Fara í efni

RELLA Á LOFTI, SELUR Á RIFI OG GRÆN HVÖNN VIÐ FAGRAN SKERJAFJÖRÐ

 

Ægisíðan í Reykjavik er mín nánasta náttúruperla. Alltaf er hún perla en stundum er hún þó fegurri en ella og þessa góðviðrisdaga hefur Skerjafjörðurinn skartað sínu fegursta.

Því miður kann ég ekki nógu vel á símamyndavélina mína. Annars hefði ég náð að mynda betur selinn sem spókaði sig á grynningum með Bessastaði í baksýn. Greina má þó selinn í  neðra hægra horni myndarinnar.

Ég geng drjúgan hluta Ægisíðunnar á degi hverjum með henni Móu sem er í fóstri hjá okkur hjónum. Þótt ekki sé Móa barn heldur falleg og ljúf unglingstík, má segja að hún sé í sveit hjá afa og ömmu.

Oft hefst göngutúrinn í grennd við Garða sem er stílhreint hvítt hús með svörtu þaki skammt undan þar sem Lynghaginn og Starhaginn koma niður á Ægisíðuna nánast á sama punkti. Þar blasir Skerjafjörðurinn við.
Tún Garðanna, sem í mínu ungdæmi voru alltaf með ákveðnum greini, og Hólabrekku, þaðan sem ég er ættaður í móðurætt mína, lágu saman þar sem nú eru efri mörk lóðanna við Lynghaga. Hólabrekka stendur nokkru ofar á holtinu við hornið á Suðurgötu og Grímshaga.

Hér er horft í suð-austur. Þarna eru Lambhóll á hægri hönd og Garðarnir á vinstri hönd. Aðeins ofar í landiu stóðu Þormóðsstaðir.

Nokkru norð-vestar Görðunum við Ægisíðuna eru svo Grímsstaðir og niður af þeim er Grímsstaðavör en eldri Reykjavíkingar muna eftir bátunum sem fluttu okkur hrognkelsin, nýdregin úr sjó. Alltaf var talað um grásleppuna og grásleppubáta en rauðmaginn sem er karlskyns hrognkelsið fékk aldrei slíkan sess að hans væri sérstaklega getið þótt eftirsóttur væri á matardiskinn.

Hér hefur Móa snúið sér við og horfir eftir Ægisíðunni i norð -vesturátt. Á hægri hönd má sjá Grímsstaði, hús byggt í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar rétt við grunninn þar sem gamli Grímsstaðabærinn stóð, engu að síður nægilega gamalt hús til að heyra til söguminja á Grímsstaðaholtinu. Niður af Grímsstöðum er svo Grímsstaðavörin þar sem bátarnir lentu sem fluttu okkur hrognkelsin af Faxaflóamiðum.


Þessa skemmtilegu mynd er að sjá á gömlum grásleppuskúr upp af Grímsstaðavörinni. Þar ofar má sjá Grímsstaði, sem voru "gerðir upp"  og færðir  skemmtilega inn í samtímann án þess þó að segja skilið við liðna tíð.  Á mynd  hér ofar má sjá að húsið er komið með kvist og svalir, allt haganlega hannað. Vantar bara skjöld á húsið! Við megum aldrei verða viðskila við söguna!
Hér fyrir neðan  eru  myndir af uppgerðum skúrum sem að hluta til nýtast sjóbaðendum og er það vel. Enn er þar þó nokkuð verk að vinna en þakkarvert það sem gert hefur verið. Ætla má að Grímsstaðaholtið beri nafn sitt af gömlu Grímsstöðum sem voru reistir á fyrri hluta nítjándu aldar. Grímsstaðaholtið markast af sjávarsíðunni -  þá væntanlega holtið upp af henni - og síðan Suðurgötu og Hjarðarhaga og Fornahaga að ætla má. 


Við Grimsstaðavörina komu velunnarar knattspyrnufélagsins Þróttar fyrir veglegu minnismerki í ágúst 2009 til að minnast þess að þá voru liðin 60 ár frá stofnun félagsins, 5. ágúst árið 1949. Þarna stóð lengi braggi sem hýsti starfsemi félagsins og reyndar  fékk þar önnur starfsemi einnig inni. Ég minnst skátafunda þar.



Sunnar og austar er svo Sundskálavík þar sem Ungmennafélag Reykjavíkur kom upp sundstað fyrir rúmum hundrað árum. Búningsklefarnir sem rúmuðu fjörutíu til fimmtíu manns voru opnaðir við hátíðlega athöfn á hátíðisdegi Reykvíkinga hinn fyrsta ágúst árið 1909. Á skilti segir að landið undir búningsklefana hafi landeigendur í Skildinganesi og á Þormóðsstöðum látið Ungmennafélaginu í hendur.



 Móa horfir yfir Sundskálavíkina. Þarna lærðu börnin á Grímstaðaholtinu að synda þar á meðal Guðrún móðir mín. Sundfólkið kom víðar að en haft var á orði að heldur væri þetta langt frá sjálfri Reykjavík.

Af og til hefur verið eitthvert suð í smáflugvéla-rellum, sennilega æfingflugvélum sem ég vona að verði ekki flæmdar frá Reykjavíkurfluvelli þótt einkaþotur auðkýfinganna og útsýnisþyrlurnar megi fara annað mín vegna. En fyrir alla muni hlífið æfingafluginu. Leyfið því að vera ágætu borgaryfirvöld. Þetta væri eins og að taka frá okkur lóuna á vorin. Rellusuðuðið tengjum við mörg nefnilega sól og sumaryl.

Móa var mér hjartanlega sammála um æfingaflugið og fylgdist af mikilli velþóknun með lítilli tvíþekju fljúga yfir Sundskálavíkinni. Okkur Móu fannst  sem við fyndum fyrir ánægjunni ofan úr litlu rellunni. Mér heyrðist Móa segja, mikið er gaman þegar fólk fær að hafa gaman. Hrekjum ekki frá okkur glaða gleðigjafa.  

-----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course:
https://www.ogmundur.is/