RÖDD AÐVENTUNNAR
Ég held mér sé óhætt að fullyrða fyrir hönd minnar kynslóðar, að ekki sé minnst á þau sem eru ívið eldri, að rödd aðventunnar sé rödd Andrésar Björnssonnar fyrrum útvarpsstjóra.
Fáir ef nokkrir stóðu honum á sporði við upplestur hvort sem var á bundnu máli eða óbundnu. Á aðventunni var fyrr á tíð mikið lesið í útvarp úr nýútkomnum bókum og sat útvapsstjórinn sjálfur þá iðulega við hljóðnemann enda eftirspurnin mikil!
Andrés Björnsson var sjálfur skáldmæltur og andans maður sem hugsaði alla hluti á dýptina. Því báru vitni áramótaávörp hans í Sjónvarpinu sem eru mörgum eftirminnileg. Því fór ekki fjarri að hann hefði yfirhöndina gegn flugeldunum á miðnætti á gamlársdag en himinninn fylltist af ljósadýrð svo skjótt sem hann hafði lokið máli sínu og boðið nýtt ár velkomið. Í mínum huga jaðraði þetta við kraftaverk.
Á þessari aðventu hefur rödd Andrésar hljómað í upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar rithöfundar.

Þess er nú minnst að eitt hundrað ár eru liðin frá því að þeir atburðir áttu sér stað sem saga Gunnars greinir frá. Það var svaðilför Fjalla-Bensa í leit að eftirlegukindum á öræfum. Aðventa segir frá hremmingum þeirra Benedikts, sauðsins Eitils og hundsins Leós.

Í nóvember var minnst hálfrar aldar ártíðar Gunnars Gunnarsson en hann lést áttatiu og sex ára í nóvember árið 1975. Gunnar gerði þríeykið ódauðlegt í sögu sinni og frásögn hans hefur Andrés Björnsson síðan gert ógleymanlega með upplestri sínum. Upplesturinn má nálgast hér: https://www.ruv.is/utvarp/spila/adventa/7122/23tep5
------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)