HVORIR EIGA AÐ RÁÐA, LÆKNAR EÐA LÖGBRJÓTAR?
Þannig var engin spurning orðuð á Læknadögum í gærkvöldi. En enginn þarf að fara í grafgötur með hver væru svör allra þeirra lækna og lýðheilsufræðinga sem til máls tóku á málþingi sem efnt var til í Silfurbergi í Hörpu í gærkvöldi.
Á meðal þeirra sem töluðu var Alma D. Möller, læknir og heilbrigðisráðherra. Hún talaði skýrt og henni mæltist vel. Sölumennska ólöglegra vínsala ylli miklu félagslegu tjóni, þeir græði en samfélagið tapi.
Fram kom að um aldamótin hafi unglingadrykkja hér á landi verið einna hæst í Evrópu, samfélagið hafi þá tekið höndum saman, foreldra- og forvarnarsamtök, heilbrigðisstéttir og skólayfirvöld, um að bægja þessari óværu frá og hefði það tekist með slíkum ágætum að unglingadrykkja á Íslandi varð sú minnsta sem þekktist í Evrópu.
Nú stefni hins vegar í óefni. Forvarnarsamtök segja ágengni ólöglegra söluaðila beri þar mikla sök. Og að sjálfsögðu einnig yfirvöld sem láti lögleysið viðgangast.
Siv Friðleifsdóttir, fyrrum alþingismaður og um tíma heilbrigðisráðherra, sem haft hefur sig í frammi ásamt félögum í forvarnarsamtökum á undanförnum mánuðum, flutti áhrifarík ávarpsorð þar sem hún hvatti til aðgerða stjórnvalda og sagði gleðilegt hve einörð afstaða heilbrigðisstétta landsins með samtökunum væri. Þar væri byggt á samfélagslegri ábyrgð og að sjálfsögðu rannsóknum sem allar væru á einn veg.
Erindin sem flutt voru á málþinginu voru upplýsandi og vekjandi.
En fær þessi málflutningur hljómgrunn í Stjórnarráðinu eða munu lögbrjótarnir verða látnir hafa sitt fram? Að mínu áliti er þetta mikilvægur prófsteinn á ríkisstjórnina. Því verður seint trúað að þegar til kastanna komi muni hún ganga gegn eigin lýðsheilsustefnu, virða álit sérfræðinga í heilbrigðisgeiranum sem fást við áfengistengda sjúkdóma að vettugi, ekki hirða um heilbrigði ungviðis landsins en láti stjórnast af fólki sem hugsar um það eitt að skara eld að eigin köku.
Þegar til kastanna kemur segi ég. Að ögurstundu er löngu komið. Það fengum við að heyra á málþinginu í gær.

-----------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/
(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.
To be taken note of: Sometimes people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Usually this is because the reply has been directed to the trash bin. Be aware of this.)