Fara í efni

LÖG, STÉTTARFÉLÖG OG VANHÆFIR STJÓRNENDUR

Í vikunni skrifaði trúnaðarmaður stéttarfélags harðorð mótmæli gegn uppsögn 65 ára konu, starfsmanns á Landakoti til langs tíma.

Ef lög til verndar starfsöryggi á vinnustað væru numin brott, stéttarfélög látin deyja drottni sínum og fyrir vikið trúnaðarmenn á vinnustöðum úr sögunni - í það minnsta í veikri stöðu án kjarasamninga og laga til að styðjast við - mætti komast hjá því að mál af þessu tagi rötuðu í opinbera umræðu.

En því var ekki til að dreifa nú. Trúnaðarmaður sem tekur hlutverk sitt alvarlega var til staðar á Landakoti, að baki honum stóð stéttarfélagið Sameyki og þarna voru lögin sem kveða á um rétt starfsmanna.

Þess vegna fengum við að vita um þessa uppsögn á Landakoti og hvernig hana bar að.

En hvað skal gera til að forðast fordæmingarskrif eins og þau sem birtust eftir trúnaðarmanninn í kjölfar uppsagnarinnar og jafnframt yfirlýsingu eins og kom frá Sameyki um könnun á réttarstöðu viðkomandi einstaklings?

Samtök atvinnurekenda, Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins eiga svar við því. Þau vilja einfaldlega burt með allt þetta og byrja á lögunum. Og því kalli hlýðir ríkisstjórn landsins.

Eins og fram hefur komið í fréttum eru á vinnsluborði ríkistjórnarinnar áform um að afnema ákvæði úr lögum sem kveða á um áminningarskyldu stjórnanda áður en hann rekur einstakling úr starfi sem gerst hefur brotlegur eða þykir ekki standa sig.

Úlfljótur, tímarit lögfræðinema við Háskóla Íslands, efndi til málþings um þetta efni og er á heimasíðu Viðskiptaráðs að finna hlekk á þennan fund: https://vi.is/frettir/erindi-a-hatidarmalthingi-ulfljots

 

Ekki kom það mér á óvart að til væru stjórnendur opinberra stofnana sem vilji vera lausir við lög sem gera þeim erfitt um vik að reka fólk skýringlaust úr vinnu. Það er átakaminnst fyrir þá stjórnendur sem ekki eru starfi sínu vaxnir að hafa þennan hátt á. En að það skuli eiga við um meirihluta stjórnenda að vera þessarar skoðunar er ekki traustvekjandi – það er að segja um þeirra hæfi.

Augljóst er að vanda þarf betur val á stjórnendum hjá hinu opinbera.


Umfjöllun Sameykis: https://www.sameyki.is/frettir/stok-frett/2025/10/31/Hrekkjavaka-a-Landakoti-starfsmadur-rekinn-fyrirvaralaust/ 

---------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.

To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)