Fara í efni

LÆKNISFRÆÐI EÐA HAGSMUNABARÁTTA?

Afleitt er þegar læknar og hjúkrunarfólk ruglar saman starfi sínu innan heilbrigðiskerfisins annars vegar og löngun til að græða peninga í bisniss hins vegar. Látum það vera þótt starfsmenn innan heilbrigðisþjónustunnar vilji fá vel greitt fyrir sín störf. Ekki er ég andvígur því þótt þar vilji ég fyrir alla muni að horft sé til réttlátrar skitpingar á milli starfsfólksins. Verra er þegar þessir aðilar vilja umbylta heilbrigðisþjónustunni  í bisnissrekstur til að hagnast á henni.

Þetta kom  upp í hugann þegar okkur voru sagðar þær fréttir af þingi Læknafélags Íslands um helgina að nú þyrfti að fara að reisa einkasjúkrahús í samvinnu við peningamenn! Athygli vakti orðalagið í gagnrýni á sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík en samkvæmt fréttum RÚV lítur Læknafélagið svo á að "sjúklingar verði að sætta sig við þá þjónustu sem einokunarspítali bjóði… Og áfram segir Ríkisútvarpið: "Í greinargerð Læknafélags Íslands kom fram að læknar þurfi að hefjast handa við undirbúning sjúkrahúsreksturs á eigin vegum eða í samvinnu við fjárfesta."

Þá kom fram í fréttaviðtali við framkvæmdastjóra Hjartaheilla á vef Ríkisútvarpsins að hann leggur til að "hér verði stofnað sérstakt brjótsholssjúkrahús og segist finna meðbyr við slíkum hugmyndum." Mér skildist á fréttinni að slíkt sjúkrahús ætti að vera einkarekið. Ef svo er liggur næst við að spyrja hvar framkvæmdastjórinn hafi helst fundið fyrir meðbyr; hjá sjúklingum, hjá skattgreiðendum eða kannski helst hjá fjárfestunum? Hver á að borga brúsann? Almenningur með sköttum sínum? Er þetta kannski hugsað sem sjúkrahús fyrir ríka fólkið? Á almenningur þá hugsanlega að niðurgreiða það? Hvað eru menn að hugsa?

Nú þarf að taka þessa umræðu. Atvinnurekendasamtök og Viðskiptaráð hafa margoft predikað einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Það sjá allir hvað þar er á ferðinni. Hrein hagsmunabarátta. Engin sauðagæra til að villa mönnum sýn.

Öðru máli gegnir þegar bisnissmaðurinn er á hvítum læknasloppi. Þá er hætt við að menn ruglist í ríminu. Það má ekki henda fréttamenn þegar þessi mál nú ber á góma. Til umræðu er ekki læknisfræði heldur krónur og aurar. Auk að sjálfsögðu sjálfar undirstöður þjóðfélags jafnaðar og velferðar – fyrir alla. Ekki bara suma.

Fjölmargar greinar hafa birst um þetta efni hér á síðunni. Umræðan nú minnir á umræðu sem fram fór árið 2000. HÉR er birt grein sem vísar í þá umræðu frá þeim tíma. Og HÉR er tengt efni.