JÓNS H. STEFÁNSSONAR MINNST
Í gær fór fram útför vinar míns Jóns H. Stefánssonar frá Seltjarnarneskirkju. Ég var staddur erlendis og gat þess vegna ekki fylgt honum en gerði það hins vegar með nokkrum orðum í minningargrein í Morgunblaðinu og fer hún hér á eftir:
Jón Hilmar Stefánsson var mildur maður en fastur fyrir. Hann var hjálpsamur - og var þar aldrei nokkurt hik á - en að sama skapi hreyfði hann sig hvergi ef menn vildu fá honum hnikað frá lífsgildum hans um jöfnuð og lýðræði. Þá varð honum hvergi haggað. Þannig kom hann mér fyrir sjónir, í senn klettur og maður mjúkur.
Eflaust eru margir betur færir til þess en ég að draga upp karaktermynd af Jóni Stefánssyni. Samt er það nú svo, að ef menn hafa setið saman í vinnutörnum heilu kvöldin og stundum fram eftir nóttu og fram á morgun jafnvel, þá kynnast menn hver öðrum býsna vel.
Þetta átti við um samstarf okkar Jóns, kunningsskap okkar og að lokum vináttu. Hann var í tækniliði Sjónvarpsins, var klippari sem kallað var. Jón klippti ásamt öðrum fréttirnar allan þann tíma sem ég starfaði hjá Sjónvarpinu, frá því undir lok áttunda áratugarins og lungann úr þeim níunda. Fyrst var unnið með filmu og síðan myndbönd þegar þau komu til sögunnar. Vökur okkar tengdust þó ekki fréttaklippinu heldur Kastljóss- og Umheimsþáttum sem Jón vann oft með mér. Þessir þættir voru yfirleitt blanda af tilklipptu efni við texta minn og síðan umræðum í sjónvarpssal. Framlag klipparans var ekki lítið, það krafðist fagmennsku og að hafa auga fyrir hinni listrænu vídd og svo ekki síst skilning á viðfangsefninu. Í hinu síðastnefnda náðum við Jón Stefánsson fullkomlega saman. Og þarna gleymdum við okkur oftar en ekki í spjalli um landsins gagn og nauðsynjar þar til haninn gól að morgni.
Jón og Elísabet, sú trausta og góða kona, sýndu mér og Völu konu minni alla tíð mikla vinsemd, nú síðast í sumar þegar þau buðu okkur að dveljast um skeið í íbúð sinni í Suður-Frakklandi, við rætur Píreneafjallanna, rétt norðan landamæranna við Spán. Við hittumst eftir heimkomuna á heimili þeirra Jóns og Elísabetar en myndakvöldið var eftir.
Og þá stóðu vonir okkar til þess að koma oftar saman í rólegheitum á ævikvöldinu að minnast samstöðuáranna hjá Sjónvarpinu þegar við, ásamt svo mörgum öðrum góðum félögum, gerðum Starfsmannafélag Sjónvarpsins að einu öflugasta verkalýðsfélagi landsins þótt smátt væri.
Á stundum sem þessum er maður minntur á mikilvægi þess að gefa sér tíma til þess að rækta vináttuna.
En þótt við ættum eftir þennan sögulega upprifjunarleiðangur geymast minningarnar og verða þær minningar sem ég á um samvinnu okkar Jóns Stefánssonar mér ætíð tilefni til bjartsýni og til umhugsunar um góðan vin og félaga.
Við Vala vottum Elísabetu konu Jóns Stefánssonar og afkomendum þeirra hjóna okkar dýpstu samúð.
------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)