda sögunni til haga af fyrrgreindum ástæðum.

Sjá slóð á ívitnað erindi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/er-kominn-timi-til-ad-selja-thoturnar