Fara í efni

PALESTÍNA: "VIÐ VILJUM RÉTTLÁTAN FRIÐ"


Í Nablus hafa 700 íbúðarhús verið lögð í rúst og 4000 heimili verið stórskemmd. Á myndinni eru ásamt undirrituðum, Borgþór Kjærnested og Eiríkur Jónsson fyrir framan húsarústir í miðbæ Nablus.

Aðfaranótt mánudags 3. janúar lentum við Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, í Tel Aviv í Ísrael. Förinni var heitið til Palestínu í boði palestínsku verkalýðshreyfingarinnar, en landið er sem kunnugt er hersetið af Ísraelsmönnum. Heimsókn okkar til Palestínu er fyrir milligöngu félagsins Ísland Palestína en fulltrúum ASÍ, BSRB og KÍ var boðið í þessa för en úr varð að fulltrúar BSRB og KÍ fóru einir á vettvang.
Í Tel Aviv tók Borgþór Kjærnested, hinn gamalreyndi kunnáttumaður úr alþjóðaverkalýðsstarfi, fulltrúi félagsins Ísland Palestína í þessari ferð, á móti okkur ásamt Qussay Odeh sem bjó um fimm ára skeið á Íslandi, systursonur Sahlmans Tamimis eins helsta forsvarsmanns Palestínumanna á Íslandi og félaga míns í BSRB eftir því sem ég best veit. Við gistum í Jerúsalem það sem eftir lifði nætur en héldum síðan til Nablus á Vesturbakkanum þar sem við vorum allan eftirmiðdaginn og gistum síðan aðfaranótt þriðjudags.

Verkalýðshreyfingin og forsetakosningarnar

Í Nablus hittum við forseta palestínsku verkalýðshreyfingarinnar, Shaher Sae´d, ásamt fjölda stjórnarmanna í hreyfingunni. Þeirra á meðal var Annan Quadri sem er samstjórnarmaður minn í PSI, Public Services International, Alþjóðasamtaka starfsfólks í almannaþjónustu (sjá hér).
Næsta sunnudag eru forsetakosningar í Palestínu og verður maður mjög var við undirbúning þeirra, á veggspjöldum og öðrum sýnilegum áróðri auk þess sem tal manna snýst meira og minna um kosningarnar.
Verkalýðshreyfingin tekur ekki afstöðu með frambjóðendum að öðru leyti en því að hún hvetur menn til að fylgjast með áherslum frambjóðenda en fyrst og fremst vill hún stuðla að því að fólk kjósi. Þegar hafa yfir 80% atkvæðisbærra manna látið skrá sig og þykir líklegt að þátttaka verði enn meiri og á kosningadaginn verða sérstakir kjörstaðir fyrir fólk sem ekki hafði tekist að skrá sig fyrir kosningarnar.
Í aðalstöðvum palestínsku verkalýðshreyfingarinnar komum við inn á fund þar sem verið var að undirbúa leiðbeinendur fyrir kosningarnar og kom í ljós að þeir voru allir kennarar. Fögnuðu þeir Eiríki Jónssyni mjög þegar þeir heyrðu að hann væri formaður íslensku kennarasamtakanna. Við fluttum kveðjur verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og gerðum grein fyrir þeirri samstöðu sem  íslenska hreyfingin hefði sýnt málstað Palestínumanna. Fulltrúar Palestínumanna á staðnum þökkuðu veittan stuning. Það vakti athygli okkar hve margir fundarmanna kváðu sér hljóðs. Ein kona sagði í tilfinningaþrungnu ávarpi að Palestínumenn væru ekki að sækjast eftir sigrum heldur réttlæti, réttlátum friði, þar sem við getum starfað í friði, menntað börnin okkar, hlúð að þeim og veitt þeim öryggi. Fyrir þessu og aðeins þessu erum við að berjast. Þess má geta að yfir 60% Palestínumanna á herteknu svæðunum lifa undir fátæktarmörkum og atvinnuleysi er að jafnaði tæplega 50%, sums staðar um 70%, jafnvel meira.

Tveir frambjóðendur í frontinum

Að loknum þessum fundum heimsóttum við tvær kosningamiðstöðvar, annars vegar hjá Mahmoud Abbas, sem spáð er sigri, og hins vegar Mustafa Barghouti, lækninum og mannréttindafrömuðinum sem heimsótt hefur Ísland, og hefur verið kynntur okkur af hálfu Sveins Rúnars Haukssonar læknis, formanns félagsins Íslands Palestínu, af mörgum góðum verkum.
Alls eru nú 7 frambjóðendur um hituna en þessir tveir eru á frontinum. Um eftirmiðdaginn ræddum við einnig við fulltrúa læknasamtakanna, Palestinian Medical Relief Society en Mustafa Barghouti hefur verið í forsvari þeirra. Ativ Sae´d  tók á móti okkur í Nablus og var okkar hjálparhella þennan daginn og fylgdi hann okkur hvert fótmál. Ativ er fréttamaður og ók hann bíl sem merktur var Reuters fréttastofunni enda starfandi fyrir hana sem fréttaritari.
Um kvöldið snæddum við með fulltrúum verkalýðssamtakanna og fyrrnefndra læknasamtaka, dr.Ghassan Hamdan núverandi framkvæmdastjóra samtakanna í Nablus. Við borðuðum á hótelinu okkar en ísraelski herinn hefur séð til þess að langflestum veitingastöðum, sem bjóða upp á góðar máltíðir að kvöldlagi, hefur verið lokað í Nablus. Á kvöldgöngu fyrir svefninn sáum við þrjá bryndreka rétt hjá hótelinu. Inn um rúðurnar mátti greina ísraelska hemenn rýna í vegakort. Þeir voru greinilega að ákveða hvar ætti að bera niður í nótt, hvar skyldi tekið hús á mönnum – svona til að halda hinni hernumdu þjóð við efnið; til að minna á hver stjórnar og hver hlýðir, hver hefur valdið og hverjum ber að sýna undirgefni. Ég dáist að Palestínumönnum fyrir þá þrautseigju sem þeir sýna frammi fyrir viðbjóðslegu ofbeldi hernámsliðsins. Í morgunsárið á þriðjudag – í dag – fréttum við að þrír ungir menn höfðu verið handteknir í Nablus. Í Ramallah var ungur palestínumaður skotinn til bana á sama tíma. Hann var ungur og palestínskur. Það er lífshættulegt á þessum slóðum að vera ungur og af palestínsku bergi brotinn.

Farið drullupollaleiðina!

Ástandið á herteknu svæðunum er vægast sagt slæmt. Á svæðum Palestínumanna er allt í hers höndum í bókstaflegum skilningi og eru það hendur ísraleska hersins sem hér ráða öllu. Okkur er sagt að nú í aðdraganda kosninganna hafi heldur dregið úr niðurlægingunni sem Palestínumenn eru daglega beittir á eftirlitsstöðvum ísraelska hersins (á Vesturbakkanum eru þær um 100 talsins).  Vitað er að fjöldi útlendinga er á svæðinu og er það talið líklegasta skýringin á þessu óvenjulega afskiptaleysi. Hins vegar er ljóst að smásmugulega úthugsuð grimmd og mannfyrirlitning finnur sér jafnan einhvern farveg. Þegar við vorum á leið út úr Jerúsalem á mánudagsmorguninn í grennd við kynþáttamúrinn illræmda virtust tveir kostir blasa við um akstursleiðir. Önnur malbikuð og greðifær að sjá. Hún var svo til auð. Hin leiðin, ómalbikuð með svo djúpum drullupollum eftir úrhellisrigningu næturinnar að jafna mátti við minniháttar stöðuvötn. Ísraelskur hemaður vísaði palestínskum bílstjóra okkar að aka drullupollaleiðina. Ég spurði, hvers vegna hann vísaði okkur þessa leið en ekki hina greiðfærari. Það er einmitt vegna þess að hin leiðin er í lagi, svaraði bílstjóri okkar að bragði. Við höfðum séð nógu mikið til að skilja hvað hann átti við.