Fara í efni

Mette og Mike, Jens og Sanna

Birtist í Morgunblaðinu 13/14.09.25.

Getur verið að samskipti stjórnenda þjóða geti orðið of náin; svo náin að forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar og síðan allt aðstoðarfólkið verði nánara hvert öðru en því fólki sem kaus það til að fara með forsvar fyrir sig?

Við munum eftir þeim Mike (Pompeo) og Tony (Antony Blinken) og náttúrlega Jens (Stoltenberg) og Mettu (Frederiksen) og henni Sönnu (Marin), sem var forsætisráðherra Finnlands um skeið en er nú ráðgjafi hjá stofnuninni hans Tonys (Blair). Aldrei verður neinn ber að baki í góðra vina hópnum. Allt eru þetta góðkunningjar Íslendinga af rauðum dreglum „leiðtogafunda“ og fréttamannafundum, öll böðuð í athygli fjölmiðla og öll stjörnulostin af nálægðinni hvert við annað.

Og nú er það ekki lengur Selenskí sem þær Kristrún og Þorgerður ræða við heldur ætla þær að heyra í honum Vólódómír, hvað hann telji sig þurfa af vopnum, og forkólfar „vinaþjóðanna“ eru farnar að spyrja að auki um þörfina á aðsendum hermönnum til að deyja í Úkraínu, falla í valinn með rússnesku strákunum sem Pútin lætur deyja fyrir sína hönd.

Í kjölfar nýafstaðins norræns samstöðufundar „vinaþjóða“ í Kaupmannahöfn, þar sem miklar heitingar voru uppi, upplýsti svo Frakklandsforseti að leiðtogar 26 ríkja væru reiðubúnir að senda hermenn til Úkraínu. Enginn þeirra ætlar sjálfum sér að deyja fyrir málstað sinn en allir eru þeir reiðubúnir að láta aðra deyja fyrir sína hönd. Seinna má svo votta virðingu við gröf hins óþekkta hermanns og vikna kannski svolítið yfir fórnfýsi hinna föllnu.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra Íslands, segir það skipta öllu máli að vera í „rétta bandalaginu“. En er það virkilega svo að hernaðarbandalagið NATO, sem augljóslega er vísað til, sé að gera rétta hluti til að tryggja öryggi okkar?
Forsætisráðherrann segir að Rússar „ógni öryggi Íslands“. Þetta er alrangt, en um síðir er líklegt að svo verði, haldi fram sem horfir, að framhald verði á vígvæðingunni og vopnin færð nær „óvinaþjóðum“ sem telja sér ógnað. Okkar heimshluti var á þeirri braut að fækka vopnum, semja um bann við tilteknum vopnum, efla friðsamleg samskipti á sviði menningar og viðskipta, gera óvini að vinum. Öllu þessu var hent á haugana og þar átti „rétta bandalagið“ stærstan hlut að máli. Þetta er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá því enginn friður fæst án sannleikans.

Og nú skal enn bætt í. Bandamennirnir eru valdir samkvæmt þeirri dómgreind sem hver og einn hefur til að bera. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir í viðtali: „Það er erfitt að halda hernaðarvélinni gangandi. Það mun halda áfram að bíta og ég vona að þær tillögur sem Lindsey Graham hefur verið að tala um komi og fari af stað.”
Hver skyldi þessi nýi vinur vera? Hann er öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Suður-Karólínu, sem hefur gert sitt til að torvelda Trump hvers kyns friðarviðleitni, en þeir félagarnir eiga það sameiginlegt að vilja sölsa undir sig auðlindir Úkraínu sem og annars staðar. Þannig höfðu þeir Vólódímír og Lindsey orðið ásáttir um að taka auðlindavinkilinn á áframhaldandi stuðning BNA löngu áður en Trump kom að því borði. Þið verðið að gá að því að Úkraínumenn sitja á „gullnámu“ sagði Lindsey svo að eftir var tekið. Þá námu höfðu evrópskir „vinir“ einnig komið auga á.
Og vinaklærnar hafa þeir Úkraínumenn komið auga á sem mótmælt hafa auðlindaráninu í landi sínu þótt raddir þeirra fái ekki að heyrast svo að heitið geti í fjölmiðlum.

En til eru aðrar raddir.
Þannig sá ég skrifað í þessu blaði nýlega: „Evrópuleiðtogar ala á þeirri trú að fleiri fórnir úkraínsks æskulýðs á stríðsbálið verði Evrópu til bjargar frá hernámi Rússa en halda því þó kokhraustir fram að Rússar verði sigraðir á vígvelli Úkraínu. Hagkerfi Evrópusambandslanda er stillt inn á vígbúnað á kostnað velferðar … Þótt lýðræði og lífsgildum sé hampað glata þau merkingu ef auðræði og auðhringir ná undirtökum og völdum. Hergagnaiðnaður fær þá að soga til sín fjármuni og atgervi til að þjóna dauða og vega að lífi. Það sannast sem fyrr að ekki er hægt að þjóna bæði Guði og Mammon. Mannlíf og jörð þarfnast síst vígbúnaðar og vígaferla.”
Svo mælist Gunnþóri Ingasyni, fyrrverandi sóknarpresti.
Mér þykir honum mælast vel.

----------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)