Fara í efni

PÉTUR GUNNARSSON HEIÐRAÐUR – HÁSKÓLA ÍSLANDS TIL SÓMA

Fullt var út úr dyrum í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag þegar Pétur Gunnarsson rithöfundur var heiðraður þar með doktorsnafnbót. Augljóst var að margir vildu votta skáldinu virðingu sína og samgleðjast því. Síðan mátti búast við góðri skemmtun af þessu tilefni. Það gekk svo sannarlega eftir.

Rektor Háskóla Íslands, Silja Bára Ómarsdóttir, bauð gesti velkomna til athafnarinnar sem Gauti Kristmannsson, deildarforseti íslensku- og menningardeildar skólans stýrði. Sigríður Thorlacius, Tómas R. Einarsson og Ómar Guðjónsson fluttu gestum tvö lög eins og þeim einum er lagið en Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum fræðum, fjallaði síðan um höfundarverk Péturs. Erindi hans var fyrsta flokks. Vandinn var sá einn að hljóð barst ekki nægilega vel um allan salinn og býður mér í grun að drjúgur hluti gesta úr eldri kantinum muni íhuga að fá sér heyrnartæki eftir helgina. Ég held hins vegar að rétt sé að láta það bíða þar til tæknimenn í aðalbyggingu Háskólans hafa yfirfarið hljóðkerfið.
Þetta er hins vegar smáatriði.
Hitt var ekki smátt í sniðum að hlýða á Pétur Gunnarsson flytja þakkarávarp sitt. Ávarpið var líkt höfundi sínu, hlý orð, lunkin og innihaldsrík. Engin hætta á því að menn misstu vökutökin. Ef ég heyrði rétt sagði Torfi H. Túliníus þetta vera nýyrði í íslenslu og hefði Pétur smíðað þetta hugtak. Það ætti við þegar menn væru í þann veginn að sofna, missa tökin á vöku sinni. Ef ég fer hér rangt með, heiti ég því að íhuga að fá mér heyrnartæki.

Mér þykir Háskóli Íslands hafa gert rétt með þessari viðurkenningu. Hún er verðskulduð. En hún lyftir ekki bara listamanni í þær hæðir þar sem hann á heima í mælikvörðum háskóla. Hún er Háskóla Íslands sjálfum einnig sæmdarauki. Það var einmitt haft á orði við athöfnina í dag og þótti mér það við hæfi.

----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometimes people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Usually this is because the reply has been directed to the trash bin. Be aware of this.)