Fara í efni

Bankar leita "réttar" síns á samráðsvettvangi

Bankarnir segjast vera í bullandi samkeppni sín í milli. Nú sé loksins komið heilbrigt ástand á íslenskum fjármálamarkaði. Að vísu hafa þeir verið nokkuð samstiga í vaxtabreytingum. En látum það vera. Nú bregður hins vegar svo við að samtök sem nefnast Samband banka- og verðbréfafyrirtækja kærir Íbúðalánasjóð til ESA: Íbúðalánasjóður sé að flækjast fyrir bönkunum á fasteignamarkaði. Þetta sé félagsleg stofnun sem eigi ekkert upp á dekk í nútímaþjóðfélagi! ESA, úskurðardómstóll hins Evrópska efnahagssvæðis, er bönkunum hins vegar ekki sammála –aldrei þessu vant því ESA dómstóllinn er kaþólskari en páfinn þegar markaðslögmálin eru annars vegar. Hvað um það, rúm vika líður og hefst nú mikið vaxtastríð, sem bankarnir beina gegn Íbúðulánasjóði. Nú þegar ljóst virðist að Íbúðalánasjóður ætlar að standast áhlaupið er kært að nýju, nú til EFTA-dómstólsins. Og aftur er það Samband banka- og verðbréfafyrirtækja sem kærir. En hverjir skyldu halda um stjórnvölinn á þeim bænum?.

Á heimasíðu samtakanna sbv.is kemur í ljós hverjir skipa stjórnina:

Stjórn
Hreiðar Már Sigurðsson, formaður
Bjarni Ármannsson, varaformaður
Finnur Sveinbjörnsson
Halldór J. Kristjánsson
Sigurður Valtýsson
Sævar Helgason
Þórður Már Jóhannesson

Þarna eru fjórir bankastjórar. Einn úr KB banka, annar úr Íslandsbanka, sá þriðji úr Sparisjóðabankanum og sá fjórði úr Landsbankanum. Með öðrum orðum, þetta er samráðsvettvangur bankanna, þeirra aðila sem þykjast eiga hér í bullandi samkeppni. Þeir sammælast um að reyna að koma erfiðasta keppinaut sínum, þeim aðila sem best gætir almannahagsmuna, út af markaði! Er þetta sæmandi? Samræmist þetta lögum? Svari nú allir áhugamennirnir um frjálsa samkeppni.

Enn eitt vekur athygli. Aðild að sambandinu á Byggðastofnun! Hún er samfélagsleg stofnun sem lýtur almannastjórn. Nú er spurningin þessi: Hvers vegna tekur Byggðastofnun þátt í aðförinni að Íbúðalánasjóði? Ljóst er að takist þessi aðför munu afleiðingarnar verða verstar fyrir dreifbýlið. Skiptir það Byggðastofnun engu máli?

Ef  Íbúðalánasjóður á bara að sjá um landsbyggðina og þá tekjulægstu eins og Samráðsvettvangur bankastjóranna krefst þá stórhækkar fjármögnunarkostnaður sjóðsins. Annað hvort verða vextir  til þessara hópa hærri en á lánum sem bankarnir munu bjóða hátekjufólki og þeim sem búa á svæðum þar sem veð eru trygg. Ef síðan samfélagið vill rétta hlut hinna útskúfuðu til jafns við kjör sérvalinna viðskiptavina bankanna verður  ríkið að grípa inní og greiða beint niður vexti til landsbyggðar og lægri tekjuhópa með beinum framlögum úr ríkissjóði. Er meiningin ef til vill að gera þetta með milligöngu Byggðastofnunar?

Til viðbótar má undirstrika að Eftirlitsstofnun EFTA hefur úrskurðað að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé lögleg og afar vel til þess fallin að ná fram félagslegum markmiðum sínum að bjóða fyrrgreindum hópum lægstu mögulegu lán sem unnt er að fá á frjálsum fjármagnsmarkaði með þeirri aðferðafræði að bjóða öllum ákveðin grunnlán - til kaupa á hóflegu húsnæði - án beinna niðurgreiðslna úr ríkissjóði.

Auðvitað þurfa menn að vera sérstaklega vel verseraðir í frelsisfræðum frjálshyggjunnar til að fá það til að ganga upp að Samráðsvettvangur bankastjóra kæri Íbúðalánasjóð - sjóð sem gert er að starfa á sjálfbærum forsendum á markaði - á þeirri forsendu að hann sé að gera aðför að samkeppni á íslenskum fasteignalánamarkaði þegar honum tekst að ná niður vaxtakjörum fyrir almening í landinu!