Fara í efni

ER KOMINN TÍMI TIL AÐ SELJA ÞOTURNAR?

Erindi flutt á málstofu BSRB um lífeyrismál 29.02.08.

Launamaðurinn og lífeyriskjörin er yfirskrift míns erindis á þessu málþingi um lífeyrismál. Þeir sem hér tala eru að ýmsu leyti eins konar tákngervingar fyrir aðskiljanlega þætti hinnar félagslegu og fjármálalegu  umgjarðar um íslenska  lífeyriskerfið. Hér er fulltrúi lífeyrissjóðanna allra, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða; forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og þar með formælandi almannatrygginga, Sigríður Lilly Baldursdóttir;  stórvesír úr banka- og fjárfestingaumhverfinu, Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka og síðan höfum við hina bókmenntalegu og sögulegu sýn bókmenntafræðingsins,  sem í dagskrá er kennd við núverandi starf sitt í Alþingishúsinu við Austurvöll, Katrín Jakobsdóttir.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, hefur rakið tilkomu lífeyrissjóðanna og Sigríður Lillý Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Tryggingastofnunar ríkisins hefur varpað ljósi á almannatryggingakerfið í velferðarsamfélaginu. Allt er þetta merk saga og fróðlegt að máta okkar eigin sögu inn í fjölþjóðlega sögu velferðarkerfisins, hvað Evrópu áhrærir, allar götur frá lokum 19. aldar, fyrst í mýflugumynd miðað við það sem síðar varð. Á Íslandi var það ekki fyrr en á fjórða áratug 20. aldar að almannatryggingakerfið undir handarjaðri stjórnar Hinna vinnandi stétta er sett á laggirnar og þróast síðan í þá mynd sem við þekkjum. Fyrirmyndir voru þá til víða, ekki síst á Norðurlöndum, þar sem félagsleg öfl beittu sér á þessum tíma fyrir Arbejdsloven, almannatryggingum og vinnurétti. Síðar, á millistríðsárunum, komu Bretar með sitt rómaða almannatryggingakerfi, skapað og mótað undir slagorðinu, eða öllu heldur fyrirheitinu, sem bresku samfélagi var þá gefið um að hverjum og einum yrði tryggt öryggi og velferð frá vöggu til grafar, from the cradle to the grave! Hér á landi komu til sögunnar og þróuðust lífeyrissjóðir tengdir launamarkaði samhliða almannatryggingakerfinu, fyrst opinberu lífeyrissjóðirnir, en síðar sjóðir á almennum  vinnumarkaði. Þessi saga hefur verið rakin hér í fyrri erindum og ætla ég því ekki að fjölyrða um hana. Það nægir að árétta að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna eiga sér lengri sögu en sjóðir á almennum markaði, annars vegar frá öndverðri 20. öld og hins vegar byrjun áttunda áratugar þeirrar aldar. En svo var komið árið 1974 að öllu launafólki var skylt að vera í lífeyrissjóði  og síðan 1980 hefur verið skylda fyrir alla landsmenn að vera í lífeyrissjóði, einnig atvinnurekendur.

Og nú eru lífeyrissjóðirnir orðnir stórveldi í efnahagskerfinu. Eignir þeirra á Íslandi eru tæplega 1.700 milljarðar króna, eða einsog Hrafn Magnússon benti á í sínu erindi, þá gerir þetta tæplega 5 milljónir og þrjú hundruð þúsund á hvert mannsbarn í landinu. Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, hefur borið saman íslensku lífeyrissjóðina, annars vegar og norska Olíusjóðinn hins vegar. Hann komst að þeirri niðurstöðu að norski sjóðurinn væri 13,3 sinnum stærri en sjóðir íslensku lífeyrissjóðanna, en að Norðmenn væru hins vegar 13,8 sinnum fleiri en við - það er 4,3 milljónir á móti 310 þúsund. Okkar sjóðir væru því heldur stærri reiknaðir á hvert mannsbarn. Þetta nefni ég til samanburðar til að sýna stærðargráðu íslensku lífeyrissjóðanna, að þeir eru meiri að vöxtum en hinn risavaxni olíusjóður Norðmanna.

Norðmennirnir dæla inn í sinn sjóð andvirði olíuauðs, við á hinn bóginn dælum inn andvirði vinnuframlags okkar. Hjá opinberum starfsmönnum er það svo að næstum 20% af hverri launakrónu rennur til lífeyrissjóða ( 15,5% inn í sameign og 4% í séreign), það gerir fimmtung allra tekna aflað. Þetta þýðir að í hverri vinnuviku fer heill dagur í að vinna fyrir framlagi til lífeyrissjóðs. Þetta er verðugt umhugsunarefni. Það þótti líka aðilum vinnumarkaðar og löggjafanum einnig, þegar ný rammalögjöf var sett um lífeyrissjóðina árið 1997. Í 36. gr. þessara laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segir:

„Stjórn lífeyrissjóðs skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu."

Ég skal játa að ég hafði miklar efasemdir um þessa lagagrein á sínum tíma en hana vil ég einmitt gera að umfjöllunarefni hér á eftir.

Ég ætla nefnilega að velta upp nokkrum atriðum sem snúa að fjárfestingum lífeyrissjóðanna, á hvern hátt þeir geti sinnt því ætlunarverki sínu að tryggja okkur góða daga á efri árum en þá einnig með hliðsjón af þessu lagaákvæði. Jafnframt hljótum við að íhuga hvernig þessi mikli auður sem við í sameiningu leggjum til hliðar á degi hverjum nýtist okkur og samfélagi okkar best. Þær raddir gerast háværari sem krefjast þess að lífeyrissjóðirnir verði nýttir á félagslega uppbyggilegan og ábyrgan hátt og hefur kjaramisréttið í þjóðfélaginu og í sumum tilvikum gegndarlaust bruðl í sömu stofnunum og lífeyrissjóðirnir fjárfesta hjá, orðið til að kynda undir þessa umræðu.

En fyrst nokkur þankabrot,  hugrenningar - persónulegar og félagslegar í senn - sem snerta þetta viðfangsefni.

Ég læt hugann reika aftur til ársins 1981. Ég er staddur á fundi í þessu húsi, BSRB húsinu, á einum af mínum fyrstu stjórnarfundum hjá BSRB. Til umræðu eru lífeyrismál; hvernig eigi að haga lífeyrisréttindum til framtíðar. Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga bjuggu á þessum tíma við mun betri kjör en þau gerðust á almennum vinnumarkaði. Lífeyrissjóðir hinna fyrrnefndu voru enda ungir að árum sem áður segir - á táningsaldri.
Í fyrsta lagi var um það rætt hve mikið við ættum yfirleitt að leggja upp úr lífeyrissparnaði. Á þessum árum var viðkvæðið hjá viðsemjendum okkar að ekki væri stætt á því fyrir opinbera starfsmenn að gera sambærilegar kaupkröfur og fólk á almennum vinnumarkaði því réttindin, og þá einkum lífeyrisréttindin, væru svo miklu betri hjá opinberum starfsmönnum. Einnig var hitt, að margir í okkar röðum sáu ofsjónum yfir því í hve ríkum mæli greiðslur úr lífeyrissjóðum komu til frádráttar greiðslum frá Almannatryggingum. „Það borgaði sig ekki", sögðu sumir, að leggja þá áherslu á lífeyrissparnað sem BSRB gerði á þessum tíma. Ég tók mjög ákveðna afstöðu í þessu máli, vildi leggja áherslu á ellilífeyrinn, vildi reyndar hafa hann sem jafnastan, minnti á að öll rök fyrir mismunun á vinnumarkaði í kaupi, væru ekki lengur fyrir hendi þegar við hættum að vinna og ættum það öll eitt sameiginlegt að lifa lífinu. Þá skipti allt það sem er notað til að réttlæta launamismunun á vinnustað, svo sem menntun og ábyrgð, ekki lengur máli.
Deilurnar um áherslu á lífeyrissparnað lifa enn góðu lífi. Innan verkalýðshreyfingar eru allmargir sem telja of mikið í lagt hvað lífeyrissparnað snertir og telja að við ættum að láta hluta af núverandi iðgjöldum renna niður í launaumslagið. Hjá BSRB hefur það sjónarmið orðið ofan á í þessum umræðum að okkur beri að standa vörð um lífeyrisréttinn og höfum við sagt að það séu meiri rök fyrir því að launin séu breytileg stærð - sveiflist eftir efnahagsaðstæðum en lífeyrisrétturinn verði á hinn bóginn að vera sem stöðugastur. Með öðrum orðum, fremur beri að draga úr kaupmætti launa þegar þrengir að en kaupmætti ellilífeyris. Ellilífeyrisþegi hefur þegar allt kemur til alls ekki tök á því að afla viðbótartekna við slíkar aðstæður, sem launamaðurinn á þó sem betur fer iðulega kost á að gera.

En þessar áherslur okkar hafa komist heldur betur í hann krappann. Á síðari hluta níunda áratugarins var lífeyriskerfi opinberra starfsmanna mjög hætt komið. Opinberum starfsmönnum var þá boðið upp á að umreikna lífeyrisréttindi sín í laun og yrði samningsaðilum - samningsrétturinn var á þessum tíma, frá ársbyrjun 1987, kominn í hendur einstakra aðildarfélaga ríkisstarfsmanna innan BSRB - í sjálfsvald sett að semja í þessa veru: Afsala sér lífeyrisréttindum en hækka kaupið sem næmi réttindamissinum.
Öllum var ljóst að ef einhver félög semdu á þessum nótum myndu múrarnir bresta fyrir heildina því reynslan kenndi að lífeyriskerfið stæðist því aðeins að það hvíldi á víðtækri samstöðu. Hér ber þess að minnast, sem áður segir að í röðum opinberra starfsmanna, var jafnan að finna einstaklinga sem höfðu uppi efasemdir um mikilvægi þess að standa fast á lífeyrisréttinum á kostnað launanna.
Gagnstæð sjónarmið voru þó jafnframt sterk. Lífeyrisvaktina stóðu nokkrir einstaklingar öðrum fremur, en fremstur þar í flokki var án nokkurs vafa í mínum huga, Gunnar Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri SFR, í seinni tíð framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands, og er það ekki að tilefnislausu að þetta málþing skuli haldið honum til heiðurs þegar hann nú fyllir 70 ár.

En atlögunni að lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna var hrundið. Og í samningum sem BSRB gerði vorið 1989 og á enn afdráttarlausari hátt, í Þjóðarsáttarsamningunum svokölluðu árið eftir, gerði BSRB samkomulag við ríkisstjórnina - um að hvergi yrði hróflað við lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna á samningstímabilinu. Á þetta loforð reyndi. Ekki var komið langt inn á samningstímann þegar skipuð var fjölmenn lífeyrisnefnd sem tók upp fyrri þráð og kom fljótlega á daginn að þar innanborðs var að finna aðila sem töldu sig hafa loforð upp á vasann einnig úr Stjórnarráðinu,  að lífeyrisréttur opinberra starfsmanna og launafólks á almennum vinnumarkaði yrði jafnaður - ekki upp á við heldur niður á við á samningstímanum.
Í þessari nefnd sátum við Gunnar Gunnarsson fyrir hönd BSRB og drógum við þar hvergi af okkur að halda uppi málstað opinbera lífeyriskerfisins og fór svo að lokum að nefndin var leyst frá störfum. Þetta varð á endanum til góðs fyrir félagsmenn lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði. Þegar við komum okkur upp úr skotgröfunum upp úr miðjum tíunda áratugnum eftir harðvítugan slag við ríkisvaldið sem aftur hafði viljað skerða opinberu lífeyrissjóðina með einhliða lögum árið 1996,  þá tókst okkur að ná því frumvarpi út úr þinginu og í góðri samvinnu og mikilli samstöðu með BHM og Kennarasambandi Íslands að setjast að samningaborði með fulltrúum fjármálaráðuneytisins og í kjölfarið fulltrúum sveitarfélaganna til að endurhanna lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og samræma það forsendum lífeyrissjóða á almennum markaði - en núna án þess að fórna réttindum. Með öðrum orðum, réttindakerfin voru í ýmsum grundvallaratriðum samræmd, en sú samræming varð nú öll upp á við en ekki niður á við eins og við hafði blasað á hinum miklu átakatímum um lífeyrisréttindin á síðari hluta níunda áratugarins og hins tíunda.

Afstaða opinberra starfsmanna varð m.ö.o. ekki til að stöðva samræmingu réttinda í lífeyrissjóðakerfinu - en munurinn frá fyrri tilraunum til samræmingar var sá, að samræmingin varð upp á við.

Ýmislegt veldur því að fólk er nú meðvitaðra um lífeyrismál en áður. Margt kemur til. Meiri kraftur er í baráttu eldri borgara og fyrir vikið er meiri áhersla en áður lögð á kjör eftirlaunafólks í þjóðfélagsumræðunni almennt. Þá leikur enginn vafi á því að draumur Margrétar Thatchers um að gera alla að litlum fjárfestingakapitalistum hefur ræst að hluta til á Íslandi og hafa fjárfestingaspekulasjónir haft þau áhrif að fólk er meðvitaðara um þessi efni en áður. Innan verkalýðshreyfingarinnar hefur verið athyglisvert - og stundum skondið -  að fylgjast með umræðunni og þá hvernig hörðustu sérhagsmunamenn hafa vaknað til vitundar um að hag þeirra er betur borgið í sameignarsjóðum en í séreign  - það er að segja hag þeirra sem lifa lengi. Þeir njóta þess sem hinir skilja eftir sem falla snemma frá. Það eru hins vegar erfingjarnir sem bíta í súrt eplið. Það grætur sérhagsmunamaðurinn ekki eftir að hafa gaumgæft málin!
Erlendis hefur umræða um lífeyrismál einnig verið að eflast. Innan verkalýðshreyfingar gerist það nú orðið oftar að í tengslum við almennar ráðstefnur um verkalýðsmál að efnt er til hliðarfunda þar sem sérstaklega er fjallað um lífeyrismál. Menn gera sér grein fyrir því að lífeyrissjóðir eru orðnir drjúgur hluti af fjárfestingarkapitali heimsins og að lífeyrissjóðirnir geta haft afgerandi áhrif með fjárfestingarstefnu sinni. Jafnvel hvað varðar umdeildustu fjárfestingarkostina  - private equity, sem einhverjum snillingum datt í hug að kalla framtakssjóði uppá íslensku, en ættu skilið heitið hákarlasjóðir eða einfaldlega óskráðir sjóðir sem þeir eru - einnig þar er fjármagn lífeyrissjóðanna fyrirferðamest. Hvers vegna? Vegna þess að þar hefur arðurinn verið mestur. Staðreyndin er sú að lífeyrissjóðir eru að verða harðdrægustu braskarar heimsins. Fyrir fáeinum misserum þegar átök voru um yfirráð í Íslandsbanka urðu miklar eignatilfærslur. Við þær högnuðust lífeyrissjóðirnir mest, þar með talið minn sjóður LSR, einfaldlega vegna þess að það eitt vakti fyrir sjóðnum að hagnast en ekki ásælast völd. Kannski er hér kominn hinn hreini kapitalismi.
En hvert leiðir hann okkur? Lífeyrisssjóðir erlendis eru sumir hverjir komnir í þá mótsagnakenndu stöðu að beita sér fyrir einkavæðingu til að geta fjárfest á öruggan hátt í starfsemi sem ætíð þarf að vera til staðar, en á sama tíma eru eigendur lífeyrissjóða, launafólkið og allur almenningur, að streitast á móti sömu einkavæðingunni vegna skaðlegra félagslegra afleiðinga. Lífeyrissjóður sem heimtar hámarksarð út úr rekstri sjúkrahúss er nefnilega ekkert betri en hver annar braskari.
Allt þetta hefur vakið fólk til umhugsunar.
Þá gerast sífellt áleitnari spurningar um siðferðilegar fjárfestingar í vopnum og í iðnaði þar sem verkafólk sætir kúgun og ofbeldi. Íslensku lífeyrissjóðirnir gerast nú hver á fætur öðrum aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, Socially responsible investment, SRI. Þetta er skuldbinding sem er mjög almenns eðlis en sýnir viðleitni í rétta átt.

Síðan er það hin praktíska stórspurning: Er hægt að varðveita peninga? Oft skín það í gegn að margir líta á lífeyrissjóðina sem sparibauk. Við leggjum peninga til hliðar og geymum þá þar til við þurfum á þeim að halda. þetta sé eitthvað annað en gegnumstreymiskerfi þar sem ellilífeyrir er fjármagnaður með skattgreiðslum í núinu. Í reynd er minni munur á þessum kerfum en margir ætla. Því á endanum er einfaldlega um það að ræða - hvert sem kerfið er - að taka þarf peninga út úr efnahagslífinu. Spurningin er hversu aflögufært efnahagslífið er hverju sinni. Þetta þýðir að lífeyrissjóðirnir eiga allt sitt komið undir burðum efnahagslífsins. Í stjórnum lífeyrissjóðanna er stundum tekist á um vaxtastefnu og arðsemiskröfur. Þá eru annars vegar þau sjónarmið uppi að horfa þröngt á málin, túlka lagaklásúluna, sem áður var vikið að, þröngt og keyra upp vexti og útgreiddan arð eins og framast má blóðmjólka og hins vegar hin breiðu sjónarmið sem ganga út á að ofgera ekki efnahagslífinu, hvorki heimilum né fyrirtækjum.
Til framtíðar litið er munurinn á gegnumstreymishugsuninni og sjóðsmyndun að öllum líkindum sá að auðveldara kunni að vera að ná út fjármagni úr sjálfstæðum sjóði en ríkissjóði. Þetta er mikilvægt atriði og ótvíræður kostur við sjóðakerfið - nokkuð sem ég geri ekki lítið úr. Eftir stendur ábyrgð okkar á því skapa öflugt efnahagslíf sem rís undir væntingum framtíðarinnar. Áður synti verðtrygging íslensku þjóðarinnar  í sjónum umhverfis landið, nú er atvinulífið fjölbreyttara og fleira komið til en sjávarauðlindin ein, allt þarf að dafna til að lífeyrisþegar framtíðarinnar endurheimti það sem þeir nú leggja til hliðar.

Önnur sjónarmið koma einnig til sögunnar. Það er hvernig þessar tvær leiðir hafa áhrif á innvið samfélagsins. Hér nálgumst við sjónarmiðin hans Helga í Góu um að lífeyrissjóðunum beri að setja peninga sína í félagslega uppbyggileg verkefni. Þessi sjónarmið hafa lífeyrissjóðirnir afgreitt út af borðinu á þeirri forsendu að hans formúla skapi lífeyrissjóðunum ekki nauðsynlegan arð til framtíðar. Formúla Helga í Góu gangi ekki upp ef litið sé til þeirrar staðreyndar að útstreymið úr lífeyrissjóðunum, ellilífeyririnn kemur af vöxtum og arði fjárfestinganna, peninganna sem þar eru geymdir og ávaxtaðir.
Ég vil segja í þessu samhengi að ég er þeirrar skoðunar að ábendingar Helga eigi að verða okkur tilefni hugleiðinga um sjálft eðli þess samfélags sem við búum í og spyrja hvort við þurfum að endurmeta kúrsinn. Sú var tíðin að nánast allar fjárfestingar lífeyrissjóðanna gengu inn í félagsleg verkefni, uppbyggingu velferðarþjóðfélagsins - menn notuðu m.ö.o. fjármagnið til félagslegra þarfa hér og nú.

Nú undir lok þessa erindis langar mig til að koma aðeins nánar að þessari spurningu, hvernig maður fari að því að geyma peninga? Er það yfirleitt hægt? Er hægt að geyma peninga? Þetta kann að virðast barnaleg spurning, jafnvel fáviskuleg. Auðvitað er hægt að geyma peninga, er eðlishvötin fljót að svara. En ef ég spyr einhvern hér inni, hvort hann geti geymt fyrir mig hundrað þúsund krónur, og látið mig fá þær aftur eftir 30 ár, þá skjóta allskyns flækjur upp kollinum. Menn myndu spyrja um skilgreiningar fyrst. Hvað þýðir að láta þig fá peningana aftur? Þýðir það sömu seðlana? Sömu verðmæti? Er það þá jafnmikið hlutfall af Mercedes Benz? Það er að segja gengistryggt í Evrum. Er það jafnhátt hlutfall af kaupinu mínu einsog það er í dag, burtséð frá kauphækkunum eða með kauphækkunum inniföldum? Er það miðað við kaupgetu innanlands, það er að segja verðtryggt miðað við innlendan kaupmátt? Get ég keypt jafnstóran hlut í íbúð fyrir peningana? Hvað með áhættuna? Fæ ég peningana örugglega tilbaka? Og ef ekki, hvað gerist þá? Get ég samið um að fá meiri peninga tilbaka en ég lét þig fá? Get ég látið peningana þjóna mér á meðan? Get ég notað þá til að byggja handa mér hús, sem ég get búið í og sem hækkar í verði? Get ég haft áhrif með peningunum mínum? Get ég bætt aðstæður fólks úti í heimi og um leið aukið verðmæti peninganna minna? Get ég breytt aðstæðum fólks á Vestfjörðum með peningunum mínum og um leið aukið verðmæti peninganna minna? Á ég að kaupa bláa Madonnu eftir Picasso og geyma andvirðið í bankahólfi, vitandi að listaverkavísitalan hefur hækkað mun meira á síðust 50 árum en allar aðrar vísitölur? Á ég að kaupa skóflu og grafa peningana úti í garði?

Hvað er átt við með því að geyma peninga? Ef litið er til ávöxtunar einnar, þá er hámarks ávöxtun það sama og örugg ávöxtun. Flestar ávöxtunarleiðir jafna hvor aðra út, sé litið til nógu langs tíma. Öll ávöxtunarleikfimi endar í sama punkti yfir langan tíma. Fyrsta reglan í geymslu peninga, hlýtur að felast í því að láta þá þjóna sér um leið og þeir vaxa. Til dæmis er ekkert vit að fá lánaða peninga til að kaupa hús og geyma svo sparnaðinn sinn í banka. Skuldsettur sparnaður er ekki mikil klókindi, nema því aðeins að sparnaðurinn skapi manni tekjur sem eru meiri en kostnaðurinn við skuldina. Það gæti til dæmis falist í að skapa atvinnu á heimaslóðum. Það gæti líka falist í að auka lífsgæði eigenda. Til dæmis með því að fjárfesta í bættri heilsugæslu og aðbúnaði fyrir aldraða. Skilar það arði? Það skilar arði ef markmiðið með sparnaðinum er að auka lífsgæði. Annars ekki. Í Hávamálum segir: Enginn skyldi fjár síns þörf þola. Það er að segja enginn skyldi gerast þurfamaður gagnvart sínum eigin fjármunum. Enginn skyldi þurfa að betla hjá sjálfum sér. Og síðan segir Oft fær leiður það sem ljúfum er ætlað. Margt fer verr en varir.
Heimurinn er hverfull, við getum ekki séð fyrir hvað verður eftir 30 ár. Það væri illt að vera búin að safna tíu þúsund milljörðum í lífeyrissjóð og deyja síðan öll úr fuglaflensu eða kjarnorkustríði.

Hvernig geymir samfélag peninga? Eru góðir vegir álíka gáfuleg geymsla á peningum og grafa þá í jörð? Eru jarðgöng nútímaleg útfærsla á fjársjóðsgreftri? Eru innviðir samfélags arðbærir og hvernig er það mælt? Er menntun arðbær? Er vellíðan arðbær? Er jafnrétti arðbært? Er þá hægt að geyma peninga í innviðum, vellíðan, menntun og jafnrétti?  Er þetta kannski ekki svona flókið? Á bara láta Sigurð Einarsson fá peningana og biðja hann að skila þeim eftir 30 ár? Á að láta hans dómgreind og kollega hans ráða? Láta þá svara spurningunum? Af hverju erum við að kvarta yfir því að það vanti þjónustu við gamalt fólk, þótt við eigum 1000 milljarða? Er það ekki gamla fólkið sem á peningana? Munum við líka kvarta yfir vondum aðbúnaði þegar við verðum gömul, jafnvel þótt sparnaðurinn okkar verði 2000 milljarðar? Eða 5000 milljarðar? Er eignin markmiðið, abstraksjónin, tilfinningin um eign? Gott að vita af peningunum? Þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989, hlustaði ég á viðtal við gamla konu, íbúa í Austur-Berlín sem fagnaði þessum umskiptum ákaft. Hún var á tíræðisaldri og kvaðst ekki hafa nokkurn áhuga á að ferðast til Vestur-Berlínar. En hvers vegna ertu þá svona ánægð með fall múrsins, spurði fréttamaðurinn? Jú, það skal ég segja þér, sagði gamla konan, það er tilfinningin um að geta farið, hvenær sem ég vil. Það er frelsið.

Við lesum um eignir lífeyrissjóðanna næstum daglega eða vikulega í blöðum. Við fyllumst stolti yfir styrk þeirra. Þúsund milljarðar, eittþúsundogfimmhundruð milljarðar. Við ætlum að geyma þá handa okkur. Við ætlum ekki að nota þá núna. Erum við að falla í sömu gildru og foreldrar okkar? Þau byggðu upp forsendur þessa auðs. Þau ákváðu að geyma sér peningana. En þau fá þá ekki. Við tímum því ekki. Þá verður ekki nóg handa okkur.
Getur verið að þetta sé feilhugsun? Ég er ekki að fullyrða þetta enda hef ég stutt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna, ég er einfaldlega að segja að okkur ber að spyrja þessarar spurningar. Okkur ber að spyrja hvort notkun peninganna sé hugsanlega besti mælikvarðinn á geymsluna; að ef þeir eru vel notaðir þá séu þeir vel geymdir og ef illa notaðir þá séu þeir jafnframt illa geymdir.  Er þegar allt kemur til alls samfélag jafnréttis, kærleika, dugnaðar, góðs aðbúnaðar fyrir sjúka, besti peningaskápurinn? Samfélag sem er vel fjármagnað af eigin sparnaði á lágum vöxtum, með háu atvinnustigi er arðbær fjárfesting. Samfélag sem skapar slíkan arð er örugg fjárfesting.

Er ef til vill kominn tími fyrir innrás í stað útrásar? Eru íslenskir bankar tilbúnir í innrás til Vestfjarða? Tilbúnir til að hjálpa til að skapa gott mannlíf á Norðurlandi? Eru íslenskir bankar tilbúnir til að minnka? Tilbúnir til samráðs við samfélagið? Tilbúnir til að hlusta? Tilbúnir til að selja þoturnar og keyra um á Toyota Yaris og Nissan Micra? Vera hluti af þjóðfélaginu? Tilbúnir til aðeins meiri auðmýktar, skilnings, ábyrgðar? "Sá sem óskar eftir trausti almennings, verður að sætta sig við að vera eign almennings", sagði höfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna, Thomas Jefferson.

Nú þurfum við peninga til að tryggja atvinnu, auka atvinnutækifæri. Nú þurfum við uppbyggingu innviða og bætt kjör.

Það gildir það sama um fjármálamenn og lopasokka að þá reynir fyrst á þá þegar veðrið versnar.  Og nú þarf sannarlega að hysja upp um sig sokkana.

Þurfum við ekki öll að líta í okkar eigin barm. Lífeyrissjóðirnir og ekki síður bankarnir. Íslenskir bankar eiga að líta í sinn íslenska barm, fara sér hægt og minnka efnahagsreikninga sína. Fjárfestingakerfið í heild sinni þarf að huga að langtímaarði, að uppbyggilegu sjálfbæru atvinnulífi, að grasrótinni, að þorpunum á ströndinni, að mannlífinu einsog það er núna, ekki bara seinna. Það er lítið gagn í sparnaði ef lifað er undir fátæktarmörkum og jöfnuði og velferð fórnað.

Peningar eru vandmeðfarnir og fjársjóða er vandgætt. Hafa þarf auga með þeim allan sólarhringinn, alla daga ársins. Gæta þarf að dreifingu þeirra og notkun. Haft er eftir miklum spekingi: peningar eru einsog áburður, það þarf að dreifa þeim vel og jafnt, annars kemur lykt af þeim.

Ég er því meðmæltur að lífeyrissjóðirnir veiti fjármagni inn í atvinnulífið. Þangað á sparnaður að renna til uppbyggingar. En þetta, nákvæmega þetta, leggur atvinnulífinu skyldur á herðar um hyggilega og siðlega ráðstöfun fjárins. 

Við lifum stöðugt lengur, kannski vegna þess að viljum njóta lífeyrisréttindanna, nú eða klára að greiða af 40 ára lánunum. Við skulum ávallt muna að peningar eru góður þjónn en afleitur húsbóndi. Það er lítils virði að eiga stærsta olíusjóðinn ef það er tólf mánaða biðtími eftir nauðsynlegum uppskurði.

Nú er komið að skrefi tvö ef svo má segja. Okkur tókst að tryggja lífeyrisréttindi eftir okkar höfði. Nú þurfum við að tryggja að ráðstöfun sjóðanna verði eftir okkar höfði.  Verkefnið framundan er að taka þá umræðu.

Til hamingju með afmælið Gunnar.