Fara í efni

SÉRSTAKUR SKORINN

DV -
DV -

Birtist í DV 09.10.13.
Fátt ófyrirsjáanlegt gerist í heimi íslenskra stjórnmála þessa dagana nema hvað veruleikinn er sennilega heldur ýktari en svæsnustu sviðsmyndir ímyndunaraflsins voru sl. sumar þegar ríkisstjórnin tók við völdum.

Flestir bjuggust við ...

Flestir bjuggust við skattkerfisbreytingum. En engan hefði órað fyrir að byrjað yrði á því að afleggja auðlegðarskatt sem gaf ríkissjóði sex milljarða í tekjur 2012 og hefði  sennilega  gefið þremur milljörðum betur  á næsta ári.
Flestir bjuggust við að hafist yrði handa við að einkavæða heilbrigðiskerfið. En að byrjað yrði á því að rukka sjúklinga sem leggjast inn á spítala landsins óraði fáa fyrir.
Flestir bjuggust við að ekki yrði að fullu staðið við fyrirheit um endurnýjun tækjabúnaðar spítalanna. En að fyrirhugaðar fjárfestingar yrðu þurrkaðar út óraði engan fyrir.
Flestir bjuggust við að reynt yrði að hlífa útgerðinni við gjaldtöku. En fáa óraði fyrir að afnumin yrðu milljarða-gjöld rétt áður en sömu útgerðarfyrirtæki greiddu eigendum sínum milljarða í arð.
Flestir bjuggust við að amast yrði við vísindum og rannsóknum. Þó töldu margir að hugsanlega yrðu þessum framtíðarsprotum vaxtar hlíft. Svo reyndist ekki.
Flestir  bjuggust við því að stuðningur við græn verkefni ættu ekki upp á pallborðið, en að þau yrðu þurrkuð út óraði fáa fyrir.
Flestir bjuggust við að ný náttúruverndarlög yrðu ekki höfð í hávegum en að yfir þau yrði strokað og ekki staðið við umsamda gildistöku laganna hafði fáa órað fyrir.
Flestir bjuggust við að almenningsamgöngur myndu ekki eiga upp á pallborðið hjá nýrri ríkisstjórn. En að strax í fyrstu fjárlögum yrði gengið þvert á undirritaðan uppbyggingar-samning milli ríkis og sveitarfélaga hafði fáa órað fyrir.
Flestir bjuggust við að þrengt yrði að almennum framkvæmdum í samgöngukerfinu. En að skorið yrði niður um 750 milljónir til almennra framkvæmda og boðuð einkaeign á höfnum, flugvöllum og vegum hafði fáa órað fyrir.
Flestir bjuggust við því að byrjað yrði að þrengja að Sérstökum saksóknara, en að skorið yrði niður til embættisns um mörg hundruð milljónir, hafði fáa órað fyrir.

Stöldrum við Sérstakan saksóknara

Þessari upptalningu má  enn áfram halda. En staðnæmumst við síðasta atriðið. Hvers vegna mátti búast við því að að farið yrði að þrengja að embætti Sérstaks saksóknara?
Sem kunnugt er var embættið sett á laggirnar til að rannsaka efnahagsbrot sem áttu þátt í efnahagshruninu árið 2008.
Fljótlega eftir að mynduð hafði verið ríkisstjórn VG og Samfylkingar var boðið hingað til lands Evu Joly, sem unnið hafði sér til frægðar í Frakklandi og víðar, hugdjarfa framgöngu sína við rannsókn efnahagsbrota og pólitískrar spillingar. Heimsókn hennar og ráðgjöf varð án efa til þess að greiða götu rannsóknar efnahagsbrota hér á landi því farið var að hennar ráðum og sett verulegt fjármagn til slíkra rannsókna  á vegum embættis Sérstaks saksóknara.   
Ég hef áður rifjað það upp hvað Eva Joly sagði þegar hún kom hingað til lands, þáverandi ríkisstjórn til ráðgjafar. Það var eitthvað á þessa leið: „Þegar á líður verður margt gert til að torvelda rannsókn mála;  gera rannsakendur tortryggilega, aðferðir þeirra og framgangsmáta, jafnvel þá sem persónur. Reynt verður að fjársvelta rannsóknarvinnuna."


Eins og Eva Joly varaði við

Þetta gekk eftir. Þegar hilla tók undir niðurstöður í dómsmálum fóru að heyrast hljóð úr horni. Rannsóknaraðferðir voru gagnrýndar á þeirri forsendu að friðhelgi manna væri vanvirt þegar viðskipti og bankafærslur væru skoðaðar, símar hleraðir og töluvpóstur haldlagður. Slík gagnrýni kom jafnvel frá sömu mönnum og harðast höfðu gengið fram í því að tala fyrir auknum rannsóknarheimildum lögreglu, til eftirlits og hlerana gagnvart öðrum en hvítflibbunum.
Eins og einhverja kann að reka minni til stóð ég jafnan mjög ákveðið gegn kröfum þeirra aðila innan stjórnmálanna og löggæslunnar sem langt vildu ganga í þessum efnum. Vildi ég setja slíku rannsóknarstarfi strangar skorður í lögum.    
Þegar hins vegar rökstuddur grunur væri um alvarlegt ofbeldi, mansal eða þegar rökstuddur grunur væri á stórfelldum brotum sem valdið hefðu einstaklingum, hópum eða jafnvel samfélaginu öllu miklum skaða - eins og óneitanlega gerðist með sviksamlegum aðgerðum í fjármálakerfi okkar - þá gætu rannsóknarhagsmunir að mínu mati réttlætt inngrip, alltaf þó með skýrri skírskotun til laga og reglna og samkvæmt dómsúrskurði.

Unnið af trúmennsku

Sem áður segir, fóru andmæli gegn hvítflibbarannsóknum vaxandi, eftir því sem betur miðaði í rannsóknum Sérstaks saksóknara og komu þau einkum úr innstu röðum Sjálfstæðisflokksins - hinum faglega og pólitíska armi hans. Sérstakur saksóknari og hans ágæta samstarfsfólk hélt hins vegar, að því er best varð séð, sínu striki við að rækja af trúmennsku það hlutverk sem Alþingi hafði falið embættinu.
En fyrst hótanir dugðu ekki, hvað var þá til  ráða? Það má nú öllum ljóst vera. Ráðið er að draga úr fjárveitingum til embættisins, skrúfa fyrir súrefnið. Þannig verður starfsemin máttlausari og fjarar að lokum út.

Ábyrgðin er stjórnarmeirihlutans

Sérstakur saksóknari mætti í Spegil RÚV sl. mánudag. Mæltist honum ágætlega nema hvað mér þótti hann fara óþarflega mildum orðum um sama fjárveitingarvald og nú hefur tekið hann kyrkingstaki.
Ábyrgðin er hins vegar ekki embættis Sérstaks saksóknara heldur, ríkisstjónarinnar og þess meirihluta sem hún styðst við á Alþingi.