Fara í efni

ÓSAMMÁLA KATRÍNU

Í tengslum við forsetakosningarnar hefur sprottið umræða um það hvort Ísland geti, og þá að hvaða marki, haft aðrar áherslur en hernaðarbandalagið NATÓ í þeim utanríkismálum sem lúta að stríði og friði.

Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi forsetaframbjóðandi, hefur þráfaldlega minnt á það sjónarmið sitt í samhengi þessar umræðu að okkur séu mikil takmörk sett vegna veru okkar í NATÓ.
Á framboðsfundi með Morgunblaðsmönnum á Akureyri sagði hún: »Eins og ít­rekað hef­ur komið fram hjá mér í þess­ari kosn­inga­bar­áttu, raun­ar ólíkt sum­um öðrum fram­bjóðend­um, þá geri ég mér grein fyr­ir því að Ísland er ekki hlut­laust land.» Því valdi aðildin að NATÓ.

Það er nú það. Um þetta hefur verið deilt i áranna rás, ekki bara á Íslandi heldur um NATÓ-heiminn allan og ekki minni maður en Dwight D. Eisenhower, fyrrum Bandaríkjaforseti, varaði við því, sem frægt varð, að láta hernaðaröflin, the military industrial complex, stýra för í afstöðu okkar til stríðs og friðar. Þessi fyrrum yfirhershöfðingi úr heimstyrjöldinni síðari gerði sér grein fyrir togstreitunni, gagnstæðum sjónarmiðum sem tækjust á við stefnumótun á þessu sviði.

Ákvarðanir um hernaðaruppbyggingu á Íslandi og fylgispekt við allt það sem NATÓ segir og gerir, og nánast allt sem Bandaríkjastjórn segir og gerir, hefur verið einkennandi fyrir í utanríkisstefnu Íslands síðustu árin.

Og nú þegar við heyrum eina ferðina enn að svona hljóti þetta að eiga að vera, er ásæða – aftur eina ferðina enn – að hreyfa andmælum.

Vitað er að auðveldast er að fljóta með straumnum eins og gert hefur verið, styggja engan í góðravinahópnum, jafnvel taka undir og hvetja til dáða. Nákvæmlega það hefur verið gert á undanförnum árum enda ekki staðið á lofi og prísi frá stríðshaukum. Auðvitað þykjast allir alltaf hafa verið friðarsinnar og aldrei viljað annað en frið. En eitt er að láta slíkt í veðri vaka á yfirborðinu, annað hvað gert er þegar til kastanna kemur og taka þarf afstöðu til einstakra mála, stuðningi við stríðsrekstur eða friðarumleitanir.

Það er ekki alltaf þægilegt að synda á móti straumnum. En þegar það hins vegar er gert er ekki að sökum að spyrja, straumurinn fer að taka aðra stefnu. Og vilji menn beina kröftum sínum inn í friðsamlega farvegi, af þeirri háskabraut sem heimurinn er óvéfengjanlega núna á, þá er það hægt.

Ef við bara þorum og viljum, þá getum við. Hefur þetta ekki verið orðað þannig?

Hér er slóð á grein um tengt efni  á visir.is: https://www.visir.is/g/20242573191d/hulda-eda-stoltenberg-

------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.