Fara í efni

Lítilmagni leitar ásjár í útlöndum

Samtök banka og fjármálafyrirtækja gera það ekki endasleppt í aðför sinni að Íbúðalánasjóði. Allra leiða er nú leitað til að koma sjóðnum fyrir kattarnef. Löngu áður en ákveðið var að stefna að því að hækka lánshlutfall lána úr Íbúðalánasjóði höfðu bankarnir leitað til lífeyrissjóða um sanmstarf til að koma íbúðalánum yfir til bankanna. Var þá haft á orði, sem síðan hefur verið viðkvæðið, að tímaskekkja væri að opinberir aðilar væru að sýsla á lánamarkaði.
Allur almenninngur stendur forviða gagnvart þessu tali og vill einfaldlega fá að vita hvaða kerfi tryggir til frambúðar örugg lán á hagstæðum kjörum. Eftir að bönkunum mistókst að laða lífeyrissjóðina til samstarfs við sig ákváðu þeir að kæra til ESA dómstólsins. Kærunni var hins vegar hafnað þar á bæ, nokkuð sem kom almennt á óvart því ESA er kaþólskari en páfinn í markaðsáfergju sinni.
Þegar niðurstaðan hjá ESA lá fyrir – ekki fyrr –  ákváðu bankarnir að lækka vexti og hófst nú það vaxtastríð sem enn stendur. Þegar ljóst var, nú fyrir nokkrum dögum, að Íbúðalánasjóður myndi standa þetta af sér ákváðu bankarnir að áfrýja úrskurði ESA til EFTA-dómstólsins. Af því tilefni var spurt hér á síðunni hvort það flokkaðist ekki undir óeðlilegt samráð, sem nú er mikið í tísku að tala um, að bankarnir sammæltust um aðgerðir gegn samkeppnisaðila, sem Íbúðalánasjóður óneitanlega er (sjá hér).

En viti menn, á meðan niðurstöðu EFTA dómstólsins er beðið hafa  Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, sem stillt hafa sér upp sem lítilmagna í þessu tafli, leitað ásjár hjá kollegum í útlöndum. Okkur er sagt í fréttum að ákallinu hefði verið svarað: Evrópusamtök banka, með hvorki meira né minna en 4500 fjármála- og verðbréfafyrirtæki innanborðs, hafa ályktað í þá veru að ósanngjarnt og óeðlilegt sé að íslenskt samfélag reki Íbúðalánasjóð!

Margorft hefur verið sýnt fram á að yfirgnæfandi líkur séu á því, að hverfi Íbúðalánasjóður af sjónarsviðinu muni kjör íbúðalána, einkum í hinum dreifðu byggðum landsins, þyngjast til muna. Það er ósvífni í hæsta máta að stórkapítalistar, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, leyfi sér að ráðast á samfélagsstofnanir sem byggja á lýðræðislegum vilja. Síðan er mér spurn: Í ljósi ofangreindrar atburðarásar hvort aðhalds frá Íbúðalánasjóði sé ekki þörf á íslenskum lánamarkaði? Staðreyndin er nefnilega sú að Íbúðalánasjóður er ekki aðeins mikilvæg stofnun fyrir landsmenn, hún er lífsnauðsynlegt aðhald á bankakerfi landsmanna.