Fara í efni

HIROSHIMA OG NAGASAKI FYRR EN VONANDI EKKI SÍÐAR

Alþingi samþykkti nýlega fyrir hönd Íslendinga að hungursneyð í Úkraínu á árunum 1932-3 hefði verið skipulögð af hálfu kommúnista til að útrýma fólki, með öðrum orðum hún hefði verið morð að yfirveguðu ráði: Fjöldamorð.

Ráðamenn í Kreml mótmæltu alla tíð þessum ásökunum og almennt eru sagnfræðingar ekki á þessari skoðun þingsins, sem varla er hægt að kalla skoðun Alþingis því fyrst og fremst er þetta pöntuð pólitísk yfirlýsing.

En til eru þau fjöldamorð sem eru óvéfengd; þar sem morðingjarnir gangast við glæp sínum og það meira að segja kinnroðalaust. Hver og einn getur farið í bandaríska sendiráðið í Reykjavík og fengið það staðfest að enn þann dag í dag réttlæta bandarísk stjórnvöld kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945. Með þeim frömdu bandarísk stjórnvöld fjöldamorð að yfirlögðu ráði.

Það er ástæða til að rifja þetta upp þessa dagana - og reyndar alla daga en ekki síst nú í ljósi þess að Bandaríkjastjórn, sem er leiðandi í NATÓ, leikur sér enn að eldinum með kjarnorkusprengjur. Margir kunna að minnast þess þegar Bush yngri talaði um þann möguleika að beita litlum kjarnorkusprengjum á takmörkuðum svæðum og í sama streng tók breskur forsætisráðherra, Liz Truss, árið 2022, og horfði hún þar til Rússlands vegna Úkraínustríðsins.

Ég hef stundum minnst kjarnorkuárásanna á Japan hér á síðunni á þessum árstíma, t.d. hér:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hiroshima-libanon-syrland-venesuela-libia-vidbrogd-og-vidbragdaleysi

https://www.ogmundur.is/is/greinar/ljosmyndasyning-og-kertafleyting

Hér að neðan vísa ég svo í fróðlega grein hins kunna blaðamanns Johns Pilger (í Consortium news https://consortiumnews.com/2020/08/03/atomic-bombings-at-75-john-pilger-another-hiroshima-is-coming-unless-we-stop-it-now/) frá árinu 2020 ar sem hann fjallar um kjarnorkusprengjuárásirnar á Japan í ágúst 1945 en hann leiðir jafnframt hugann að því sem þá var að gerast í heimsmálunum. Hann óttaðist að kjarnorkuvopnum kynni að verða beitt á nýjan leik.
Eitt er víst að úr þeirri hættu hefur ekki dregið.