ÍSLAND Í KJÖRSTÖÐU
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.01.26.
Ekki er um það að villast að stórveldapólitíkin er komin upp í flæðarmálið til okkar Íslendinga. Ekki svo að skilja að Íslendingar hafi ekki fundið fyrir henni áður því ekki fórum við varhluta af næðingsvindum kaldastríðsáranna. Þjóðin klofnaði í afstöðunni til erlendrar hersetu og lengi vel einkenndu heift og heitingar umræðu um utanríkismál.
Það sem ég hygg að menn eigi hins vegar sameiginlegt þessa dagana er undrun; menn spyrja í forundran hvort það geti verið að nýlenduvargur sé farinn að láta á sér kræla á okkar slóðum? Afskipti og íhlutun Bandaríkamanna í Rómönsku Ameríku er síður en svo ný af nálinni – nánast daglegt brauð alla síðustu öld og gott betur. En þegar Trump segist vilja Grænland vegna hernaðarhagsmuna og auðlinda glenna menn upp augun. Og þau sem talin eru vera kunnáttufólk eru kölluð til viðtals í fjölmiðlum og spurð hvort röðin kunni að koma að Íslandi.
Já, hvað með Ísland er einnig spurt suður í Brussel þessa dagana. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mætir hingað til lands, fundar með forsætisráðherra og utanríkisráðherra í herstöðinni í Keflavík og viti menn, yfirhershöfðingi Þýskalands mætir einnig til fundar að ræða «varnarmál» uppáklæddur að hermannasið með alla tilheyrandi borða og medalíur. Á þetta að vera táknrænt? Spyr sá sem ekki veit.
Hitt þykist ég vita að nú hafi sú áherslubreyting orðið í Brussel að þar á bæ sé ekki bara horft til auðlinda Íslands sem eru ekki litlar í fiski og orkugjöfum heldur einnig til þeirra tugþúsunda ferkílómetra sem innlimun landsins i ESB myndi stækka yfirráðsvæði sambandsins norður á bóginn. Og til þess horfa samningamenn við alþjóðataflborðið. Gengju Íslendingar í Evrópusambandið yrði ekki lengur um það að ræða að við gerðum samning við önnur ríki þar á meðal við Bandaríki Norður-Ameríku. Frá öllu slíku yrði gengið við borð í Brussel og við þar hvergi nærri.
Spekingarnir sem spurðir eru út í Trump og þær yfirlýsingar hans um að hann vilji ráða vesturhveli jarðarinnar - í það minnsta - komast sumir hverjir að þeirri niðurstöðu að Íslendingum beri nú að halla sér að Evrópusambandinu, banka þar upp á og öðlast þannig öryggi innadyra.
Vissulega yrði sjálfstæði okkar og fullveldi þá farið fyrir bí því að Evrópusambandið talar einni röddu á alþjóðavettvangi og leyfir engin frávik hvort sem er í samningum við Alþjóðaviðskiptastofnunina eða aðrar þær alþjóðastofnanir, sem við eigum nú beina og milliliðalausa aðkomu að, og hreyfanleiki okkar innan ESB yrði enn minni en hann er nú í EES samstarfinu og hefur þó þrengst mikið síðan frá þeim sáttmála var gengið með lögum árið 1994.
Einhverjir kunna að segja að það séu órar að trúa því að smáþjóð geti haldið fullveldi sínu og sjálfstæði í grimmum heimi þar sem harðvítug hagsmunapólitík er rekin og vopnin eru iðulega látin tala.
En þá þarf líka að spyrja í ljósi þess að ógnin sem nú er til umæðru gæti komið að vestan, hvort einhver trúi því í alvöru að Evrópusambandsher yrði undir einhverjum þeim kringumstæðum sem nú eru fyrirsjáanlegar, beitt gegn Bandaríkjum Norður-Ameríku? Gæti ekki verið að friðartónn frá Íslandi væri til þess fallinn að stuðla að friði og þar með öryggi Íslands?
Það er þess virði að rifja upp orð stjórnmálamannsins Eysteins Jónssonar á Þingvöllum hinn 17. júní árið1944 þegar Ísland var lýst sjálfstætt lýðveldi. Hann varpaði fram þessari spurningu:
« Fáum vér starfsfrið og tækifæri til þess að sýna, hverju lítil, frjáls þjóð fær áorkað? Getur 125 þúsund manna þjóð stofnað lýðveldi á þessum tímum, þegar margfalt stærri þjóðir hafa verið lagðar undir okið og er haldið í áþján?»
Og Eysteinn svaraði eigin spurningu:
« Vér Íslendingar munum kappkosta að koma þannig fram við aðrar þjóðir, að vér öðlumst vináttu þeirra og traust. Vér munum unna öðrum réttar og sannmælis, en halda á rétti vorum. Slíkar verða landvarnir þjóðarinnar og aðrar eigi.»
Falleg hugsun. En er hún raunhæf? Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hafi hún verið raunhæfari en einmitt nú. Þetta er röddin sem almenningur í heiminum vill heyra. Og hver veit nema að í Washington og Brussel finnist ýmsum gott að slegið skuli á slíka strengi á Atlantshafshryggnum miðjum þegar úfar rísa beggja vegna hans.
Gæti það verið að Ísland sé nú í kjörstöðu til að verða sú rödd sem kallað var eftir á Þingvöllum fyrir rúmum áttatíu árum?
----------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)