Fara í efni

Má treysta orðum þínum, Ingibjörg Pálmadóttir?

Birtist í Mbl
Í fréttum fyrir fáeinum dögum lýsti Ingibjörg Pálmadóttir því yfir að frekari einkavæðing væri ekki á döfinni í heilbrigðiskerfinu. „Það stendur ekki til að einkavæða frekar í heilbrigðiskerfinu,“ sagði ráðherrann í viðtali við Dag fimmtudaginn 24. ágúst. Ingibjörg Pálmadóttir sagði í sama viðtali að vissulega væru læknar víða með einkastofur, öldrunarþjónusta væri þegar rekin af sjálfstæðum aðilum en „…það er ekkert í dag sem við erum að skoða til viðbótar þessu í einkarekstri nema hvað ákveðið var og um það samið fyrir nokkrum árum að skoða eina heilsugæslustöð í Reykjavík, sem rekin yrði í samvinnu við heimilislækna til þess eins að fá samanburð.“ Samanburður á einkareknu heilbrigðiskerfi er reyndar fyrir hendi. Samkvæmt skýrslum OECD er bandaríska heilbrigðiskerfið það dýrasta á byggðu bóli en það er að uppistöðu til einkarekið. Það íslenska kemur hins vegar vel út í þeim samanburði. Það er illskiljanlegt að íslenskur heilbrigðisráðherra skuli þurfa að prófa mistök Bandaríkjamanna á íslenskri þjóð á sama tíma og bandarískir stjórnmálamenn, pólitískir samherjar Ingibjargar Pálmadóttur í Bandaríkjunum, eru að reyna að brjótast út úr frumskógi markaðshyggjunnar og feta sig inn á okkar braut, inn í það kerfi sem kennt er við Norðurlöndin.

Ef til vill er ráðherranum þó vorkunn. A.m.k. er ljóst að á hann er þrýst. Í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins mánudaginn 28. ágúst var viðtal við tvo menn í viðskiptalífinu sem báðir hafa læknispróf og stunda lækningar. Þeir voru á því máli að brjóta þyrfti markaðslögmálunum leið inn í heilbrigðisþjónustuna hér á landi í ríkari mæli en þegar hefur verið gert. Nokkur munur var á viðhorfum þeirra og málflutningi en báðir voru þeir þó fyrst og fremst að fjalla um heilbrigðisþjónustuna með tungumáli verslunar og viðskipta og svo ákafur var annar þeirra að hann virtist vilja innleiða bandaríska kerfið með húð og hári, þar með talið einkareknum tryggingum enda þótt vitað sé að slíku kerfi fylgir félagslegt misrétti að ógleymdum tilkostnaðinum. Síðan var talað fjálglega um að innræta þyrfti sjúklingum kostnaðarvitund. Og eitthvað var minnst á verðbréfamarkaðinn.

Hér er verið að endurvekja umræðu sem við gengum í gegnum fyrir nokkrum árum. Þá hafnaði þjóðin þessum lausnum og hefur reyndar gert það ítrekað samkvæmt fjölda skoðanakannana þar sem grafist hefur verið fyrir um hvernig fólk vildi fjármagna velferðarþjónustuna. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill að velferðarþjónustan sé fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna en ekki með notendagjöldum og einkareknum tryggingafyrirtækjum. Það er frumstæð hugsun að innræta þurfi sjúku fólki vitund um hver baggi það er á samfélaginu. Nær væri að innræta þeim læknum sjálfum sem svona tala ábyrgðarkennd og kostnaðarvitund, ef því er að skipta, þegar þeir tala fyrir amerísku heilbrigðiskerfi á Íslandi.

Það er sorglegt ef gráðugasta fólkið í læknastétt nær tökum á stefnumótun fyrir stéttina í heild sinni - það væri sorglegt ef læknastéttin sem nýtur mikillar virðingar og velvildar ætlar að fara að nálgast sjúklinga sína á nýjan hátt - sem fulltrúi fyrirtækja á verðbréfamarkaði. Nú kemur til kasta heilbrigðisyfirvalda, að þau standi í fæturna fyrir hönd sjúklinga og skattborgara gagnvart fjárgróðamönnum með læknispróf. Þess vegna eru nú festar á blað yfirlýsingar heilbrigðisráðherrans um að einkavæðingin verði stöðvuð. En jafnframt er spurt hvort treysta megi tilvitnuðum orðum ráherrans.