Fara í efni

SKORIÐ NIÐUR UM MEIRA EN HELMING!

Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur s
Ólafur Þór Hauksson - Sérstakur s

Ólafur Þór Hauksson, sem gegnt hefur embætti Sérstaks saksóknara er hófsamur í orðavali og fer varlega í yfirlýsingum sínum. Ég hef trú á því að hann hafi reynst traustur maður á sínum pósti.

En einmitt vegna þess hve kurteis maður Ólafur er megum við hin ekki láta það gerast að ríkisstjórnin geri út af við stofnunina þegjandi og hljóðalaust. Þannig yrði komið í veg fyrir að hún ljúki þeirri rannsóknarvinnu sem hún var stofnuð til að leiða til lykta.

Fram hefur komið í fréttum að sextíu hrunmál séu enn í rannsókn. Upphaflega var gert ráð fyrir að þessari rannsóknarvinnu yrði lokið á árinu 2014. Það mun ekki gerast ef dregið verður úr strafseminni eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Síðan er það hitt að með hruninu lauk ekki fjármálamisferli í landinu. Þannig að áfram verður þörf á öflugri stofnun sem rannsaki efnahagsbrot. Þess vegna var sett á laggirnar á sínum tíma nefnd til að hyggja að framtíðarskipulagi efnahagsbrota.
En óháð þeirri lausn þarf að ljúka hrunmálum. Þá og aðeins þá er tímabært að draga úr þessari starfsemi.

Vaxandi gagnrýni hefur gætt í garð embættis Sérstaks saksóknara og hefur sú gagnrýni einkum komið frá stjórnarflokkunum og þá helst Sjálfstæðisflokknum. Sú gagnrýni hefur mér þótt vera meira í ætt við undirróður til að grafa undan stofnuninni fremur en málefnalega gagnrýni. Sá grunur hefur um skeið sótt að mér  að spádómur Evu Joly kunni að rætast, að hagsmunatengd pólitísk öfl reyni að stöðva rannsóknarvinnuna.
Sjá m.a.: https://www.ogmundur.is/is/greinar/serstakur-skorinn og https://www.ogmundur.is/is/greinar/eva-joly-sagdi-thad
Fram hefur komið í fréttum að Sérstakur saksóknari hafi skilað inn tillögum um fjárframlög fyrir komandi ár á þeirri forsendu að málum yrði hraðað sem mest. Ekki mun hafa verið orðið við því.  Á fjárlögum ársins 2012 fékk embættið 1,3 milljaðra. Fyrir þetta ár, 2013, var framlagið lækkað niður í 849 milljónir en jafnframt samþykkt að embættið gæti nýtt sér uppsafnaðar fjárheimildir að upphæð 487 milljónir. Það gerir samanlagt 1336.

Þessar heimildir eru við það að verða uppurnar . Niðurskurðurinn samkvæmt fjárlögum nemur rúmum 300 milljónum. Stofnunin fær 560 milljónir en hafði til ráðstöfunar yfir 1,3 milljarða á síðasta ári eins og að framan greinir. Enn á eftir að koma í ljós hvort hemildir frá fyrri ári verða allar nýttar á þessu ári og þá hvort eitthvað rennur yfir á næsta ár.  En þegar öllum stærðum er raðað saman kemur í ljós að í reynd er verið að skera embætti Sérstaks saksóknara niður um meira en helming.

Þegar er byrjað að fækka fólki hjá Sérstökum saksóknara. 

http://www.dv.is/frettir/2013/10/9/atjan-manns-missa-vinnuna-hja-serstokum-saksoknara/